ATH.: Upplýsingarnar sem hér koma fram eru úreltar. Skoðið frekar Framúrskarandi fyrirtæki 2020.
156 Arctica Finance hf.
Stærðarflokkur Stórt
Röð innan flokks 133
Aðsetur Reykjavík
Landshluti Höfuðborgarsvæði
Atvinnugrein - meginfl. Fjármála- og vátryggingastarfsemi
Atvinnugrein - ítarfl. Fjárvörslusjóðir, sjóðir og önnur sérhæfð fjársýslufélög
Framkvæmdastjóri Stefán Þór Bjarnason
Eignir 1.093.116
Skuldir 248.118
Eigið fé 844.998
Eiginfjárhlutfall 77,3%
Á listanum öll ár? Nei
Fyrri ár á listanum 2012–2017
Allar fjárhæðir eru í þúsundum króna

„Tækniþróunin er einna hröðust í fjármálageiranum“

Stefán Þór Bjarnason framkvæmdastjóri Arctica Finance.
Stefán Þór Bjarnason framkvæmdastjóri Arctica Finance.

Stefán Þór Bjarnason framkvæmdastjóri Arctica Finance segir margt gott við að starfrækja fyrirtækið í landinu. Hann telur hins vegar að þar sem við erum fá í landinu séu fjárfestar á markaði jafnframt fámennur og einsleitur hópur. Erlendum aðilum á markaði hefur fjölgað en hann telur mikilvægt að auka þátttöku innlendra og erlendra aðila í fjárfestingu á markaðnum.

Stefán Þór er einn af stofnendum Arctica Finance hf. og hefur gegnt hlutverki framkvæmdastjóra fyrirtækisins frá stofnun. Fyrir stofnun Arctica Finance starfaði hann í 10 ár hjá Landsbanka Íslands, fyrst á fyrirtækjasviði bankans og síðar í fyrirtækjaráðgjöf.

Komu að flóknum endurskipulagningarmálum

Hvað getur þú sagt mér um fyrirtækið sem þú stjórnar?
„Í miðju fjármálahruninu haustið 2008 tók ákveðinn kjarni sem hafði um nokkurt skeið starfað saman hjá fyrirtækjaráðgjöf Landsbankans ákvörðun um að stofna nýtt fjármálafyrirtæki sem fékk nafnið Arctica Finance hf. Stofnendur félagsins töldu að í því umfangsmikla endurskipulagningarstarfi sem þá var fyrir höndum yrði eftirspurn eftir þeirri reynslu og þekkingu sem starfsmenn félagsins bjuggu yfir. Þetta mat reyndist rétt og á árunum eftir hrun var okkur treyst fyrir veigamiklum hlutverkum í mörgum af stærstu og flóknustu endurskipulagningarmálunum.

Árið 2010 var starfsemi Arctica Finance víkkuð út þegar við settum á laggirnar markaðsviðskipti og eignastýringu og hefur starfsemi félagsins síðan byggst á þremur tekjusviðum. Arctica Finance hefur vegnað vel á þessum tæplega 10 árum sem liðin eru frá stofnun félagsins. Starfsmannafjöldi hefur þrefaldast og okkur hefur jafnt og þétt tekist að byggja upp sterka markaðshlutdeild.“

Hvaða þýðingu hefur viðurkenningin framúrskarandi fyrirtæki fyrir þig sem stjórnanda?
„Arctica Finance hefur frá stofnun uppfyllt öll þau skilyrði sem Creditinfo setur þeim fyrirtækjum sem eru framúrskarandi. Þau skilyrði eru afar mikilvæg og er okkur kappsmál að viðhalda þeirri stöðu.“

Síðasta ár krefjandi

Hvað hefur gerst á liðnu ári í rekstri fyrirtækisins?
„Síðasta ár hefur verið krefjandi að mörgu leyti fyrir fyrirtæki á fjármálamarkaði. Rætur Arctica Finance spretta úr umróti á markaði og frekar en einblína á neikvæðu áhrifin erum við vanari því að horfa á þau tækifæri sem þróun á markaði getur af sér.“

