ATH.: Upplýsingarnar sem hér koma fram eru úreltar. Skoðið frekar Framúrskarandi fyrirtæki 2020.
77 JÁVERK ehf.
Stærðarflokkur Stórt
Röð innan flokks 74
Aðsetur Selfoss
Landshluti Suðurland
Atvinnugrein - meginfl. Byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð
Atvinnugrein - ítarfl. Bygging íbúðar- og atvinnuhúsnæðis
Framkvæmdastjóri Gylfi Gíslason
Eignir 2.738.785
Skuldir 1.401.254
Eigið fé 1.337.531
Eiginfjárhlutfall 48,84%
Á listanum öll ár? Nei
Fyrri ár á listanum 2014–2017
Allar fjárhæðir eru í þúsundum króna

Veikara gengi hækkar kostnað

„Með stöðugu gengi hafa fyrirtæki eins og okkar getað staðið …
„Með stöðugu gengi hafa fyrirtæki eins og okkar getað staðið undir launaskriði undanfarinna ára sem fært hefur launþegum gríðarlega kaupmáttaraukningu, en um leið og gengið þróast til verri vegar hefur það bein áhrif á byggingariðnaðinn svo að minna verður til skiptanna,“ segir Gylfi. mbl.is/Árni Sæberg

Gylfi Gíslason segir að þrátt fyrir töluverða uppsveiflu á byggingamarkaði séu lítil merki um að bóla sé að myndast.

„Það er munur á umsvifunum í dag og fyrir fjármálahrun. Byggingaverkefnin undanfarin ár hafa komið til vegna eftirspurnar, s.s. í ferðaþjónustu, og veruleg þörf á íbúðarhúsnæði. Í síðustu uppsveiflu var hins vegar verið að framleiða húsnæði til að eiga á lager: menn byggðu og byggðu án þess endilega að tölur væru fyrir hendi sem sýndu að eftirspurn væri eftir húsnæðinu.“

Gylfi er framkvæmdastjóri verktakafyrirtækisins JÁVERK og er félagið núna á lista Creditinfo yfir Framúrskarandi fyrirtæki fimmta árið í röð. JÁVERK var stofnað 1992, veltir hér um bil 6 milljörðum króna og eru starfsmenn í kringum 110 talsins.

Gleypa ekki kúfana

Að sögn Gylfa varð það JÁVERKI til happs þegar fjármálakreppan skall á að fyrirtækið skuldaði lítið. „Vitaskuld varð samdráttur hjá okkur en við þurftum ekki að ráðast í neina endurskipulagningu skulda eða aðrar róttækar aðgerðir. Síðan, þegar geirinn fór aftur af stað eftir hrun, þá hjálpaði það okkur við að fá ný verkefni til að fást við að fjárhagsstaðan var í lagi og fyrirtækið heilbrigt.“

Góð skuldastaða JÁVERKS við hrun skrifast á að allt frá upphafi hefur þess verið gætt að láta reksturinn vaxa hægt en örugglega. „Við kjósum stöðugleika fram yfir það að vaxa hratt og mikið og höfum lítinn áhuga á að reyna að gleypa alls kyns kúfa sem koma upp á þessum markaði. Við náum samt að vera af þeirri stærð að geta tekið að okkur nánast hvaða verkefni sem er, en förum okkur í engu óðslega.“

Verkefnastaðan er góð um þessar mundir og greinilegt að áfram mun verða umframeftirspurn eftir ýmsum gerðum húsnæðis. Það sem einkum veldur Gylfa áhyggjum er launaskrið og gengissveiflur.

