ATH.: Upplýsingarnar sem hér koma fram eru úreltar. Skoðið frekar Framúrskarandi fyrirtæki 2021.

166 Bláfugl ehf.

Stærðarflokkur Stórt
Röð innan flokks 143
Landshluti Höfuðborgarsvæði
Atvinnugrein Flutningar og geymsla
Starfsemi Vöruflutningar með flugi
Framkvæmdastjóri Steinn Logi Björnsson
Fyrri ár á listanum 2017–2018
Framúrskarandi 2019

Hvernig gengur reksturinn?

Eignir 1.834.756
Skuldir 778.131
Eigið fé 1.056.625
Eiginfjárhlutfall 57,6%
Allar fjárhæðir eru í þúsundum króna

Eigendur og eignarhald

Þekktir hluthafar 1
Endanlegir eigendur 5
Eignarhlutur í öðrum félögum 0
Endanleg eign í öðrum félögum 0

Lánshæfismat félaga í sömu grein

Meðallánshæfi félaga í atvinnugreininni FLUTNINGAR OG GEYMSLA

pila

Mjög áhættulítil

Meira um fyrirtækið hjá CreditInfo

Farþegaflutningar inni í myndinni

Steinn Logi Björnsson keypti Bluebird árið 2013 í félagi við …
Steinn Logi Björnsson keypti Bluebird árið 2013 í félagi við aðra fjárfesta. Árni Sæberg

ið Urðarhvarf í Kópavogi eru höfuðstöðvar Bluebird Nordic. Þótt margir kannist við nafn félagsins og viti að þar fari félag sem sérhæfi sig í fraktflutningum eru fæstir meðvitaðir um að langstærstur hluti umsvifa þess er alls ótengdur Íslandi.

Forstjóri og einn af stærstu hluthöfum félagsins er Steinn Logi Björnsson. Hann hefur víða komið við í íslensku viðskiptalífi á undanförnum áratugum en hann starfaði lengi fyrir Flugleiðir og síðar Icelandair, bæði hér heima og erlendis.

Aðkoma Steins Loga að Bluebird rekur sig aftur til ársins 2013 en félagið var stofnað árið 1999 og er því tuttugu ára í dag.

„Félagið á rætur að rekja til umsvifa Cargolux hér á landi. Hér var starfrækt félag sem nefndist Flugflutningar og það höndlaði með og miðlaði frakt fyrir félagið til og frá Íslandi, m.a. fiski. Þegar var komið undir aldamótin hætti Cargolux þessari starfsemi hér og þá ákváðu forsvarsmenn Flugflutninga að stofna fraktfélag sem myndi fljúga milli Íslands og Evrópu. Þeir keyptu farþegavél og breyttu í flutningavél og hún var m.a. nýtt til að flytja sendingar fyrir UPS. Síðar bættist þjónusta við FedEx og fleiri við og vélunum fjölgaði,“ segir Steinn Logi þegar hann rifjar upp aðdragandann að stofnun félagsins og upphafsár þess.

Bluebird Nordic er með Boeing 737 þotur í þjónustu sinni.
Bluebird Nordic er með Boeing 737 þotur í þjónustu sinni. Ljósmynd/Gunnar Flóvenz

Endurskipulögðu fyrirtækið

Starfsemin var einkum byggð á svokallaðri blautleigu (e. wet lease) það er þjónustu við önnur fyrirtæki þar sem Bluebird lagði til flugvél, áhöfn, viðhald og tryggingar en verkkauparnir greiddu annan kostnað sem til féll vegna flutninganna.
„Þessi starfsemi hefur jafnt og þétt undið upp á sig en þegar við komum að félaginu þá þurftum við að fara í talsverða endurskipulagningu á starfseminni.“

Þar vitnar Steinn Logi til þess að Icelandair Group hafði keypt Bluebird árið 2005. Eftir að fyrrnefnda félagið fór í gegnum fjárhagslega endurskipulagningu var Bluebird tekið út úr samstæðunni og sett í söluferli.

