ATH.: Upplýsingarnar sem hér koma fram eru úreltar. Skoðið frekar Framúrskarandi fyrirtæki 2020.
315 S.Ó.S. Lagnir ehf
Stærðarflokkur Lítið
Röð innan flokks 8
Aðsetur Reykjavík
Landshluti Höfuðborgarsvæði
Atvinnugrein - meginfl. Byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð
Atvinnugrein - ítarfl. Pípulagnir, uppsetning hitunar- og loftræstikerfa
Framkvæmdastjóri Sigurður Óli Sumarliðason
Eignir 170.545
Skuldir 89.852
Eigið fé 80.693
Eiginfjárhlutfall 47,31%
Á listanum öll ár? Nei
Fyrri ár á listanum 2017
Allar fjárhæðir eru í þúsundum króna

Draumaland pípulagningameistarans

Sigurður Óli Sumarliðason segir Íslendinga framarlega þegar kemur að pípulagningavinnu.
Sigurður Óli Sumarliðason segir Íslendinga framarlega þegar kemur að pípulagningavinnu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ekki er spurt um á hvaða tíma sólarhringsins og hvað þá á hvaða degi þjónustu SÓS lagna er krafist. Fyrirtækið stofnaði Sigurður Óli Sumarliðason árið 1997 eftir að hafa starfað í nokkur ár sem pípulagningamaður.

Nafn fyrirtækisins er fangamark Sigurðar og vísar í þá staðreynd að stór hluti af starfsemi fyrirtækisins hefur verið að sinna neyðarþjónustu fyrir tryggingafélög þegar eitthvað fer úrskeiðis. Til þess að undirstrika það enn frekar er Sigurður fæddur hinn 9/11 árið 1961 sem aftur vísar í bandaríska neyðarnúmerið.

Glittir í milljarðinn

„Auðvitað er þetta gaman en við getum sagt að þetta sé ákveðið heilbrigðisvottorð á reksturinn hjá okkur. Ég myndi nú halda að þetta nýttist betur ef maður væri að sækja um einhver lán eða koma sér á markað. En eins og byggingabransinn á Íslandi er í dag þá vantar ekki verkefnin. Við þurfum ekki að ráðast í markaðsherferðir eða útbúa auglýsingar. Það er nánast í hina áttina,“ segir Sigurður.

Það er vissulega nóg að gera en á meðal verkefna SÓS lagna í dag er vinna við endurbætur á Hótel Sögu og nýlagnavinna á RÚV-reitnum og segir Sigurður að fyrirtækið nái ekki að anna eftirspurn.

„Við neitum einu til fimm verkum á dag þar sem maðurinn á götunni er að hringja. Við erum lánsöm með það að það eru mörg fyrirtæki sem versla við okkur og hafa gert í langan tíma,“ segir Sigurður en velta fyrirtækisins var á áttunda hundrað milljóna í fyrra. „Það fer örugglega að glitta í milljarðinn fyrir þetta ár,“ segir Sigurður Óli.

mbl.is/Kristin Magnússon.

Samtals starfa um 30 manns í SÓS lögnum í dag, bæði starfsmenn og verktakar, sem sumir hverjir hafa verið lengi hjá fyrirtækinu, líkt og viðskiptavinirnir.

„Við höfum náð að halda vel mannskapnum. Hér er búinn að vera mannskapur í á þriðja áratug og við erum því með marga hér sem hafa langan starfsferil,“ segir Sigurður.
„Við erum með mikið af stórum og góðum kúnnum sem hafa verslað lengi við okkur,“ segir Sigurður en fyrirtækið hefur einnig unnið fyrir Félagsbústaði og Reykjavíkurborg í á annan tug ára auk stoðtækjafyrirtækisins Össurar í 15 ár.

Sigurður segir veltuna hafa aukist jafnt og þétt frá stofnun SÓS lagna. „Auðvitað kom svolítil slagsíða í hruninu 2008 en samt vorum við nokkuð lánsöm að ná að halda sjó. Við vorum mikið í þessum viðgerðabransa og hann er miklu stöðugri en nýbyggingarbransinn,“ segir Sigurður og bendir á mikilvægi rótgróinna viðskiptasambanda í rekstri SÓS lagna. Það var það sem bjargaði okkur. Það var enginn bransi sem fór eins illa út úr hruninu og byggingabransinn,“ segir Sigurður.

Íslendingar framarlega

Aðspurður um pípulagningageirann segir Sigurður að samkeppnin sé nokkuð grimm og nokkrir stórir aðilar sláist um stærstu bitana. Þetta sé líflegur markaður en verkefnin hér á landi séu fjölbreyttari og um margt flóknari en víðast hvar erlendis.

„Verð og annað hefur verið að lagast síðustu tvö til þrjú árin og fólk er mikið að framkvæma. Enda er svo margt sem við erum að gera meira hér en víða erlendis. Það er t.d. hvergi eins vinsælt og á Íslandi hjá meðaljóninum að vera með heitan pott í garðinum. Það situr enginn á svona gnótt af vatni eins og við. Þetta er svo dýrt erlendis að það er enginn í þessu,“ segir Sigurður og bendir á hversu algengt það er að vera með snjóbræðslu fyrir utan hús.

„Það þekkist víða ekki nema bara hjá einhverjum stórum fyrirtækjum eða stofnunum. Við erum að mörgu leyti mjög framarlega hér á landi. Allur stjórnbúnaður, með heita potta, snjóbræðslukerfi og gólfhitakerfi og annað, kallar á meiri fagþekkingu og innsýn inn í svona kerfi,“ segir Sigurður og ekki úr vegi að segja að Ísland sé draumaland pípulagningameistarans.

Leið pípulagningameistarans

Sigurður hefur lifað tímana tvenna í pípulagningageiranum, margt skondið sem vart er prenthæft að hans sögn, en segir að fagið sé hreinlegra í dag og stundum léttara. „Það hefur margt breyst. Þótt ég sé ekki mjög gamall hef ég upplifað ótrúlegar breytingar á lagnavinnu frá því ég byrjaði. Starfið er orðið miklu skemmtilegra og léttara. Það má kannski segja að þetta sé eiginlega líkara vinnu rafvirkja að því leytinu til að meira er um notkun plastefna, sem eru miklu léttari og meðfærilegri,“ segir Sigurður.

Sigurður Óli hefur útungað mörgum pípulagningarsveinum.
Sigurður Óli hefur útungað mörgum pípulagningarsveinum. Kristinn Magnússon,Kristinn Magnússon / Kristinn Magnússon

Í því skyni hvetur hann ungt fólk eindregið til að feta leið pípulagningameistarans en hann hefur ungað út 25 slíkum á sínum ferli. Hann segir þó að leiðin sé ekki endilega jafn greið og áður var þar sem búið er að afnema kvöldskóla fyrir pípulagninganema. Hann segir það hafa skotið skökku við á sínum tíma er breytingin var gerð enda var á sama tíma rætt um að gera iðnnámi hærra undir höfði.

„Nú er ég búinn að unga út í dag 25 sveinum í pípulögnum og það eru ekki margir sem unga út meira en ég. Þessir sveinar gátu unnið hérna hjá mér á daginn og farið í kvöldskóla. Þessi breyting gerir mönnum oft erfitt fyrir, sérstaklega þegar þeir eru komnir með fjölskyldu og börn. Þá er eiginlega búið að neyða menn í námslán eða vinna eitthvað skrykkjótt. Hitt kerfið var miklu betra.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Fleiri greinar og viðtöl