ATH.: Upplýsingarnar sem hér koma fram eru úreltar. Skoðið frekar Framúrskarandi fyrirtæki 2021.

261 Iðnmark ehf

Stærðarflokkur Meðalstórt
Röð innan flokks 69
Landshluti Höfuðborgarsvæði
Atvinnugrein Framleiðsla
Starfsemi Vinnsla á kartöflum
Framkvæmdastjóri Dagbjartur Björnsson
Fyrri ár á listanum 2010–2019
Ávallt framúrskarandi Framúrskarandi 2020

Hvernig gengur reksturinn?

Eignir 940.944
Skuldir 59.342
Eigið fé 881.602
Eiginfjárhlutfall 93,7%
Allar fjárhæðir eru í þúsundum króna

Eigendur og eignarhald

Þekktir hluthafar 4
Endanlegir eigendur 5
Eignarhlutur í öðrum félögum 1
Endanleg eign í öðrum félögum 1

Lánshæfismat félaga í sömu grein

Meðallánshæfi félaga í atvinnugreininni Matvælaframleiðsla

pila

Mjög áhættulítil

Meira um fyrirtækið hjá CreditInfo

Höfum náð að halda okkar sérstöðu

Sigurjón Dagbjartsson er framkvæmdastjóri fyrirtækisins og Jóhanna Dagbjartsdóttir er fjármálstjóri.
Sigurjón Dagbjartsson er framkvæmdastjóri fyrirtækisins og Jóhanna Dagbjartsdóttir er fjármálstjóri. Morgunblaðið/Eggert Jóhannesson

Íslendingar elska popp. Þar getur blaðamaður verið sammála Sigurjóni Dagbjartssyni, framkvæmdastjóra fjölskyldufyrirtækisins Iðnmarks í Hafnarfirði, en fyrirtækið framleiðir hið rómaða Stjörnupopp og Stjörnusnakk. Fyrirtækið er eitt af fáum fyrirtækjum sem verið hefur á lista Creditinfo yfir framúrskarandi fyrirtæki frá upphafi, enda gengur reksturinn vel, meira að segja núna þegar kreppir að í samfélaginu vegna kórónuveirunnar. Íslendingar þurfa sitt popp og snakk hvað sem á bjátar. Tvö hundruð þúsund pokar af poppi og snakki renna af færibandi Iðnmarks í hverjum einasta mánuði.

Byrjuðum að borða popp árið 1940

Sigurjón upplýsir blaðamann um þá sögulegu staðreynd að Íslendingar hafi byrjað að borða popp í kringum árið 1940, þegar Kaninn steig hér á land. „Faðir minn Dagbjartur Björnsson stofnaði Iðnmark ásamt eiginkonu sinni Eyrúnu Sigurjónsdóttur og fjölskyldu árið 1988, og við erum búin að vera í þessu síðan, eða í þrjátíu og tvö ár,“ segir Sigurjón, og kveðst hvergi nærri hættur, enda sé gaman að framleiða popp og snakk. „Stjörnupopp og Ostapopp var fyrsta varan sem fyrirtækið sendi frá sér árið 1988.“

Spurður að því hvernig hugmyndin hafi kviknað segir Sigurjón að faðir hans hafi verið á vörusýningu í Bandaríkjunum, og þar hafi poppvélar verið til sýnis. Margir hafi veitt þeim athygli, og þar á meðal hann. „Hann áttaði sig á að það var gat á markaðnum hér heima. Það var ekki til tilbúið popp í verslunum. Þannig fór þetta af stað.“

Næsta vara sem kom á markað frá Iðnmarki var hið vinsæla Stjörnusnakk. „Það var upp úr 1990. Svo hefur þetta þróast jafnt og þétt síðan. Við reynum að koma með þrjár til fjórar nýjar vörur á hverju ári á markaðinn. Það er alltaf áhugi fyrir nýjungum, og stundum er nóg að breyta kryddinu eða löguninni á snakkinu.“

Meðal vörutegunda sem komið hafa frá Iðnmarki og fást í búðum í dag eru Fitness-popp, Prótein-popp, Karamellupopp og alls konar snakktegundir. „Þar má nefna paprikustjörnur, ostastjörnur, Sour Créme-snakk, og svo Partý mix og skrúfur,“ útskýrir Sigurjón, en það er greinilega lengi hægt að halda áfram að þróa snakk í ýmsar áttir.

„Topparnir í sölunni eru á gamlárskvöld og þegar Eurovision er í gangi. Þá fer mikið af snakki og þegar fólk fer að streyma í útilegurnar í júlí á hverju ári. Þessir toppar hafa eiginlega haldist þeir sömu frá upphafi.“

Stjörnusnakk framleiðir um 200 þúsund snakkpoka í mánuði hverjum.
Stjörnusnakk framleiðir um 200 þúsund snakkpoka í mánuði hverjum. Morgunblaðið/Eggert Jóhannesson

Harður slagur um hillupláss

Spurður um samkeppnina á markaðnum segir Sigurjón að hún sé mikil, og oft sé harður slagur inni í verslununum sjálfum að halda góðu hilluplássi. Til þess þurfi að sinna verslunum vel og mæta á staðinn a.m.k. tvisvar í viku. „Þar kemur til sögunar okkar besti maður Örn Hafsteinn Baldvinsson sem sinnir okkar vörum í verslunum. Við erum búin að vera svo lengi í bransanum, og fólk er farið að venjast okkar vörum. Við höfum náð að halda okkar sérstöðu og ég finn að á síðustu árum velur fólk meira íslenskt. Það er enda umhverfisvænni vara en sú innflutta.“

