ATH.: Upplýsingarnar sem hér koma fram eru úreltar. Skoðið frekar Framúrskarandi fyrirtæki 2021.

375 Rue de Net Reykjavík ehf.

Stærðarflokkur Lítið
Röð innan flokks 13
Landshluti Höfuðborgarsvæði
Atvinnugrein Upplýsingar og fjarskipti
Starfsemi Hugbúnaðargerð
Framkvæmdastjóri Alfred Bæhrenz Þórðarson
Fyrri ár á listanum 2018–2019
Framúrskarandi 2020

Hvernig gengur reksturinn?

Eignir 199.236
Skuldir 102.881
Eigið fé 96.355
Eiginfjárhlutfall 48,4%
Allar fjárhæðir eru í þúsundum króna

Eigendur og eignarhald

Þekktir hluthafar 5
Endanlegir eigendur 5
Eignarhlutur í öðrum félögum 0
Endanleg eign í öðrum félögum 0

Lánshæfismat félaga í sömu grein

Meðallánshæfi félaga í atvinnugreininni Hugbúnaðargerð

pila

Miðlungi áhættumikil

Meira um fyrirtækið hjá CreditInfo

Veita persónulegri þjónustu

Alfred B. Þórðarson er framkvæmdastjóri Rue de Net og einn …
Alfred B. Þórðarson er framkvæmdastjóri Rue de Net og einn eigenda fyrirtækisins. Morgunblaðið/Árni Sæberg

Þegar maður heyrir eða sér á prenti fyrirtækisnafnið franska Rue de Net, þá er íslenskt hugbúnaðarfyrirtæki ekki endilega það fyrsta sem manni dettur í hug. Á íslensku myndi nafnið útleggjast sem Netstræti, eins og Alfred B. Þórðarson, framkvæmdastjóri og einn eigenda, útskýrir. „Árið 2003 tók ég að mér verkefni á Ermarsundseyjunni Jersey fyrir félaga minn Aðalstein Valdimarsson. Verkefnið snerist um að búa til veflausn ofan á Navision-kerfi sem fyrirtæki hans þar úti hafði þá þegar innleitt hjá nokkrum fjármálastofnunum. Samþættingin sem þarna varð til milli vefs og Navision var nýlunda, svo í kjölfarið ákváðum við að stofna fyrirtæki til að þróa þetta áfram og selja með aðstoð samstarfsaðila. Þegar við fórum að velta mögulegu nafni fyrir okkur á fyrirtækið varð okkur fyrst hugsað til brúargerðar, að brúa bilið milli vefs og Navision. Á Jersey eru frönsk götuheiti algeng og við ákváðum að kenna fyrirtækið við götu í stað brúar og kalla það Netstræti, eða Rue de Net. Þannig varð nafnið til,“ segir Alfred.

Seldu hingað og þangað um heiminn

Alfred segir að Rue de Net hafi lifað góðu lífi fyrstu árin á því einu að selja þessa samþættingarvöru, hingað og þangað um heiminn. Eins og fyrr segir var að hans sögn engin önnur virkilega góð leið til á markaðnum til að brúa bil milli Navision og vefsins. Því hafi samkeppnin ekki verið mikil. „Þegar Rue de Net kynnti lausnina fyrir Microsoft, eiganda Navision, þá líkaði þeim vel við, en sögðu að við hefðum 18 mánuði til stefnu þar til Microsoft myndi sjálft koma með sambærilega lausn á markaðinn. Við töldum þetta ágætistíma og lögðum okkur alla fram við að koma vörunni á framfæri og hún sló í gegn hjá samstarfsaðilum og viðskiptavinum.“

Alfred segir að reyndin hafi orðið sú að Microsoft hafi ekki komið með samkeppnishæfa lausn fyrr en hátt í 10 árum síðar, en eftir það hafi farið að draga úr nýsölum hjá Rue de Net. „Varan lifir þó enn góðu lífi hjá mörgum viðskiptavinum okkar og við þróum og þjónustum hana enn þann dag í dag.“

Ekkert þjónustuborð er hjá Rue de Net heldur er hver …
Ekkert þjónustuborð er hjá Rue de Net heldur er hver og einn viðskiptamaður beintengdur við sinn viðskiptastjóra. Morgunblaðið/Árni Sæberg

Alltaf í eigu starfsmanna

Þegar Rue de Net byrjaði að selja þessa vöru á Íslandi óskuðu viðskiptavinir fljótlega líka eftir almennri þjónustu við Navision, sem í dag kallast Microsoft Dynamics 365 Business Central, eða bara Business Central. Árið 2007 varð því til þjónustufyrirtækið Rue de Net Reykjavík. „Rue de Net Reykjavík er og hefur alltaf verið í eigu starfsmanna þess, og þar eru flestir sömu eigendur í dag og voru í upphafi,“ segir Alfred.