„Með stöðugu gengi hafa fyrirtæki eins og okkar getað staðið undir launaskriði undanfarinna ára sem fært hefur launþegum gríðarlega kaupmáttaraukningu, en um leið og gengið þróast til verri vegar hefur það bein áhrif á byggingariðnaðinn svo að minna verður til skiptanna,“ útskýrir hann. „Verktakafyrirtæki eru mjög viðkvæm fyrir gengissveiflum enda nánast ekki til neitt íslenskt byggingarefni annað en mölin í steypunni. Nýverið veiktist gengið um 10% á einum mánuði og hafði það bein áhrif á byggingarkostnað um leið.“

Allir fari eftir leikreglunum

Eins telur Gylfi ástæðu til að skoða betur hvort starfsmannaleigur sem greiði laun langt undir því sem íslenskir kjarasamningar leyfa þýði að ekki sé lengur eðlileg samkeppni á byggingamarkaði.

„Starfsmannaleigur geta verið mjög gagnlegar og t.d. hjálpað greininni að takast betur á við stórar sveiflur. En ef ekki er farið eftir leikreglunum skekkir það samkeppnisstöðuna. Upp á síðkastið hafa borist fréttir af ólíðandi hegðun starfsmannaleiga sem bæði koma illa fram við starfsfólk sitt og eru um leið að valda þeim fyrirtækjum stórtjóni sem eru með allt sitt á hreinu,“ segir Gylfi en tekur það sérstaklega fram að þó halda mætti annað af fréttaflutningnum þá séu ljótu tilvikin sem betur fer ekki algeng.

„Það er ekki einsog þetta sé grasserandi í byggingariðnaði, en auðvitað eru svartir sauðir í öllum geirum og gott að vitundarvakning er að eiga sér stað.“

Flöskuhálsar hækka kostnaðinn

Í umræðunni um íslenska fasteignamarkaðinn hefur mátt greina gagnrýni í garð skipulags- og byggingarsviða sveitarfélaganna. Halda margir því fram að alvarlegir flöskuhálsar séu í kerfinu sem hægi á framkvæmdum, geri þær dýrari fyrir vikið og tefji að nýjar byggingar rísi til að mæta sárri þörf.

Gylfi tekur undir þessa gagnrýni að hluta og segir tilefni til að laga hitt og þetta í regluverkinu, en ekki síður í því hvernig bókstaf laga og reglugerða er framfylgt. „Ein hlið vandans er sú að þegar mörkuð er sú stefna að þétta byggð þá gerir það byggingarferlið flóknara og langdregnara. Þarf að vinna nýtt deiliskipulag og fara í gegnum langt hönnunar-, kynningar- og leyfaferli,“ útskýrir hann.

„Þá er umsjón og eftirlit á margra höndum sem hægir enn frekar á afgreiðslu nauðsynlegra leyfa. Síðast en ekki síst virðist hreinlega að byggingareftirlit sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu eigi fullt í fangi með að bregðast við þeirri uppsveiflu sem verið hefur í byggingageiranum undanfarin ár og nái ekki að anna þeim erindum sem þeim berast. Veldur það töfum á framkvæmdum og hefur í för með sér mikinn þjóðhagslegan kostnað þegar upp er staðið.“

Að mati Gylfa veitir regluverkið svigrúm til að sveitarfélögin losi um tökin. „Deiliskipulagið veitir skýr viðmið um hvernig má byggja, s.s. hversu há hús eiga að vera og hve mikið byggingamagn, og þar finnst mér að afskiptunum ætti að ljúka. Fulltrúar sveitarfélaganna hafa hins vegar átt það til að hafa skoðun á útliti byggginga og ýmsum öðrum atriðum, með þeim afleiðingum að afgreiðsla leyfa dregst á langinn á meðan breytingar eru gerðar á hönnun og teikningum.“

Leggur Gylfi til að sveitarstjórnir á höfuðborgarsvæðinu reyni að liðka betur fyrir byggingaverkefnum. „Þörfin er brýn og bráðvantar ákveðnar tegundir húsnæðis. Væri þá eðlilegt að spyrja hvernig við getum tekið höndum saman um að bæta þar úr og láta framkvæmdir ganga eins greiðlega fyrir sig og frekast er unnt. Að langstærstum hluta væri hægt að leysa vandann og fjarlægja flöskuhálsana með öðru hugfarari og annars konar stjórnun.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Fleiri greinar og viðtöl