„Það gekk mjög illa að selja félagið og það tapaði miklum fjármunum 2012 og 2013, ekki síst vegna þess að það missti samninga við DHL. Á þessum tíma var ég nýhættur sem forstjóri Skipta sem nú heitir Síminn. Þá hafa samband gamlir félagar frá Icelandair-árunum, sem eru núverandi eigendur Air Atlanta. Þeir höfðu verið að skoða félagið og töldu tækifæri í því. Þeir höfðu hins vegar ekki tíma til að halda áfram með málið og þannig fór að ég tók við keflinu. Viku síðar keyptum við félagið í sameiningu.“

Þar var Steinn Logi kominn á heimavöll, ekki aðeins vegna þess að nú var hann að nýju kominn í flugbransann, heldur vegna þess að á árunum eftir hrun hafði hann komið að mörgum verkefnum tengdum endurskipulagningu fyrirtækja, ekki aðeins á vettvangi Skipta heldur einnig sem stjórnarmaður í Högum og TM, svo dæmi séu nefnd.
Nýir eigendur biðu ekki boðanna. Félagið sneri taflinu sér í hag á fyrsta rekstrarári í þeirra höndum. Það skilaði jákvæðri rekstrarniðurstöðu strax árið 2014.

„Við gengum hreint til verks. Við endurskipulögðum flutningastarfsemina til og frá Íslandi. Hættum að fljúga til Köln og byrjuðum nýja flutningaleið milli Keflavíkur, Dublin á Írlandi og Liège í Belgíu. Þá seldum við eina vél sem var í eigu félagsins og náðum að borga upp allar skuldir félagsins með því. Vélina leigðum við svo aftur með svokölluðum sölu- og endurleigusamningi (e. sale and leaseback). Þetta skilaði tilætluðum árangri og við höfum náð að bæta við okkur vélum.“

Stærstur hluti starfseminnar erlendis

Bluebird er þannig með eina vél í förum á leiðinni sem þræðir Ísland, Írland og Belgíu. En félagið hefur haft sjö aðrar vélar í verkefnum erlendis á síðustu misserum. Nú stendur félagið hins vegar í stórræðum og endurskipuleggur flotann sem samanstendur af Boeing 737-300- og 737-400-vélum.

„Þetta eru verkefni sem teygja sig víða. Tvær vélar hafa verið í verkefnum fyrir FedEx með aðsetur í Liège í Belgíu, tvær hafa verið í verkefnum fyrir DHL og þá erum við einnig með vélar að fljúga fyrir spænska félagið Swift. Síðustu mánuði hefur hins vegar staðið yfir nokkur endurskipulagning á flotanum og þess vegna höfum við verið að skoða endurnýjun á honum. Nú þegar höfum við selt tvær vélar og erum að leita að vélum til að fylla þeirra skarð.“

Á tímamótum þegar félög endurskoða flota sinn er ekki hjá því komist að spyrja um vaxtartækifæri. Steinn Logi segir að þau séu til staðar.

„Þau eru fyrir hendi. Við höfum líka alltaf haft augun opin fyrir því að fara út í farþegaflutninga. Þess vegna breyttum við fyrir tæpum tveimur árum nafni félagsins úr Bluebird Cargo í Bluebird Nordic. Það var gert til þess að geta farið inn á þennan markað ef færi gefst. Í því sambandi erum við ekki endilega að tala um áætlunarflug til og frá Íslandi heldur blautleigu fyrir önnur flugfélög.“

Hann segir þó að ytri aðstæður valdi því að þessar vangaveltur séu í raun á ís.
„Við höfum skoðað þetta og séð tækifæri í að fara út í þetta með Boeing 737-800-vélum. Vandinn sem við stöndum hins vegar frammi fyrir er eftir að 737-MAX vélarnar voru kyrrsettar þá hafa allir flugrekstraraðilar framlengt leigu sína á 737-800 og verðið á þeim markaði hefur rokið upp úr öllu valdi. Þeir sem ætluðu að skipta yfir í MAX, sem voru að mestu félög með 737-800 vélar, hanga á þeim og munu gera það meðan þessi óvissa skýrist ekki.“

