ATH.: Upplýsingarnar sem hér koma fram eru úreltar. Skoðið frekar Framúrskarandi fyrirtæki 2021.

154 Reiknistofa bankanna hf.

Stærðarflokkur Stórt
Röð innan flokks 134
Landshluti Höfuðborgarsvæði
Atvinnugrein Upplýsingar og fjarskipti
Starfsemi Gagnavinnsla, hýsing og tengd starfsemi
Framkvæmdastjóri Ragnhildur Geirsdóttir
Fyrri ár á listanum 2016–2018
Framúrskarandi 2019

Hvernig gengur reksturinn?

Eignir 4.730.560
Skuldir 2.790.486
Eigið fé 1.940.074
Eiginfjárhlutfall 41,0%
Allar fjárhæðir eru í þúsundum króna

Eigendur og eignarhald

Þekktir hluthafar 11
Endanlegir eigendur 69
Eignarhlutur í öðrum félögum 2
Endanleg eign í öðrum félögum 0

Lánshæfismat félaga í sömu grein

Meðallánshæfi félaga í atvinnugreininni Gagnavinnsla, hýsing og tengd starfsemi

pila

Miðlungi áhættumikil

Meira um fyrirtækið hjá CreditInfo

Vilja efla nýsköpun í fjártækni

Reiknistofa Bankanna sér um að halda upp greiðslumiðlun á landinu, ábyrgð fyrirtækisins er því mikil. Ragnhildur Geirsdóttir, forstjóri RB, segir að fyrirtækið vilji stuðla að frekari nýsköpun í fjártækni hér á landi og veita henni umgjörð.

Í mynd­skeiðinu er rætt við Ragnhildi um stefnu, starf­semi og sam­fé­lags­ábyrgð fyr­ir­tæk­is­ins.

mbl.is í sam­starfi við Cred­it­in­fo fram­leiðir 10 mynd­skeið um Framúrsk­ar­andi fyr­ir­tæki Cred­it­in­fo og áður hafa birst mynd­skeið um SS, Krón­una, ORF líf­tækni og Ueno.

Hér að neðan má sjá umfjöllun um RB sem birtist í sérblaði um Framúrskarandi fyrirtæki í síðustu viku.

Reiknistofa bankanna, RB, gegnir mikilvægu hlutverki hér á landi, m.a. við að viðhalda og tryggja að greiðslur renni hratt og örugglega í gegn þegar almenningur kaupir sér vörur og þjónustu úti í búð. Hjá fyrirtækinu starfa 170 manns og að sögn Ragnhildar Geirsdóttur sem sinnt hefur starfi forstjóra fyrirtækisins frá því í byrjun þessa árs, er RB eftirsóttur vinnustaður. Það vekur athygli að hlutfall kvenkyns forritara er hátt hjá RB. „35% af forriturum í vinnu hér eru konur. Það er frekar hátt hlutfall, enda eru konur aðeins 10-20% af þeim tölvunarfræðingum sem útskrifast úr háskólum hér á landi. Við erum mjög stolt af þessu,“ segir Ragnhildur, og bætir því við að meðalaldur starfsmanna hjá fyrirtækinu sé 45 ár. „Það er mikil ásókn í störf hér þegar við auglýsum, enda er þetta áhugaverður og skemmtilegur vinnustaður og gaman að vinna hér. Hér eru mörg skemmtileg verkefni og fjölbreyttar áskoranir á hverjum degi.“

Spennandi gerjun í gangi

Ragnhildur segir að það sem geri störf hjá RB sérstaklega áhugaverð sé að mikil gerjun sé í öllu er snýr að tæknilegum hluta fjármálageirans. „Við rekum innviði fyrir fjármálakerfið, og þurfum að tryggja að kerfin séu skilvirk og séu uppi öllum stundum. Það er okkar lykilverkefni frá degi til dags.“

Hún segir að RB standi í stórræðum þessi misserin við að skipta út öllum gömlu heimasmíðuðu kerfunum sem hafa verið í notkun í áratugi. „Gömlu kerfin eru öll skrifuð í heimasmíðuðu stórtölvuumhverfi. Við erum þegar búin að skipta út hluta af innlána- og greiðslukerfunum, og svo erum við að skipta út jöfnunar- og stórgreiðslukerfum Seðlabankans. Þetta er allt að fara inn í stöðluð alþjóðleg kerfi. Nýja innlána- og greiðslukerfið heitir Sobra, en nýja seðlabankakerfið heitir Perago.“

