ATH.: Upplýsingarnar sem hér koma fram eru úreltar. Skoðið frekar Framúrskarandi fyrirtæki 2020.
169 Fríhöfnin ehf.
Stærðarflokkur Stórt
Röð innan flokks 141
Aðsetur Reykjanesbær
Landshluti Suðurnes
Atvinnugrein - meginfl. Flutningar og geymsla
Atvinnugrein - ítarfl. Þjónustustarfsemi tengd flutningum með flugi
Framkvæmdastjóri Þorgerður Kristín Þráinsdóttir
Eignir 2.278.376
Skuldir 1.217.817
Eigið fé 1.060.559
Eiginfjárhlutfall 46,55%
Á listanum öll ár? Nei
Fyrri ár á listanum 2013–2017
Allar fjárhæðir eru í þúsundum króna

Eins og kaupmaðurinn á horninu

Þorgerður segir að fyrir eigandann skipti eignarhaldið á Fríhöfninni í …
Þorgerður segir að fyrir eigandann skipti eignarhaldið á Fríhöfninni í raun ekki máli. Aðalmálið sé að flugvöllurinn fái tekjur sem eru jafnmiklar eða meiri en fást með núverandi fyrirkomulagi. Árni Sæberg

Fríhöfnin ehf. rekur fjórar tollfrjálsar verslanir á Keflavíkurflugvelli, brottfararverslun strax eftir öryggisleit, komuverslun og tvær minni verslanir sem einkum eru hugsaðar fyrir farþega sem aðeins millilenda á flugvellinum. Tekjur Fríhafnarinnar námu á síðasta ári rúmum 12 milljörðum króna. Fríhöfnin er dótturfélag Isavia og skilar um þriðjungi af heildartekjum samstæðunnar.

„Þetta er sjötta skiptið sem Fríhöfnin er á lista yfir framúrskarandi fyrirtæki og teljum við mikilvægt og gott markmið að vera á listanum. Það er til marks um ábyrgan, arðbæran og gagnsæjan rekstur“ segir Þorgerður Þráinsdóttir, framkvæmdastjóri Fríhafnarinnar, í samtali við Morgunblaðið. Fríhöfnin leggur áherslu á kjarna-fríhafnarvörur; áfengi, tóbak, sælgæti og snyrtivörur. Hjá fyrirtækinu starfa um 250 manns og er meirihluti starfsmanna búsettur á Suðurnesjum, en í vöxt færist að starfsfólk komi af höfuðborgarsvæðinu, einkum á sumrin, að sögn Þorgerðar.

„Helstu styrkleikar Fríhafnarinnar liggja í starfsfólkinu. Hér vinnur hópur fólks sem lætur sig varða hvernig félaginu gengur og hefur vilja og getu til að leysa úr þeim málum sem upp koma,“ segir Þorgerður.

Ljósmynd/Eygló Gísladóttir.

Aukning í stórum stökkum

„Ég hef sinnt þessu starfi síðastliðin fjögur ár. Þegar ég hóf störf hafði verið nokkur aukning farþega frá árinu 2010 en fjöldinn hefur aukist í stórum stökkum milli ára síðan 2014 og samhliða hafa verið miklar breytingar og framkvæmdir á flugvellinum.“
Þorgerður segir áskoranir fylgja þessum hröðu breytingum í flugi og ferðaþjónustu. „Það er ekki bara farþegafjöldinn sem hefur aukist mikið heldur hefur samsetning farþega breyst, flæði um flugstöðina og öll starfsemi á flugvellinum. Tengifarþegum hefur til dæmis fjölgað hlutfallslega mest undanfarið og eru að verða um 40% þeirra sem fara um flugvöllinn. Það eru ekki mörg ár síðan Íslendingar voru um helmingur þeirra farþega sem fóru um flugvöllinn en nú er hlutfall þeirra um 20%. Í sumar flugu 29 flugfélög til landsins og allt árið um kring fljúga hingað um 12 flugfélög.“