Bluebird Nordic hefur verið með 8 Boeing 737 þotur í …
Bluebird Nordic hefur verið með 8 Boeing 737 þotur í flota sínum. Nú stendur yfir endurnýjun á elstu vélunum. Ljósmynd/Gunnar Flóvenz

Um 70% starfsfólksins erlendis

Hjá Bluebird starfa um 100 manns. Steinn Logi segir að stærstur hluti hópsins sé dreifður um Evrópu þar sem vélar félagsins eru staðsettar.

„Þetta eru að stærstum hluta flugmenn. Hér á skrifstofunni í Kópavogi eru um 30 manns. Svo erum við með viðhaldsstöðvar á þeim stöðum þar sem verkefnin eru hverju sinni. Þannig erum við í dag með slíkar stöðvar í Liège, Kaupmannahöfn, Leipzig og Madrid.“

Spurður út í hvort það flæki ekki starfsemina að starfsmannafjöldinn skuli dreifður svo víða segir Steinn Logi að það komi ekki að sök. Starfsemin sé afar vel skipulögð og það sé hluti af eðli flugstarfsemi sem þessarar að hún byggist á mjög ítarlegum handbókum. Þá geri tölvutæknin skipulagninguna einfalda. Það birtist m.a. í því að hver einasti flugmaður hafi spjaldtölvu í sínum fórum þar sem þeir geti nálgast allar þær upplýsingar sem þá vanhagar um í tengslum við umsvif fyrirtækisins.

Á sama tíma og Bluebird flytur vörur til og frá Íslandi í eigin nafni byggja verkefnin erlendis á einskonar verktakasamningum við risafyrirtæki á borð við FedEx og UPS. Steinn Logi segir viðskiptasambandið við þessi fyrirtæki gott.

„Þessi viðskipti eru í föstum skorðum og við erum með tengiliði hjá þessum fyrirtækjum sem halda utan um þá samninga sem við erum með.“

Ekki margir á þessu sviði

Hann bendir þó á þá áhugaverðu staðreynd að það eru ekki mörg fyrirtæki í Evrópu sem starfa á þeim markaði sem Bluebird hefur haslað sér völl síðastliðna tvo áratugi.

„Það eru ekki mörg félög í samkeppni við okkur. Það má segja að það séu tveir risar, annars vegar ALS, sem reist var á grunni þess sem áður var TNT Airways og hins vegar Swift. Að þessum tveimur risum undanskildum þá eru það í raun aðeins við og eitt annað fyrirtæki. Það hefur verið talsvert um samruna á þessum markaði á síðustu árum.“

Hann segist ekki sjá við sjóndeildarhringinn að Bluebird verði þátttakandi í slíku ferli en ítrekar þó að það eigi við á þessum markaði eins og mörgum öðrum að afar erfitt sé að spá fyrir um framtíðina.

Þegar Steinn Logi vísar til óráðinnar framtíðar er ekki úr vegi að spyrja hann út í stöðuna á flugmarkaðnum almennt, markaði sem hann hefur lifað og hrærst í með stuttum hléum í áratugi. Flest flugfélög á farþegamarkaði eru í þröngri stöðu og fátt bendir til þess að rofa muni til á komandi mánuðum.

