ATH.: Upplýsingarnar sem hér koma fram eru úreltar. Skoðið frekar Framúrskarandi fyrirtæki 2020.
438 Ragnar Björnsson ehf
Stærðarflokkur Meðalstórt
Röð innan flokks 195
Aðsetur Hafnarfjörður
Landshluti Höfuðborgarsvæði
Atvinnugrein - meginfl. Framleiðsla
Atvinnugrein - ítarfl. Framleiðsla á öðrum húsgögnum og innréttingum
Framkvæmdastjóri Birna Katrín Ragnarsdóttir
Eignir 409.854
Skuldir 96.062
Eigið fé 313.792
Eiginfjárhlutfall 76,56%
Á listanum öll ár? Nei
Fyrri ár á listanum 2010, 2011, 2012, 2013, 2017
Allar fjárhæðir eru í þúsundum króna

Hefst með dugnaði, þrjósku og stórgóðu starfsfólki

Birna Ragnarsdóttir segir glettin að gæði rúmana eigi sinn þátt …
Birna Ragnarsdóttir segir glettin að gæði rúmana eigi sinn þátt í að hjálpa kaupendum að búa til næstu kynslóð viðskiptavinanna. mbl.is/Kristinn Magnússon

Um daginn spurði meðlimur í neytendahóp á Facebook hvar hann ætti að kaupa sér nýja dýnu. Stóð ekki á svörunum: „RB Rúm eða þú ert að henda peningunum.“ Fyrirtækið Ragnar Björnsson ehf, eða RB Rúm eins og það er oftast kallað, á sér langa og merkilega sögu og fagnar 75 ára afmæli þann 1. desember næstkomandi. Eins og gefur að skilja hefur RB Rúm margoft þurft að laga sig að miklum breytingum á markaði, upp- og niðursveiflum í hagkerfinu og síbreytilegum kröfum neytenda.

Birna Katrín Ragnarsdóttir er framkvæmdastjóri fyrirtækisins í dag. „Hann pabbi lærði húsgagnabólstrun í Reykjavík en hélt ungur til Danmerkur í starfsnám í gerð springdýna. Þegar heim var komið, þá 27 ára gamall, stofnar hann fyrirtækið og fer að framleiða vandaðar springdýnur fyrir íslenska kaupendur.“

Birna þorir ekki að fullyrða að gormadýnur hafi ekki verið fáanlegar á Íslandi árið 1953 en hitt er víst að það olli straumhvörfum þegar Ragnar hóf framleiðsluna. „Á þessum tíma var algengt að fólk svæfi á svampdýnum og jafnvel á dýnum sem fylltar voru með hálmi,“ segir hún.

Sérsmíða má dýnur eftir óskum kaupandans svo að smellpassi inn …
Sérsmíða má dýnur eftir óskum kaupandans svo að smellpassi inn í svefnherbergið. mbl.is/Kristinn Magnússon

Dýnugerð verður að verslun

Framan af var RB Rúm fyrst og fremst heildsala og voru flestar húsgagnaverslanir landsins með dýnur frá Ragnari.

„Húsgagnahöllin, og Ingvar og Gylfi voru lengi vel okkar stærstu viðskiptavinir, en smám saman tók að bera meira á því að fólk kæmi beint á verkstæðið og vildi kaupa dýnurnar milliliðalaust. Varð úr að búa til litla sýningaraðstöðu í verksmiðjuhúsinu að Dalshrauni 6, sem við svo stækkum 1995 og loks að þremur árum seinna að við kaupum hús Loftorku hér við hliðina, umturnum því og opnum veglega verslun í Dalshrauni 8.“

RB Rúmum hefur tekist að þrauka þrátt fyrir sífellt harðnandi samkeppni. Meðal erfiðustu skeiðanna í rekstri félagsins nefnir Birna þegar Ísland varð aðili að GATT-samningnum seint á 7. áratugnum, og aftur þegar Ísland fékk aðild að innri markaði Evrópusambandsins snemma á 10. áratugnum. Upp úr aldamótum varð síðan sprenging í ódýrum innflutningi frá Kína.

