ATH.: Upplýsingarnar sem hér koma fram eru úreltar. Skoðið frekar Framúrskarandi fyrirtæki 2021.

218 Valka ehf.

Stærðarflokkur Stórt
Röð innan flokks 172
Landshluti Höfuðborgarsvæði
Atvinnugrein Sérfræðileg, vísindaleg og tæknileg starfsemi
Starfsemi Starfsemi verkfræðinga og skyld tæknileg ráðgjöf
Framkvæmdastjóri Helgi Hjálmarsson
Fyrri ár á listanum 2019
Framúrskarandi 2020

Hvernig gengur reksturinn?

Eignir 1.768.354
Skuldir 589.313
Eigið fé 1.179.041
Eiginfjárhlutfall 66,7%
Allar fjárhæðir eru í þúsundum króna

Eigendur og eignarhald

Þekktir hluthafar 12
Endanlegir eigendur 36
Eignarhlutur í öðrum félögum 0
Endanleg eign í öðrum félögum 0

Lánshæfismat félaga í sömu grein

Meðallánshæfi félaga í atvinnugreininni Starfsemi verkfræðinga

pila

Tiltölulega áhættulítil

Meira um fyrirtækið hjá CreditInfo

Valka framúrskarandi í nýsköpun

Valka er í dag orðin að stöndugu fyrirtæki, leiðandi á sínu sviði og með viðskiptavini um allan heim. Er merkilegt til þess að hugsa að aðeins sautján ár eru liðin síðan Helgi Hjálmarsson stofnaði fyrirtækið í bílskúr í Kópavoginum. Síðan þá hefur vöxtur Völku verið ævintýri líkastur og fer vel á því að fyrirtækið hljóti í ár viðurkenningu Creditinfo fyrir framúrskarandi nýsköpun.

Undanfarinn áratug hefur starfsemi Völku um það bil tvöfaldast að umfangi á 2-3 ára fresti en Helgi segir að miklar sveiflur hafi einkennt reksturinn framan af og fyrirtækið þurft að takast á við fjölda stórra áskorana. Fyrsta tímamótalausn Völku var samvals- og pökkunarflokkari fyrir sjávarafurðir sem kom á markað árið 2008 en fyrirtækið umbylti markaðinum fyrir fiskvinnslulausnir árið 2012 þegar vatnsskurðarvélin Valka Cutter leit dagsins ljós.

Helgi Hjálmarsson hjá Völku tók við nýsköpunarverðlaunum Creditinfo að þessu …
Helgi Hjálmarsson hjá Völku tók við nýsköpunarverðlaunum Creditinfo að þessu sinni. Morgunblaðið/Kristinn Magnússon

Morgunblaðið hefur fjallað ítarlega um vatnsskurðarlausn Völku en þar fara saman fullkomin tækni sem greinir lögun og stærð flaks og staðsetningu beina, og notar vatnshníf til að snyrta flakið og skera í bita sem samræmast fullkomlega kröfum kaupandans. Tæknin eykur afköst, tryggir gæðin með framúrskrandi meðhöndlun og hámarkar virði afurða með því að velja með bestunaraðferðum þá bita sem skornir eru úr hverju flaki.

Byggist á einstöku samstarfi

Helgi segir að Valka og önnur íslensk fyrirtæki á sama sviði eigi árangur sinn ekki síst að þakka metnaði og áhuga íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja. Útgerðirnar og fiskvinnslurnar hafi lagt ríka áherslu á að tæknivæðast og treyst snjöllu hugvitsfólki til að finna góðar lausnir. „Það hefur verið bæði sprotum og stærri fyrirtækjunum ómetanlegt – og í raun alveg einstakt – að vera gefið fullt aðgengi að vinnslurýmum til að athafna sig, þróa lausnir og gera prófanir á þeim.“