„Staðreyndin er sú að það er held ég enginn geiri í heiminum sem verður fyrir öðrum eins áhrifum frá þáttum sem menn hafa enga stjórn á sjálfir. Það birtist í því hvernig stríðsátök eins og þau sem nú geisa milli Tyrkja og Kúrda hafa áhrif á alla ferðaþjónustu í Tyrklandi. Þá þurfa flugfélögin að beina vélum sínum annað til að halda þeim í verkefnum. Þetta getur birst í afleiðingum hryðjuverka í Bandaríkjunum og svo sáum við bara um daginn hvernig átök milli Írana og Sádi-Araba leiddu til þess að eldsneytisverð hækkaði um 16% á einum degi. Þá eru ótalin áhrifin af sveiflum gjaldmiðla og svo mála á borð við brexit eða viðskiptastríð milli Bandaríkjanna og Kína. Þessir þættir hafa allir mikil áhrif auk almennrar eftirspurnar í heimshagkerfinu. Það á ekki aðeins við um ferðaþjónustuna heldur einnig fraktina sem byggist á flutningi á vöru sem verið er að selja milli landa og heimsálfa,“ segir Steinn Logi.

Kyrrsetning haft mikil áhrif

Þá bendir hann á að kyrrsetning Boeing 737-MAX-vélanna fyrr á þessu ári hafi dregið dilk á eftir sér og mat hans er að markaðurinn muni í raun ekki komast í eðlilegt horf á ný fyrr en búið verði að leysa rembihnútinn sem myndast hefur vegna þeirrar flugvélagerðar.

„Það koma sífellt verri fréttir af þeim málum. Það sem hefur gerst er að tortryggnin er orðin gríðarleg og enginn ætlar að sitja uppi með Svarta-Pétur í málinu. Hér áður fyrr var það þannig að bandarísk flugmálayfirvöld nutu óskoraðs trausts þegar kom að því að votta amerískar flugvélar. Það kvittuðu öll flugmálayfirvöld upp á slíka vottun. Það var gagnkvæmt þegar evrópsku yfirvöldin vottuðu vélarnar frá Airbus. Nú er annað uppi á teningnum og ég held að þetta sé í fyrsta sinn sem sú staða kemur upp. Það veldur því að það getur tekið langan tíma að koma þessum vélum aftur í loftið.“

Bluebird Nordic hefur skoðað möguleika á því að hasla sér …
Bluebird Nordic hefur skoðað möguleika á því að hasla sér völl í farþegaflugi. Ljósmynd/Gunnar Flóvenz

Steinn Logi segir það koma til greina að sækja stærri flugvélar inn í rekstur Bluebird ef tækifæri skapast til þess.

„Það kemur vel til greina og við höfum reyndar gert tilboð í slík verkefni. Við höfum hins vegar reynt að reka félagið með íhaldssömum hætti. Okkur hefur ekki legið á að vaxa og aldrei sett upp plan um að við ætlum að vera með svo og svo margar vélar eftir tiltekinn tíma. Við höfum einfaldlega ákveðið að sæta færis þegar tækifærin koma. Þannig viljum við tryggja okkur vélar og verkefni þegar við höfum eitthvað að sækja. En ef við stækkum væri rökrétt að fara í 737-800 vélar frá Boeing. Það myndi gefa okkur færi á að nýta starfskrafta flugmannanna okkar betur því þeir eru hlutfallslega lítið í loftinu vegna eðlis starfseminnar. Þar væri tækifæri í að auka framlegð.“

Vinnugleðin skiptir máli

Bluebird er í hópi framúrskarandi fyrirtækja og þá má spyrja Stein Loga, sem komið hefur að rekstri og stjórnun afar ólíkra fyrirtækja, hvaða lærdóm hann hafi dregið af því hvað komi fyrirtækjum í fremstu röð.

Í mínum huga skiptir góður andi á vinnustað miklu máli. Það er mikilvægt að halda gleðinni og þar skiptir miklu máli að fólk hafi nóg að gera. Vinnugleði er mikilvæg. Það versta sem gerist á vinnustöðum er þegar fólk hefur of lítið að gera. Þá fer mórallinn niður. Annað sem skiptir máli líka og það er að allir séu meðvitaðir um stjörnuna eins og ég kalla það, þ.e. viti að hverju er stefnt. Þá þarf ekki á hverjum degi að setja stefnuna og það eflir félög.

mbl.is

Fleiri greinar og viðtöl

Samstarfsaðilar