Þó að Rue de Net Reykjavík hafi aðallega verið stofnað til að veita þjónustu við Business Central fór félagið fljótlega að þróa og selja ýmsar viðbætur við kerfið. Viðbæturnar sem um ræðir eru t.d. bankakerfi, samþykktarkerfi, rafrænir reikningar og vefverslanir að sögn Alfreds. Þar að auki fór Rue de Net Reykjavík fljótlega að endurselja verslunarkerfi og lausnir frá LS Retail. „Við þjónustum Business Central og LS Central frá LS Retail með okkar eigin viðbótum og jafnvel sérbreytingum þegar þarfir viðskiptavina okkar kalla á slíkt.“

Veita betri og persónulegri þjónustu

Hvað þjónustuna varðar segir Alfred að þar hafi Rue de Net Reykjavík frá upphafi einsett sér að veita betri og persónulegri þjónustu en aðrir. Þannig sé til dæmis ekkert þjónustuborð hjá fyrirtækinu, heldur er hver og einn viðskiptamaður beintengdur við sinn viðskiptastjóra. Viðskiptastjórinn sé ávallt með puttann á púlsinum og viti jafnvel á undan viðskiptavininum hverju þurfi að breyta eða hvað þarf að bæta. „En góð þjónusta gengur auðvitað alltaf út á að vera með gott starfsfólk. Það er lykillinn að velgengni Rue de Net Reykjavík,“ segir Alfred.

Hann segir að viðskiptamódelið snúi meðal annars að því að ráða inn ungt fólk og þjálfa það til starfa og ábyrgðar. „Við erum núna með um þrjátíu og fimm starfsmenn, og meðalaldurinn er rétt í kringum 30 ár, ef litið er framhjá aldri stofnenda. Við erum nokkur í kringum fimmtugt, en langflest undir þrítugu. Þetta er ótrúlega flott blanda af reyndu fólki og mjög svo áhugasömu ungu fólki.“

Stærsti hluti tekna Rue de Net Reykjavíkur er þjónustutekjur að sögn Alfreds, en fyrirtækið hugsar gjarnan um hugbúnaðarlausnirnar sem ákveðna leið til að þjónusta viðskiptavinina. Þá segir hann að lausnirnar séu nú orðið allar í boði í skýinu, sem sé frábær leið til að dreifa lausnum og veita þjónustu.

Snertilaus lausn fyrir daginn í dag

Sem dæmi um lausn sem er vinsæl í dag þegar kórónuveiran herjar á samfélagið okkar, og krafan um sjálfvirka og snertilausa virkni í verslunum og veitingastöðum er sífellt hærri, er hugbúnaður sem Alfred kallar snertilausa sjálfsafgreiðslu og er hún hluti af nýrri vörulínu Rue de Net frá K3. Þessi lausn birtir t.d. matseðil veitingahúss í síma viðskiptavinar þegar viðskiptavinurinn ber símann upp að afgreiðslunema á borðinu á veitingastaðnum. Viðskiptavinurinn velur svo í símanum hvað hann vill kaupa, hann pantar, greiðir og fær veitingarnar, án þess að koma nokkurn tímann að afgreiðslukassa staðarins. „Það er svo gaman að taka þátt í að hjálpa fyrirtækjum að taka stærri skref inn í þessa stafrænu framtíð. Það er það skemmtilegasta sem við gerum.“

Aðspurður segir Alfred að kórónuveirufaraldurinn hafi einkum haft áhrif á sölustarf Rue de Net Reykjavíkur, enda sé óvissan mikil og fyrirtæki vilji mörg fresta því að taka ákvarðanir um kaup. „Það var samt mikið að gera framan af þar sem við vorum með mikið af uppsöfnuðum verkefnum frá fyrra ári sem við gátum gripið í og unnið okkur í gegnum í fyrstu bylgju faraldursins.“

Framtíðin er í skýinu

Viðskiptavinir Rue de Net Reykjavík eru nær allir íslenskir að sögn Alfreds, og skipta tugum. „Fyrirtækið gengur út á að þjónusta íslensk fyrirtæki, eins og lagt var upp með í byrjun. En vörurnar okkar eru auðvitað aðgengilegar hverjum sem vill kaupa þær í skýinu, bæði hugbúnaður og jafnvel þjónusta. Öll framtíðarsýn fyrirtækisins snýst um skýið.“

Spurður um galdurinn við góðan rekstur hugbúnaðarfyrirtækis ár eftir ár, eins og gerð er krafa um hjá Framúrskarandi fyrirtækjum, segir Alfred að mikilvægast sé að hafa gaman af því sem maður er að gera. „En það er einnig mikilvægt að horfa fram á veginn, því framtíðin kemur hvort sem manni líkar það betur eða verr,“ segir Alfred að lokum og brosir. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.090 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »

Fleiri greinar og viðtöl

Samstarfsaðilar