ATH.: Upplýsingarnar sem hér koma fram eru úreltar. Skoðið frekar Framúrskarandi fyrirtæki 2020.
241 Sensa ehf.
Stærðarflokkur Stórt
Röð innan flokks 175
Aðsetur Reykjavík
Landshluti Höfuðborgarsvæði
Atvinnugrein - meginfl. Upplýsingar og fjarskipti
Atvinnugrein - ítarfl. Ráðgjafarstarfsemi á sviði upplýsingatækni
Framkvæmdastjóri Valgerður Hrund Skúladóttir
Eignir 2.108.477
Skuldir 1.033.975
Eigið fé 1.074.502
Eiginfjárhlutfall 50,96%
Á listanum öll ár?
Fyrri ár á listanum 2010–2017
Allar fjárhæðir eru í þúsundum króna

Merki um þjóðfélag sem blómstrar

Ljósmynd/Aðsend

Valgerður Hrund Skúladóttir rafmagnsverkfræðingur/ MBA er forstjóri Sensa. Hún er hógvær stjórnandi í leiðandi tæknifyrirtæki sem hefur mætt sem norn á starfsmannafund og segir að það hafi virkað vel.

Hún segir að við ættum að hafa það sem markmið að sem flest fyrirtæki í landinu verði framúrskarandi.

Valgerður hefur starfað við stjórnun, sölu og ráðgjöf frá árinu 1989 og segist hafa „lent“ í upplýsingatæknigeiranum árið 1994. „Ég ætlaði að vera þar bara tímabundið, en núna 24 árum seinna er ég hér enn og upplifi nánast á hverjum degi gleði og spenning yfir að fylgjast með hvernig samstarfsmenn mínir leysa glæsilega úr flóknum verkefnum.“

Á landsmet í námskeiðasókn

Valgerður segist vera endalaust forvitin um allt milli himins og jarðar. „Ég gæti trúað að ég ætti landsmet í námskeiðasókn.“ Aðspurð hvernig námskeið hún sæki segir hún þau margvísleg. „Allt frá kínverskri heimspeki, ítölsku, sögu engla og mannkynssögu til matargerðarlistar, olíumálunar og saumaskapar.“

Hvað getur þú sagt mér um Sensa?

„Sensa er framúrskarandi í að þjónusta fyrirtæki með þeirra þarfir í upplýsingatækni. Við vinnum með viðskiptavininum að því að leysa úr þörf þeirra fyrir hagkvæmni, öryggi, skilvirkni og sveigjanleika. Við hjálpum fyrirtækjum að finna sína leið í flóknu umhverfi upplýsingatækninnar. Allt frá því að reka lausnir hjá viðskiptavininum í að fara í skýið og allt þar á milli.“

Valgerður er hógvæg þegar kemur að því að vera leiðtogi í framúrskarandi fyrirtæki. „Ég á jafn mikið í þessu og allir aðrir starfsmenn. Þetta er viðurkenning til þessa frábæra hóps sem myndar Sensa.“

Samkeppnishæfar lausnir

Hvað hefur gerst á liðnu ári í rekstri fyrirtækisins?

„Á þessu ári kláruðum við uppfærslu á innviðum og þjónustu, þannig að ég get sagt með stolti að við getum boðið lausnir sem jafnast á við það besta í heiminum og uppfyllt þær kröfur sem fyrirtæki gera til upplýsingatækni í ljósi hagkvæmni, öryggis, skilvirkni og sveigjanleika. Á sama tíma og við höfum verið í þessari vinnu höfum við lagt áherslu á að halda áfram að veita framúrskarandi þjónustu til okkar frábæra viðskiptavinahóps.“

Þegar kemur að framtíðarhorfum í rekstri Sensa segir hún:
„Í þessum geira eru stöðugar og endalausar framfarir og nýjungar, með góðu fólki getur það bara verið ávísun á góðar framtíðarhorfur.“

Að hugsa út fyrir boxið

Hver er megináherslan í mannauðsmálum um þessar mundir hjá þér?

„Til að geta þjónustað viðskiptavininn sem best er mikilvægt að allar boðleiðir séu stuttar og skilvirkar. Sérfræðingar okkar þurfa að hafa þannig starfsumhverfi að þeir geti einbeitt sér að viðskiptavininum og notið sín í því sem þeir eru bestir í. Því erum við með flatt skipulag og vinnum að því að fletja það út enn frekar. Okkar áhersla er að allir starfsmenn hafi tækifæri til að þróa hæfileika sína og getu til fulls.“

Þegar kemur að umræðunni um að vera góður stjórnandi segir Valgerður mikilvægt að geta hugsað út fyrir boxið. „Í þessum miklu breytingum sem samfélagið er að ganga í gegnum núna þurfa stjórnendur að geta hugsað út fyrir boxið, tekist á við nýjar aðstæður með nýjum leiðum og haldið ró sinni þegar á þarf að halda.“

Hvað er gott við að starfrækja fyrirtæki í landinu?

„Viðskiptavinirnir og samstarfsfólkið.“

Efnahagslegur stöðugleiki öfundsverður

Að mati Valgerðar er einnig ýmislegt sem mætti betur fara. „Ég hef oft öfundað erlenda kollega af þeim stöðugleika sem þeir búa við í sínu rekstrarumhverfi. Efnahagslegur stöðugleiki myndi létta mér lífið.“

Leggur þú áherslu á að mæla ánægju starfsfólks í fyrirtækinu?

„Það er gert reglubundið. Mikilvægast er þó að vera meðvitaður um það sem er að gerast í fyrirtækinu hverju sinni og gera sitt besta til að bregðast við.“

Hvaða áhrif hafa tæknibreytingar í heiminum á þína starfsemi?

„Rekstur okkar byggist á endalausum tæknibreytingum – það er mjög mikilvægt fyrir okkur að finna jafnvægið í að vera í fararbroddi, þróast áfram og tileinka okkur nýjungar en samt halda einbeitingu.“

Mætti sem norn og það virkaði vel

Valgerður er rómuð fyrir að vera skemmtilegur stjórnandi.
„Það vill svo til að Sensa heldur upp á hrekkjavöku ár hvert. Það er mikil metnaður lagður í að mæta í flottum búningum og ég tek að sjálfsögðu þátt í því. Fyrir tveimur árum var hrekkjavakan okkar sama dag og mánaðarlegur starfsmannafundur, þar sem ég fer yfir stöðuna og ræði þau mál sem vel eru gerð og betur mega fara. Ég mætti sem norn með tilheyrandi skögultennur og nornanef með bólum. Það þótti mjög áhrifaríkt í þessari múnderingu þegar ég var að skamma liðið fyrir slælega umgengni og niðurstaðan er að hér hefur allt verið í sómanum upp frá því.“

Að lokum segir Valgerður að það eigi að vera okkar sameiginlega markmið að sem flest fyrirtæki séu fyrirmyndarfyrirtæki. „Það er merki um þjóðfélag sem blómstrar.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Fleiri greinar og viðtöl