ATH.: Upplýsingarnar sem hér koma fram eru úreltar. Skoðið frekar Framúrskarandi fyrirtæki 2020.
489 Nox Medical ehf.
Stærðarflokkur Stórt
Röð innan flokks 219
Aðsetur Reykjavík
Landshluti Höfuðborgarsvæði
Atvinnugrein - meginfl. Framleiðsla
Atvinnugrein - ítarfl. Framleiðsla á búnaði til geislunar, raftækjabúnaði til lækninga og meðferðar
Framkvæmdastjóri Pétur Már Halldórsson
Eignir 1.289.266
Skuldir 372.649
Eigið fé 916.617
Eiginfjárhlutfall 71,1%
Á listanum öll ár? Nei
Fyrri ár á listanum 2015–2017
Allar fjárhæðir eru í þúsundum króna

Hafa hjálpað fimm milljónum manna að fá bót meina sinna

Pétur Már Halldórsson forstjóri Nox Medical.
Pétur Már Halldórsson forstjóri Nox Medical. mbl.is/Hari

Starfsemi Nox Medical hefur vaxið hratt frá því félagið var stofnað árið 2006. Eigendur og stjórnendur félagsins hafa samt farið sér í engu óðslega: „Við erum svo gamaldags að við höfum haft það að leiðarljósi að tekjurnar séu hærri en útgjöldin og aldrei hefur félagið þegið lán hjá lánastofnunum. Árið 2009 voru fyrstu afurðir fyrirtækisins seldar og þetta fyrsta tekjuár var hagnaður af rekstrinum – og hefur verið alla tíð síðan,“ segir Pétur Már Halldórsson, framkvæmdastjóri félagsins, en Nox Medical fær sérstaka nýsköpunarviðurkenningu Creditinfo í ár.

Rekja má sögu Nox Medical aftur til ársins 1994 þegar Helgi Kristbjarnarson lét af störfum sem læknir hjá Karolinska-sjúkrahúsinu í Svíþjóð og flutti til Íslands til að stofna tæknifyrirtækið Flögu. Flaga hannaði og framleiddi ný og byltingarkennd svefngreiningartæki og óx hratt fiskur um hrygg. Fór starfsmannafjöldi yfir hundrað manns innan við tíu árum frá stofnun. „Þá var ráðinn bandarískur forstjóri og fannst honum glórulaust að reka svona fyrirtæki uppi á Íslandi. Gerði hann sér lítið fyrir og rak megnið af þróunarteymi Flögu, og hvarf reksturinn frá Íslandi til Bandaríkjanna á um það bil sex mánuðum – og með því í kringum hundrað störf,“ segir Pétur söguna. „En sjö starfsmenn sem höfðu unnið lengi hjá Flögu neituðu að gefast upp og ákváðu að halda áfram og nýta þekkingu sína, hugvit og sérhæfingu til að hanna og framleiða næstu kynslóð lækningatækja sem notuð eru til að greina svefn og svefntruflanir. Saman stofnuðu þeir Nox Medical sem í dag er með rösklega 50 starfsmenn, og hátt í 40 samstarfsaðila sem annast dreifingu, sölu og markaðssetningu um allan heim.“

mbl.is/Hari

Pétur segir að áður en Flaga og síðar Nox Medical komu fram á sjónarsviðið hafi þurft að gera svefnmælingar með stórum og dýrum tækjum sem jafnvel prentuðu mæliniðurstöðurnar jafnóðum á langa pappírsstrimla, líkt og eldri gerðir jarðskjálftarita. Afrakstur einnar nætur svefns lá fyrir á u.þ.b. áttahundruð blaðsíðum, sem læknar þurftu langan tíma til að rýna í, greina og telja atburði handvirkt. Voru tækin svo fyrirferðarmikil að mælingar þurftu að fara fram á sjúkrahúsum og margt við gömlu aðferðirnar sem gat gert þeim sem átti að mæla erfitt um að festa svefn.

Nox Medical framleiðir lækningatæki sem eru svo einföld í notkun og fyrirferðarlítil að þau má nota til svefnmælinga heima fyrir. Þökk sé mjög næmum skynjurum, sem einnig eru þróaðir af Nox Medical, eru mæligögnin í mjög góðri upplausn. Gögnum er safnað stafrænt og með þeim hætti að auðveldi heilbrigðisstarfsfólki að greina hvers kyns svefnvandamál.

Fjöldi fólks með svefnvandamál

Í dag eru um 20.000 tæki frá Nox Medical í notkun um allan heim og áætlar Pétur að þessi tæki hafi hjálpað um fimm milljónum manna að fá bót meina sinna. Markaðurinn er risastór og fer bara stækkandi: „Í dag hafa verið skilgreindar í kringum áttatíu mismunandi tegundir svefnraskana og er t.d. áætlað að á bilinu 10-25% fullorðinna einstaklinga glími við mild eða alvarleg einkenni öndunartengdra svefnraskana,“ segir Pétur og bendir á að rannsóknir leiði æ betur ljós tengsl svefnvandamála við heilsufar: „Það er tiltölulega stutt síðan læknar deildu um það hvort fyrirbærið öndunartengdar svefntruflanir eða kæfisvefn fyrirfyndist í mannskepnunni. Í dag er umræðan meira um afleiðingar af ónógum svefni eða ómeðhöndluðum svefntruflunum.

mbl.is/Hari

Nýlegar rannsóknir sýna að mikil tengsl eru t.d. á milli þeirra sem greinst hafa með sykursýki 2 og öndunartengdra svefnvandamála. Undanfarið hefur líka átt sér stað vitundarvakning um mikilvægi góðs svefns. Á síðasta ári birtust niðurstöður rannsókna sem sýna að kostnaður bandarísks samfélags af svefntruflunum og skorti á góðum svefni nemur 411 milljörðum dala árlega. Ef við gefum okkur að við Íslendingar séum engu betri en Bandaríkjamenn og veltum þessum niðurstöðum upp á íslenskan veruleika jafngildir þetta því að svefnvandamál kosti íslenskt samfélag meira en 50 milljarða króna á ári. Í dag deila fáir um mikilvægi góðrar svefnheilsu og það er ástæða fyrir því að við verjum um þriðjungi ævi okkar í svefni.“

Þriðjungur tekna í rannsóknir

Nox Medical er vel að því komið að hljóta nýsköpunarviðurkenningu Creditinfo. Frá því fyrirtækið var stofnað fyrir 12 árum hefur það stækkað hratt og á þessu ári stefnir í að velta félagsins verði um 2 milljarðar króna. Tæplega þriðjungi af tekjum fyrirtækisins er varið til rannsókna og þróunar á næstu kynslóðum svefngreiningarlausna og á Nox Medical í umtalsverðu rannsóknasamstarfi við fremstu vísindamenn og háskóla á sviði svefnrannsókna í heiminum.

mbl.is/Hari

„Við erum ákaflega stolt af þeim árangri sem við höfum náð. Frá því að stofnendurnir ýttu úr vör hafa bæst í hóp okkar um 50 hæfileikaríkir og skapandi einstaklingar sem vilja taka þátt í þessu spennandi verkefni. Stór hluti þess hóps er Íslendingar sem vilja snúa heim að loknu námi á sviði heilbrigðisvísinda, verkfræði og tölvunarfræða,“ segir Pétur. „Nox hefur náð að byggja upp einvala liðsheild sem býr yfir ómældum styrk og vill takast á við störf sem í senn eru krefjandi og gefandi en gera kröfu um þann sköpunarkraft sem nýsköpun félagsins byggist á."

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Fleiri greinar og viðtöl