ATH.: Upplýsingarnar sem hér koma fram eru úreltar. Skoðið frekar Framúrskarandi fyrirtæki 2019.
427 Vélsmiðja Suðurlands ehf
Stærðarflokkur Meðalstórt
Röð innan flokks 187
Aðsetur Selfoss
Landshluti Suðurland
Atvinnugrein - meginfl. Framleiðsla
Atvinnugrein - ítarfl. Vélvinnsla málma
Framkvæmdastjóri Margrét Ósk Jónasdóttir
Eignir 209.338
Skuldir 95.668
Eigið fé 113.670
Eiginfjárhlutfall 54,3%
Á listanum öll ár? Nei
Fyrri ár á listanum 2017
Allar fjárhæðir eru í þúsundum króna

Kemur sér vel að vera á Selfossi

Margrét Ósk Jónasdóttir framkvæmdastjóri Vélsmiðju Suðurlands.
Margrét Ósk Jónasdóttir framkvæmdastjóri Vélsmiðju Suðurlands. mbl.is/Guðmundur Karl Sigurdórsson

Margrét Ósk Jónasdóttir lýsir því þannig að það hafi gerst fyrir hálfgerða tilviljun að hún varð framkvæmdastjóri Vélsmiðju Suðurlands. „Fyrirtækið verður til þegar Skipalyftan ehf. í Vestmannaeyjum keypti allan rekstur Vélsmiðju KÁ og hóf starfsemi undir þessu nýja nafni: Vélsmiðja Suðurlands. Vélsmiðja KÁ var stofnuð sem hlutafélag árið 1996 en hóf starfsemi 1939 og má því segja að saga fyrirtækisins teygi sig allt aftur til seinni heimsstyrjaldar,“ segir Margrét.

„Fyrir tíu árum síðan fæ ég símtal og er beðin um að koma og aðstoða við bókhaldið, sem þá var sent með faxi til Skipalyftunnar. Smám saman færast fleiri verkefni og skyldur til mín og áður en ég vissi af var ég farin að reka fyrirtækið fyrir Skipalyftuna,“ segir Margrét sem þykir ekki amalegt að starfinu fylgir að hún er stundum kölluð Járnfrúin. „Um mitt ár 2014 kaupi ég síðan fyrirtækið af Skipalyftunni í félagi við Ólaf Árna Másson og rekum við félagið saman í dag.“

Fyrir stóriðju, landbúnað og heimilin á svæðinu

Vélsmiðja Suðurlands er á lista yfir Framúrskarandi fyrirtæki annað árið í röð. Fyrirtækið fæst við alls konar málm- og vélsmíði, og þjónustar viðskiptavini vítt og breitt um Suðurlandið. Segir Margrét að verkefnin spanni allt frá því að smíða stór mannvirki úr stáli og aðstoða við virkjanaframkvæmdir yfir í að lagfæra tækjabúnað sláturhúsa, mjólkurbúa og matvælaframleiðenda á staðnum. „Við fáumst bæði við nýsmíði og viðgerðir og árviss verkefni t.d. að lagfæra skóflur og hefla fyrir snjómoksturinn á einum tíma árs og á öðrum tíma laga landbúnaðartækin fyrir sláttu.“

Fyrirtækið er til húsa á Selfossi og starfsmenn 22 talsins, þar af 4 námsmenn og 18 í fullu starfi. Segir Margrét það ekki síst öflugum starfsmannahópnum að þakka hvað reksturinn gengur vel enda reiða viðskiptavinir sig oftar en ekki á að verkefnum sé sinnt með hraði og af fagmennsku, og þegar mikið liggi við leggist allir á eitt.

Þá hjálpar Vélsmiðju Suðurlands að vera úti á landi og segir Margrét að þurfi jafnt og þétt að sinna viðhaldi og viðgerðum í hinum ýmsum atvinnugreinum á svæðinu. „Það sem hefur einkum haft áhrif á reksturinn að undanförnu er að innflutningur á vörum eins og stálgrindahúsum hefur aukist og getum við ekki keppt við erlenda framleiðendur sem smíða stálgrindarnar á allt öðrum skala og nota til þess mun ódýrara vinnuafl,“ segir hún og bætir við að verkefnaframboðið minnki ekki endilega eða aukist í takt við uppsveiflur og niðursveiflur hagkerfisins. „Það sem gerist er að verkefnin breytast og í dag er t.d. töluvert meira um alls kyns sérsmíði fyrir heimili, s.s. stiga og handrið.“

Gott að búa á Selfossi

Vélsmiðja Suðurlands þarf líka að laga sig að því að mikil samkeppni er um menntaða iðnaðarmenn. „Við verðum að passa upp á launin, en það hjálpar þó að launasamkeppnin minnkar eftir því sem fjær dregur höfuðborgarsvæðinu og launin almennt lægri hér en þau eru í Reykjavík og nágrenni. Þrátt fyrir að hærri laun séu í boði í borginni þá eru sterkar taugar sem halda í þá sem búa hér og starfa og hafa margir lifað á Selfoss-svæðinu alla sína ævi,“ segir Margrét. Hún bendir á að á Selfossi eru lífskjör góð, á margan hátt ódýrara að lifa og þar á fólk sína fjölskyldu og bakland. „Þannig að meira þarf til en hærri laun svo að starfsmenn okkar flytji sig um set. Aftur á móti getum við sótt verkefnin til höfuðborgarsvæðisins og finnum líka að þeir sem næst okkur búa vilja frekar versla í heimabyggð ef þeir geta en að nýta þjónustu vélsmiðja annars staðar.“

Aðspurð hvers vegna Vélsmiðja Suðurlands hafi ekki verið lengur á úrvalslista Creditinfo segir Margrét að þó að reksturinn hafi gengið ágætlega hafi undanfarin ár verið uppbyggingar- og fjárfestingartími hjá fyrirtækinu. „Við höfum endurnýjað tækjabúnaðinn, en vorum áður með gömlu tækin frá KÁ. Þá hefur reksturinn stækkað og starfsmönnum fjölgað en á sínum tíma voru þeir ekki nema sjö talsins.“

Kjör farandverkafólks valda áhyggjum

Framtíðin lítur ágætlega út og lætur Margrét sig dreyma um að renna enn styrkari stoðum undir fyrirtækið með því að komast í stærra húsnæði. „Plássleysið setur okkur ákveðnar skorður en mest munar samt um hve erfitt það er að fá menntaða iðnaðarmenn í vinnu,“ segir hún og bendir á að eitt og annað sé bogið við samkeppnina á markaðinum. „Við sjáum það í útboðum að þar eru að berast tilboð sem eru jafnvel 50% undir kostnaðaráætlun og ástæðan þá oftar en ekki að verið er að nota innflutt vinnuafl og starfsmannaleigur. Starfsmannaleigurnar hafa vissa kosti, og við höfum nýtt okkur þjónustu þeirra á köflum. Hjá þeim starfar oft harðduglegt og reynt fólk en tímagjaldið þeirra er ekki hátt og sérstakt áhyggjuefni ef að kjör farandverkafólks eru orðin lakari en kveðið er á um í íslenskum kjarasamningum. Það er jákvætt að verkalýðsfélögin skuli vera vel á verði hvað þessi mál varðar og gott ef stefnt er að því að í öllum útboðsgögnum sé mikið gagnsæi um laun þess fólks sem að framkvæmdinni kemur.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »

Fleiri greinar og viðtöl