Búið er, að sögn Ragnhildar, að skipta út kerfum fyrir bæði Íslandsbanka og Landsbankann, en vinna við kerfi Arion banka stendur yfir. Á eftir fylgja Sparisjóðirnir. „Gamla stórtölvukerfið var allt skrifað hér á landi og var mjög skilvirkt, og samtengt, en hafði líka ákveðnar takmarkanir, og ekki auðvelt að gera breytingar á því. Með því að færa okkur yfir í stöðluð kerfi erum við að fylgja betur eftir alþjóðlegri þróun og innleiðum nýja tækni.“

Þeir kostir fylgdu því að vera með gamla kerfið jafn samtengt og það var, voru þeir að hér á landi var snemma hægt að bjóða upp á rauntímagreiðslur, og færslur flæddu eðlilega úr einum banka í annan, að sögn Ragnhildar. „Kostirnir við að fara í stöðluð erlend kerfi eru að það er verið að þróa þau fyrir miklu fleiri, og í stærra samhengi. Þróunarteymin eru miklu stærri, og við fáum fullt af spennandi nýrri virkni með.“

RB vill vera í ákveðnu leiðtogahlutverki á fjármálamarkaðnum að sögn Ragnhildar, og ýta undir nýsköpun í lausnum fyrir fjármálamarkaðinn. „Það er mikið að gerast núna á sviði fjártækni og við viljum liðka fyrir framþróun og nýsköpun í fjártækni. Ég myndi vilja sjá íslenska markaðinn vaxa og þróast eins og er að gerast í Evrópu og Asíu til dæmis.“

RB er að stærstum hluta í eigu fjármálafyrirtækja, sem einnig eru stærstu viðskiptavinirnir. „Við lítum svo á að við þjónustum fjármálamarkaðinn í heild sinni. Öll opnun er góð á þessu sviði, og við viljum sjá framþróun í tækni og þróun.“

Annað sem Ragnhildur nefnir sem hluta af framtíð RB er sú mikla umræða sem er um hagræðingu í bankakerfinu. „Við sjáum mikla möguleika á að hagræða meira með auknum samrekstri á innviðum. Hvítbókin um fjármálakerfið sem gefin var út í fyrra, kom inn á mikilvægi þessa. Þarna getum við verið með mikilvægt hlutverk, og bankarnir geta þá einbeitt sér að framendanum og því sem snýr að því að þjónusta viðskiptavininn.“

Ragnhildur segir að RB reki í dag fyrst og fremst kerfi fyrir viðskiptabankastarfsemi en gæti einnig rekið önnur kerfi fyrir fjármálamarkaðinn. Sem dæmi hafi oft verið velt upp þeim hugmyndum að reka sameiginlega kerfi til að hafa eftirlit með peningaþvætti, og allt varðandi svokallað KYC (Know Your Customer), sem snýr að því að kanna bakgrunn viðskiptavina áður en þeir hefja viðskipti. Hún segir að Ísland sé frekar lítið kerfi sem gæti hentar vel til þess að vinna þessi mál saman. Spurð að því hvort viðræður séu komnar í gang um innviðaverkefni, segir Ragnhildur að ágætis jarðvegur sé fyrir málinu, og samtal aðila sé að hefjast.

Ragnhildur nefnir að lokum annað spennandi verkefni sem RB stendur að, en það er gagnaverið Reykjavík Data Center hjá Korputorgi í Reykjavík, en samstarfsaðilar þar eru Opin kerfi, Sýn og Korputorg. Gagnaverið verður tilbúið til notkunar í byrjun árs 2020 „Við erum með 10% hlut í gagnaverinu. Við munum nota það til að hýsa hluta af okkar kerfum. Það er áhugavert að koma að uppbyggingu á svona hágæða gagnaveri, sem verður það fyrsta af þessum gæðum hér á landi.“

Kröfuharðir viðskiptavinir

Um rekstur RB almennt segir Ragnhildur að endingu að rekstur RB snúist annars vegar um rekstur mikilvægra innviða fyrir fjármálamarkaðinn og hins vegar stór breytingar- og þróunarverkefni. Sveiflur í grunnrekstrinum séu ekki mjög miklar, og umhverfið nokkuð stöðugt. Verkefnin séu hins vegar mun breytilegri og sveiflukenndari „Viðskiptavinirnir okkar eru mjög kröfuharðir, og gera kröfu um skilvirkan og hagkvæman rekstur.“

Ragnhildur Geirsdóttur er forstjóri Reiknistofu Bankanna (RB).
Ragnhildur Geirsdóttur er forstjóri Reiknistofu Bankanna (RB). Eggert Jóhannesson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Fleiri greinar og viðtöl

Samstarfsaðilar