Helgi minnist þess hvernig starfsemi Völku fór fyrst almennilega af stað þökk sé verkefni fyrir HB Granda, nú Brim. „Þar hafði verið fjárfest í nýjum lausfrysti sem bætti afköst úr 1 tonni á klukkustund upp í 2,5 tonn og höfðu stjórnendur áhyggjur af að með þeirri tækni sem fyrir var myndi ekki vera hægt að mata lausfrystinn með nægilega skilvirkum hætti til að nýta alla afkastagetuna,“ segir Helgi sem var fenginn til að hanna og smíða heppilega lausn. Þurftu hlutirnir að gerast hratt en verkkaupi treysti Völku til að leysa verkefnið vel af hendi. Helgi segir þetta verkefni hafa verið Völku mikils virði og snúist um meira en þær krónur sem komu í kassann. „Þarna fengum við fljúgandi start. Allt gekk að óskum; árangurinn varð eins og að var stefnt og það veitti mér trú á að sú hugdetta að stofna þetta fyrirtæki myndi ganga upp.“

Það gagnaðist Völku líka vel á fyrstu metrunum að geta sótt stuðning til hinna ýmsu sjóða. Helgi nefnir sérstaklega AVS-sjóðinn og Tækniþróunarsjóð sem tóku þátt í kostnaði við þróun nýrra fiskvinnslulausna. Þá gerði gæfumuninn að Helga tókst fljótlega að fá þrjá félaga sína til liðs við sig sem meðeigendur og stjórnarmenn en það voru þeir Hallbjörn Karlsson, Árni Hauksson og Sigurbjörn Þorkelsson. „Það hjálpaði okkur mikið þegar kom að því, á seinni stigum, að fá fagfjárfesta inn í félagið en Nýsköpunarsjóður kom inn árið 2008 og Frumtak 2011,“ útskýrir Helgi og bætir við að Valka búi enn að því að hafa breiða og sterka stjórn.

Með þennan liðsauka var líka hægt að sinna vöruþróun og nýsköpun betur og skipta verkum með skilvirkari hætti. „Ég hafði heyrt þá þumalputtareglu að það kostaði 10% að búa til vöruna og 90% að selja hana, en ég hafði ímyndað mér að þetta væru ýkjur og hlutfallið væri nær 50-50, sem það var aldeilis ekki.“

Umbyltandi nýsköpun á réttum tíma

Allt frá upphafi hefur þess verið gætt hjá Völku að beina allháu hlutfalli tekna í rannsóknir og þróun. Hlutfallið hefur þó verið breytilegt á milli ára og sveiflast frá tæplega 17% til 23% á undanförnum fjórum árum. „Það er ekki stefnan hjá okkur, út af fyrir sig, að eyrnamerkja þróunarhlutanum tiltekið hlutfall tekna, heldur förum við þá leið að setja mjög mikinn kraft í rannsóknir og þróun þegar réttu verkefnin kalla á það. Gott dæmi um þetta er sá búnaður sem við höfum hannað og smíðað fyrir nýja fiskvinnslu Samherja á Dalvík og útkoman ekki bara nýsköpun heldur umbyltandi nýsköpun,“ útskýrir Helgi. „Við eigum enn eftir að kynna betur fyrir greininni öll þau nýju skref sem hafa verið tekin í notkun á Dalvík en þar hefur tekist að gjörbreyta því hvernig fiskurinn er verkaður og útkoman sú að síðasta skipulagða snertingin við afurðina er þegar verið er að tryggja að flakið liggi vel á færibandinu þegar það fer inn í skurðarvélina. Eftir það er ferðalag fisksins í gegnum vinnsluna algjörlega sjálfvirkt.“

Ný tækni auðveldar vöruþróun

Ævintýrið er rétt að byrja og eygir Helgi fjölda vaxtartækifæra um allan heim. Nú síðast hefur Valka látið að sér kveða á laxeldismarkaði þar sem framleiðendur nota vatnsskurðarvélar til að skera flökin í bita sem falla betur að óskum neytenda. „Það gerir laxinn auðveldari í meðförum að þar sem um eldisafurð er að ræða er minni breytileiki í stærð á milli fiska. Sá vandi sem framleiðendur hafa einkum glímt við er að ekki er unnt að tína beinin úr á sjálfvirkan hátt fyrr en eftir dauðastirðnun sem tekur tvo til þrjá daga. „Markaðurinn gerir æ ríkari kröfu um að hægt sé að tryggja að fiskurinn sé beinlaus og hefur það líka skemmt fyrir seljendum að lax hefur nær eingöngu verið seldur í þverskornum bitum sem þýðir að þykkur hnakkahluti og þunnildi eru í einu og sama stykkinu og hentar ekki mjög vel til eldunar. Vatnsskurður býður upp á að skera flakið með allt öðrum hætti og búa til nýjar og verðmætari vörur.“