Aðspurður segir Sigurjón að ekki sé hægt að nota hvaða kartöflur sem er til snakkgerðar. Til dæmis séu þær íslensku ekki nógu mjölmiklar. Í þeim sé of mikil sterkja, sem veldur því að þær brenna of auðveldlega. „Það er sérstakt afbrigði af kartöflum notað í snakk. Við fáum okkar kartöflur forunnar frá Frakklandi. Síðan klárum við að búa til snakk úr þeim. Við erum með tuttugu metra langa framleiðslulínu fyrir bæði snakk og popp.“

Maísinn kemur frá Bandaríkjunum en ekki er hægt að poppa hvaða maís sem er. „Það er sérstakur poppmaís sem við notum. Hann er sér ræktaður fyrir okkur, óerfðabreyttur. Við eigum í góðu samstarfi við maísbónda í Nebraska og hann ræktar alltaf sama maísinn fyrir okkur þarna úti, og við flytjum inn um 100 tonn á ári af poppmaís.“

Fyrstu árin keypti Iðnmark poppmaísinn sinn af íslenskum heildsala, en þegar umfang rekstrarins jókst, byrjaði Iðnmark að flytja sjálft inn maís. Fyrst um sinn voru flutt inn 40 til 60 tonn á ári, sem fylltu tvo til þrjá heila gáma.

„Poppneysla á Íslandi er alltaf að aukast, væntanlega á kostnað örbylgjupopps, sem þykir ekki eins hollt. Stjörnupoppið okkar er poppað í heitu loftstreymi, og sýður ekki í olíu. Svo úðum við 30 gráðu heitri kókosolíu ásamt salti á það. Það sama er með ostapoppið, þá úðum við ostadufti og salti á það eftir á.“

Iðnmark, sem framleiðir hið sívinsæla Stjörnusnakk er gamalgróið fjölskyldufyrirtæki, stofnað …
Iðnmark, sem framleiðir hið sívinsæla Stjörnusnakk er gamalgróið fjölskyldufyrirtæki, stofnað af föður Sigurjóns og Jóhönnu. Morgunblaðið/Eggert Jóhannesson

Ostapoppið dregur vagninn

Mest selda vara Iðnmarks er osta-stjörnupopp. Það stendur fyrir 20% af ársveltunni. „Ostapoppið hefur alltaf dregið vagninn, og sló í gegn strax í byrjun. Svo fylgja í kjölfarið Stjörnupoppið, Fitness-poppið, Prótein-poppið og svo karamellupoppið.“

Nýjasta varan af þeim popptegundum sem taldar voru upp hér að framan er Prótein-poppið. „Við fáum próteinduft frá KS á Sauðárkróki og blöndum því við kókósolíu og úðum á poppið. Þetta er eðalvara ef maður vill auka próteinneyslu, auk þess sem þú færð flókin kolvetni, trefjar og engan sykur.“

Ekki er heldur langt síðan byrjað var að framleiða stökkt og bragðgott karamellupopp. „Markaðurinn hefur tekið vel í það. Þetta er seinlegri framleiðsla. Við framleiðum tíu kíló í einni lotu. Það þarf að sjóða karamellluna, og svo er poppinu blandað út í og það húðast í karamellunni. Þetta er meiri handavinna.“

Átta manns vinna hjá Iðnmarki, og mögulega þarf að bæta fljótlega við starfsfólki að sögn Sigurjóns. „Salan nánast tvöfaldaðist í mars og apríl, því það voru svo margir heima vegna veirunnar. Þá þurftum við að vinna á vöktum til að anna eftirspurn.“

Eins og sjá má þegar ársreikningar Iðnmarks eru skoðaðir er fyrirtækið vel statt fjárhagslega, og reksturinn stöðugur. Tekjur hafa síðustu ár verið í kringum 370 milljónir á ári og hagnaður ávallt um og yfir eitt hundrað milljónir króna. Eigið féð er 881 milljón og eignir 940 milljónir, sem ætti að segja alla söguna um stöðu félagsins. „Okkur hefur fundist best að vera íhaldssöm í okkar ákvörðunum.“

Spurður um hlutdeildina á snakkmarkaðnum telur Sigurjón að hún sé um 20-25% ef allt er talið. „Það er talsvert hér af snakki frá Hollandi, Noregi, Danmörku og víðar að.“

Popp og snakk spyr ekki um aldur eða kyn. Fólk á öllum aldri er í viðskiptavinahópnum. „Eldra fólk kaupir mikið af stjörnupoppi. Þá fær það trefjarnar og próteinið. Þetta er bráðhollt. Við erum búin að ala upp eina poppkynslóð, og nú eru það börnin hennar sem eru farin að taka við. Þetta er þolinmæðisvinna.“

Þróunarferli hafið fyrir næsta vor

Framtíðin er björt hjá Iðnmarki, og nýjar vörur, sem Sigurjón getur ekki upplýst um hverjar eru, verða settar á markað með vorinu. „Síðasta vor komum við með laukhringi og buffalo-beikonsnakk á markaðinn, ásamt prótein-poppinu. Nú erum við í þróunarferli með vörur fyrir næsta vor. Það tekur átta til tólf mánuði að koma vöru á markað frá því að hugmyndin fæðist. Það þarf að prófa ýmsar kryddtegundir, og setja vörurnar svo í smökkun, til að vita hvað markaðurinn vill.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.090 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »

Fleiri greinar og viðtöl

Samstarfsaðilar