Hverjar eru framtíðarhorfurnar?
„Almennt um framtíðarhorfurnar má segja að það skipti miklu máli hvernig tekst að leysa úr þeim áskorunum sem við stöndum frammi fyrir. Þar skiptir miklu máli að aðilar vinnumarkaðarins nái að finna jafnvægið sem tryggir raunverulegar kjarabætur án kollsteypu. Ég verð að viðurkenna að það er margt í aðdraganda þeirra viðræðna sem fær mann til að óttast að slík niðurstaða náist ekki átakalaust. Annað sem miklu máli skiptir er þróun þeirra lykilþátta sem áhrif hafa á afkomu flugfélaganna. Íslensku flugfélögin eru hryggjarstykkið í ferðaþjónustunni, sem á stuttum tíma er orðin mikilvægasta stoðin í íslensku efnahagslífi.

Varðandi þróun fjármálamarkaðarins sérstaklega þá mun miklu máli skipta hvaða afstöðu Alþingi og ríkisstjórnin mótar til atriða eins og eignarhalds ríkisins á bönkum og aðskilnaðar fjárfestinga- og viðskiptabankastarfsemi. Hver svo sem lendingin verður í þessum málum er ég þess fullviss að þróunin mun fela í sér fjölmörg tækifæri fyrir lítil og framsækin fjármálafyrirtæki eins og Arctica Finance.“

Útvista allri stoðstarfsemi

Hver er megináherslan í mannauðsmálum um þessar mundir hjá þér?
„Við höfum frá stofnun félagsins lagt áherslu á að útvista allri stoðstarfsemi og því eru einu starfsmenn félagsins þeir sérfræðingar sem með beinum hætti koma að vinnslu verkefna. Við teljum að með þessu fyrirkomulagi náum við að lágmarka rekstrarkostnað og í okkar geira, þar sem fyrirsjáanleiki tekna er lítill sem enginn, hefur slíkt fyrirkomulag gefið góða raun.“

Hvað gerir einstakling að góðum stjórnanda að þínu mati?
„Ég hef nú lítið velt því fyrir mér hvað einkennir góðan stjórnanda. Í störfum mínum hef ég leitast við að þvælast ekki fyrir heldur ýta frekar undir frumkvæði og sjálfstæði starfsmanna.“

Hvað er gott við að starfrækja fyrirtæki í landinu?
„Fámennið og stuttu boðleiðirnar gera það að verkum að mál eru afgreidd með skilvirkum hætti.“

Þurfum að auka þátttöku á markaði

Hvað mætti betur fara?
„Fámennið leiðir til þess að fjárfestar á markaði eru fámennur og einsleitur hópur. Erlendum aðilum á markaði hefur sem betur fer fjölgað en við þurfum áfram að leggja áherslu á að auka þátttöku innlendra og erlendra aðila á markaði.“

Leggurðu áherslu á mæla ánægju starfsfólks í fyrirtækinu?
„Við höfum ekki gert sérstakar mælingar á ánægju starfsfólks. Á jafn fámennum vinnustað og okkar vill maður trúa því að maður beri skynbragð á móralinn á hverjum tímapunkti.“

Tæknibreytingar miklar

Berðu saman fjárhagstölur og ánægju starfsfólks?
„Nei ekki beint en auðvitað sveiflast starfsánægjan með árangrinum. Það gefur augaleið.“
Hvaða áhrif hafa tæknibreytingar í heiminum á þína starfsemi?
„Af öllum geirum hefur tækniþróunin síðustu ár verið einna hröðust í fjármálageiranum. Í þessari þróun teljum við fjölmörg tækifæri vera að opnast sem fyrir nokkrum árum voru ekki aðgengileg fyrir fyrirtæki eins og okkar.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Fleiri greinar og viðtöl