Að sögn Birnu skrifast það ekki síst á þrjósku og dugnað föður hennar að fyrirtækið hafi staðið af sér þessar miklu breytingar og þá samkeppni sem þeim fylgdi.

„Það hefur aldrei verið mikil yfirbygging á rekstrinum og við höfum líka verið mjög heppin með starfsfólk enda reynum við að gera vel við það,“ segir hún og minnist þess að á erfiðum tímum í sögu fyrirtækisins hafi hún verið send út í banka með ógreidda víxla frá viðskiptavinum og snúið til baka með stafla af vanskilavíxlum. „Það hafa komið fjarska erfið tímabil inn á milli þar sem peningarnir voru af mjög skornum skammti.“

mbl.is/Kristinn Magnússon

Dýnurnar hjálpa við að búa til nýjar kynslóðir kaupenda

Það hefur líka hjálpað RB Rúmum að fyrirtækið er þekkt fyrir að veita góða þjónustu. Birna bendir á að springdýnur geti stundum skemmst ef þær verða fyrir miklu hnjaski, en þar sem framleiðslan fer öll fram á Íslandi geti RB Rúm gert við þreyttar og skemmdar dýnur. „Ef vel hefur verið farið með dýnuna og hún er farin að gefa sig eftir t.d. tíu ára notkun, þá er með tiltölulega litlum tilkostnaði hægt að endurnýja hana. Ef dýnan er aftur á móti orðin blettótt eða börn hafa fengið að nota hana eins og trampolín þá borgar sig yfirleitt ekki að ráðast í viðgerð.“

Annað sem viðskiptavinir kunna að meta er að hægt er að sérpanta dýnur af hér um bil hvaða stærð og lögun sem er og þannig fá dýnu sem t.d. smellpassar í skot eða krók í svefnherbergi. „Það er enginn sem getur boðið upp á svona sérsmíði nema við,“ segir Birna.

„Okkar dýnur eru líka með stálkanti allan hringinn til að veita góðan stuðning í kantinum. Stálkanturinn eykur endingu dýnunnar til muna og algengt að þurfi að skipta kantlausum dýnum út helmingi fyrr.“

Þeir sem eignast dýnur frá RB Rúmum virðast halda tryggð við fyrirtækið eftir það og gantast Birna með að dýnurnar eigi sinn þátt í að búa til nýjar kynslóðir viðskiptavina. „Það er afskaplega gaman að sjá t.d. þegar foreldrar, afar og ömmur koma með barnið sitt eða barnabarn í búðina að kaupa rúm handa þeim í fermingargjöf.“

Kaupa fleira fyrir svefnherbergið þegar vel árar

Meðal þess sem hefur hjálpað RB rúmum að undanförnu er sá uppgangur sem verið hefur í ferðaþjónustu. Ný hótel hafa risið hér og hvar og þarf að bjóða gestum upp á sterkbyggð og þægileg rúm til að sofa í.

Þá þarf reglulega að endurnýja dýnur, sama hvernig árar. „Eftir hrun hélt fólk áfram að kaupa nýjar dýnur þegar þess var þörf, en keypti ekki mikið meira en það. Var það mikil breyting frá því ástandi sem ríkti fram til 2008 þegar viðskiptavinir komu í búðina og keyptu nánast allt sem þeim datt í hug,“ segir Birna en auk þess að selja dýnur bjóða RB rúm upp á ýmiss konar húsgögn og aukahluti fyrir svefnherbergið.

„Núna sjáum við þess merki að kaupmáttur heimilanna hefur aukist í betri sölu á vörum eins og bólstruðum höfðagöflum og púðum. Þrátt fyrir að fólk sé duglegt að eyða er kauphegðunin ekki eins og á síðasta góðæristímabili því í stað þess að greiða með korti eða gera raðgreiðslusamning kjósa flestir að staðgreiða kaupin.“

mbl.is/Kristinn Magnússon
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Fleiri greinar og viðtöl