Þorgerður segir til samanburðar að árið 2005 hafi flugfélögin verið tvö og þrjú árið 2010. „Þessum breytingum fylgja ekki aðeins áskoranir heldur líka mörg tækifæri og því er oft nauðsynlegt að vera á tánum og taka ákvarðanir hratt. Við höfum öflugt teymi stjórnenda sem tekur áskorunum fagnandi, hugsar í lausnum, leysir úr þeim málum sem upp koma og lærir af reynslunni. Við erum afar stolt af þeim árangri sem náðst hefur að undanförnu.“
Fríhöfnin hefur átt sérstakan stað í hjarta Íslendinga um árabil, en fyrirtækið er bráðum 60 ára gamalt, stofnað árið 1959. Það rekstrarfyrirkomulag sem er við lýði í dag er þó aðeins frá árinu 2005. „Fyrirtækið er gamalt og rótgróið, og hefur þróast mikið í gegnum tíðina, allt frá því að vera fyrst og fremst tollfrjáls verslun fyrir Íslendinga yfir í að vera framsækið þjónustufyrirtæki sem þarf að ná til ólíkra viðskiptavina.“

Breytingar sköpuðu óvissu

Fríhöfnin hefur í gegnum tíðina þurft að þróast í takt við breytingar í flugi og ferðaþjónustu en þær breytingar sem orðið hafa á síðustu árum eru sennilega með þeim mestu sem félagið hefur gengið í gegn um, að sögn Þorgerðar. „Þegar farþegafjöldinn fór að aukast svona hratt og mikið var ljóst að nauðsynlegt var að gera breytingar á skipulagi og áherslum félagsins,“ segir Þorgerður og bætir við að Fríhöfnin þurfi að geta brugðist hratt við þeim öru breytingum sem verða í rekstrarumhverfinu og boðið upp á vörur og þjónustu sem mæta þörfum ólíkra viðskiptavina, en um leið skapa eftirsóknarverðan vinnustað sem skilar arðsömum rekstri til eigenda.

Ljósmynd/Eygló Gísladóttir.

„Til að geta betur mætt þessum kröfum var farið í stefnumótun og í framhaldinu skipulagsbreytingar í byrjun þessa árs. Mjög litlar breytingar höfðu verið gerðar á skipulagi og áherslum félagsins í langan tíma svo þessar breytingar tóku á og sköpuðu tímabundið nokkra óvissu fyrir hóp starfsfólks. Nú erum við hins vegar farin að sjá árangur af þessum breytingum og erum stöðugt að endurskoða og lagfæra það sem betur má fara.“

Þorgerður segir að umhverfi félagsins sé þannig að erfitt sé að sjá langt fram í tímann. „Við þurfum að geta brugðist við hratt og örugglega en á sama tíma er nauðsynlegt að vera með góða og skýra framtíðarsýn og vita hvert stefnt er til lengri tíma.“

Spurð nánar út í þau tækifæri sem hafa skapast með auknum fjölda erlendra ferðamanna nefnir Þorgerður að mikil tækifæri hafi opnast fyrir íslenskar vörur og framleiðslu. Úrval af íslenskum vörum hafi aukist mikið og vörunum sé gert mjög hátt undir höfði, sérstaklega í brottfararversluninni og versluninni, sem eru utan Schengen. „Við höfum átt í góðu sambandi við marga íslenska framleiðendur. Margir selja stóran hluta af sinni framleiðslu í Fríhöfninni. Góður sýnileiki getur einnig opnað glugga fyrir viðkomandi aðila. Þeir koma vörum sínum á framfæri hér og mörg dæmi eru um að síðar berist fyrirspurnir að utan.“

Furða sig á komuverslun

Þorgerður segir að sumir furði sig á því af hverju hér sé rekin stór komuverslun, öfugt við það sem gengur og gerist í löndunum í kringum okkur. „Ástæðan fyrir því er að Ísland er utan ESB, og því er heimild fyrir tollfrjálsri verslun fyrir komufarþega, sem er ekki leyfilegt ef ferðast er innan ESB. Í Noregi og Sviss, sem einnig standa utan ESB, eru stórar komuverslanir. Mikil umræða er þegar farin af stað í Bretlandi um að hefja aftur rekstur komuverslana um leið og landið er gengið úr ESB.“

Þorgerður bætir við að ítarlegar greiningar hafi verið gerðar í Noregi og Sviss áður en þar voru opnaðar komuverslanir og niðurstöður þeirra gáfu til kynna að reksturinn hefði þjóðhagslegan ávinning í för með sér.