Helgi bendir á hvernig tæknin sé því ekki aðeins að nýtast framleiðendum til að auka afköst og gæði og hámarka nýtingu heldur skapast líka nýir möguleikar fyrir vöruþróun. „Gott dæmi um þetta er hvernig belgískt fyrirtæki hyggst nota vatnsskurðarvélina okkar til að skera hluta hvers laxaflaks í einsleita teninga sem henta vel í „poke“-salatgerð. Fullkomin tæki eru að gera framleiðendum fært að bjóða upp á allt aðrar vörur og aðrar samsetningar, breyta því hvernig pakkningar þeir nota og hvernig varan lítur út.“

Fyrirtæki sem vanrækja nýsköpun geta dregist aftur úr

„Íslensk hátæknifyrirtæki, sem tengjast sjávarútvegi, hafa skipað sér í fremstu röð á alþjóðavísu. Valka nýtir tækniframfarir á sviði vinnslubúnaðar, hugbúnaðar og gervigreindar til að hámarka framleiðslu og nýtingu á sjávarafurðum. Valka er fyrirmyndardæmi um það hvernig nota má tækni fjórðu iðnbyltingarinnar til að efla framleiðni fyrirtækja og nýta enn betur takmarkaðar auðlindir sjávarafurða.“

Þetta segir Salóme Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Icelandic Startups, en hún sat í dómnefnd Capacent í ár. Salóme segir sjaldan hafa verið jafn mikilvægt að leggja áherslu á nýsköpun. „Hraðar tæknibreytingar, krafa viðskiptavina um skýr samfélagsleg gildi í rekstri fyrirtækja, áhersla á aukinn hraða, sjálfvirkni og þægindi sem og gjörbreytt neysluhegðun, ekki síst í kjölfar kórónuveirufaraldursins, undirstrikar brýna þörf á reglulegri endurskoðun á viðskiptamódeli og ferlum,“ segir hún. „Jafnvel þó stjórnendur séu meðvitaðir um helstu tækifæri tækninnar og þróun markaða þá eiga fyrirtæki á hættu að verða undir í samkeppni ef þau gera nýsköpun ekki nægilega hátt undir höfði. Um það eru mýmörg dæmi. Áskorunin felst einnig í þeim breytingum sem oft þurfa að verða á innra skipulagi, viðhorfi og menningu. En stærstu tækifærin til verðmætasköpunar er einmitt gjarnan að finna innan rótgróinna fyrirtækja þar sem til staðar er þekking og reynsla sem byggja má á.“

Helgi Hjálmarsson hjá Völku tók við viðurkenningunni úr hendi Brynju …
Helgi Hjálmarsson hjá Völku tók við viðurkenningunni úr hendi Brynju Baldursdóttur, framkvæmdastjóra Creditinfo. Morgunblaðið/Kristinn Magnússon

Salóme segir árangur Völku gott dæmi um þá keðjuverkun sem getur orðið þegar nýsköpun nær miklu flugi: „Helgi Hjálmarsson stofnaði Völku árið 2003. Hann hafði þá starfað hjá Marel í um áratug. Hugmyndin sem varð uppsprettan að Völku má segja að sé lýsandi dæmi um þekkingu sem verður til á einum stað og heldur áfram að blómstra á öðrum,“ segir hún. „Það er mat dómnefndar að Valka sé einstakt dæmi um fyrirtæki sem komið er vel á legg en gefur ekkert eftir með öflugu rannsóknar- og þróunarstarfi sem stuðlar að hugvitsdrifnum hagvexti og skapar fjölda verðmætra starfa. Það er því heiður að veita þeim þessi mikilvægu verðlaun.“

Salóme Guðmundsdóttir er formaður nefndarinnar um nýsköpunarfyrirtæki ársins.
Salóme Guðmundsdóttir er formaður nefndarinnar um nýsköpunarfyrirtæki ársins. Morgunblaðið/Árni Sæberg
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Fleiri greinar og viðtöl

Samstarfsaðilar