„Sérstaklega vegna þess að með honum sköpuðust fleiri störf, flugvöllurinn fengi meiri tekjur, verslun sem annars færi fram á flugvöllum erlendis flyttist til landsins og dregið væri úr flutningi þungrar vöru með farþegaflugvélum.“

Þorgerður segir einmitt að rekstur verslana og þjónustu sé gríðarlega stór þáttur í tekjuöflun flugvalla, en tekjurnar frá slíkri þjónustu fara í rekstur og uppbyggingu.

„Tilgangur fríhafnarverslana er fyrst og fremst að skapa flugvöllum tekjur, sem annars myndu falla á farþega og flugfélög. Markmið allra flugvalla er að hafa hlutfall óflugtengdra tekna, sem eru tekjurnar af fríhafnarverslun og ýmiskonar þjónustu, sem hæst, því það eykur samkeppnisfærni flugvallarins og gerir honum betur kleift að laða til sín flugfélög með hagstæðari lendingargjöldum.“

Spurð um verðnæmi farþega sem fara um völlinn segir Þorgerður að það sem mest áhrif hafi sé gengi íslensku krónunnar. „Við sjáum núna að um leið og krónan veikist verða breytingar í kauphegðun hjá erlendu ferðamönnunum. Sveiflur í gengi hafa mikil áhrif á samkeppnishæfni okkar gagnvart öðrum flugvöllum.“

Einnig nefnir Þorgerður annan stóran áhrifaþátt í samkeppninni við aðra flugvelli. „Það má ekki gleyma því að flestar stórar fríhafnarverslanir á flugvöllum í kringum okkur eru reknar af 3-4 stórum aðilum, sem eru með mikinn innkaupakraft. Ætli Fríhöfnin hér sé ekki svipuð og kaupmaðurinn á horninu í samkeppni við Costco hvað þetta varðar. Þetta birtist í því að þessi félög hafa aðgang að öðru og betra innkaupsverði á vörum í krafti stærðar sinnar.“

Í framhaldi af þessu má velta fyrir sér hvort ráð væri að fela einhverjum af þessum risafyrirtækjum rekstur Fríhafnarinnar.

„Það er ekki mitt hlutverk að hafa skoðun á því,“ segir Þorgerður. „Ég er ráðin til að reka fyrirtækið á sem arðbærastan hátt í þeirri stöðu sem við erum í í dag, en fyrir eigandann skiptir eignarhaldið á Fríhöfninni í raun ekki máli. Aðalmálið er að flugvöllurinn fái tekjur sem eru jafnmiklar eða meiri en fást með núverandi fyrirkomulagi. En þetta er flókið mál sem teygir anga sína víða og þarf að skoða í heild sinni. Til dæmis er Fríhöfnin í viðskiptum við marga íslenskra birgja sem flytja inn og selja erlenda vöru og þeir myndu líklega missa þessi viðskipti ef erlent risafyrirtæki kæmi inn og tæki við fríhafnarrekstrinum.“

Misskilningur með jólabjór

Ein er sú sérstaða sem Fríhöfnin hefur fyrir jólin, en það er að þar er jólabjórinn fyrr á ferðinni en á innanlandsmarkaði. „Það er einhver misskilningur að við séum með eitthvert forskot í þessum efnum.

Ástæðan er einfaldlega sú að við setjum bjórinn í sölu um leið og framleiðendur eru tilbúnir með hann. Vínbúðirnar hafa hins vegar ákveðið að hefja sölu á jólabjór á ákveðnum degi,“ segir Þorgerður.

En skyldu vera einhverjar nýjungar á leiðinni á komandi misserum?

„Við fáum inn eitthvað nýtt í hverri viku en það má nefna að undanfarið hefur gin verið mikið í tísku; úrvalið af því hefur aukist töluvert og nýjar tegundir komið í sölu sem ekki hafa fengist í Fríhöfninni áður.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Fleiri greinar og viðtöl