ATH.: Upplýsingarnar sem hér koma fram eru úreltar. Skoðið frekar Framúrskarandi fyrirtæki 2021.

731 Urta Islandica ehf.

Stærðarflokkur Lítið
Röð innan flokks 150
Landshluti Höfuðborgarsvæði
Atvinnugrein Landbúnaður, skógrækt og fiskveiðar
Starfsemi Ræktun jurta til drykkjargerðar
Framkvæmdastjóri Þóra Þórisdóttir
Fyrri ár á listanum Engin
Framúrskarandi 2020

Hvernig gengur reksturinn?

Eignir 134.492
Skuldir 76.453
Eigið fé 58.039
Eiginfjárhlutfall 43,2%
Allar fjárhæðir eru í þúsundum króna

Eigendur og eignarhald

Þekktir hluthafar 9
Endanlegir eigendur 8
Eignarhlutur í öðrum félögum 1
Endanleg eign í öðrum félögum 1

Lánshæfismat félaga í sömu grein

Meðallánshæfi félaga í atvinnugreininni Ræktun nytjajurta og búfjárrækt, veiðar og tengd þjónustustarfsemi

pila

Tiltölulega áhættulítil

Meira um fyrirtækið hjá CreditInfo

Eins og eitt stórt listaverk

Vaxandi hópur neytenda vill lágmarka umbúðanotkun. Fólkið bak við búðarborðið: …
Vaxandi hópur neytenda vill lágmarka umbúðanotkun. Fólkið bak við búðarborðið: Sigurður Magnússon, Guðbjörg Lára Sigurðardóttir, Þóra Þórisdóttir og Kolbeinn Lárus Sigurðsson. Morgunblaðið/Eggert Jóhannesson

Gaman hefur verið að fylgjast með vexti Urta Islandica (www.urta.is) undanfarinn áratug. Þóra Þórisdóttir framkvæmdastjóri og eiginmaður hennar Sigurður Magnússon hafa byggt upp nokkuð stöndugan rekstur í kringum framleiðslu gjafamatvöru úr íslenskum jurtum, berjum og þara en fyrir ári tóku þau af skarið og útvíkkuðu fyrirtækið með stofnun Matarbúðarinnar Nándarinnar (www.matarbudin.is) þar sem áhersla er lögð á að lágmarka umhverfisáhrif og notkun einnota umbúða. Árið hefur verið erfitt fyrir Urta Islandica, rétt eins og flest önnur fyrirtæki, en Þóra er bæði brött og bjartsýn.

„Við opnuðum Urta Islandica formlega 10. október 2010 en stofnuðum ekki einkahlutafélagið fyrr en 2013. Hugmyndin kviknaði árið 2009 þegar ég stóð frammi fyrir verkefnaleysi í kjölfar fjármálakreppunnar,“ útskýrir Þóra en hún er myndlistarmaður og listfræðingur að mennt og vann ýmis myndlistarverkefni í verktöku áður en hún sneri sér að framleiðslu handverksmatvæla. „En allt frá upphafi hafa listrænar áherslur einkennt vöru- og umbúðaþróunina og ég lít á vissan hátt á þennan rekstur sem eitt allsherjar listaverk.“

Bætiefni úr íslenskri náttúru

Þóra minnir á að í kjölfar bankahrunsins hafi fæðuöryggi landsmanna verið mörgum ofarlega í huga og sumir jafnvel óttast að landið gæti lokast. „Þá fór ég að hugsa hvað mætti til bragðs taka ef allt færi á versta veg og hvernig Íslendingar gætu fengið þau vítamín og steinefni sem líkaminn þarf á að halda. Í kjölfarið hóf ég tilraunir með að þurrka ber og jurtir og gera tilraunir með uppskriftir,“ segir hún. „Amma mín var náttúrulækningakona og óhætt að segja að sá áhugi hafi erfst á milli kynslóða því bæði ég og yngsta systir mín höfum mikinn áhuga á jurtum og næringargildi þeirra. Við vöruþróunina nýtti ég minningar frá ömmu, gamlar jurtabækur og nýjar upplýsingar á netinu.“

Í fyrstu hugðist Þóra búa til vörur fyrir heilsubúðirnar en þegar á reyndi var áhuginn hjá smásölum af skornum skammti. „Þetta er um það leyti sem ferðamannastraumurinn tekur að aukast og reyndist ágætur markaður fyrir vörurnar okkar hjá ferðamannaverslunum. Vorum við með þeim fyrstu til að framleiða matarminjagripi fyrir ferðamannamarkaðinn.“

Fyrsta varan frá Urta Islandica sem náði góðri fótfestu voru jurtasöltin. Þóra segir að í fyrstu hafi portúgalskt salt verið notað í framleiðsluna en um leið og íslenskt sjávarsalt fór að vera fáanlegt var það notað í staðinn. Vöruþróunin tók mið af því að nota jurtir sem bæði gerðu líkamanum gott og gæfu lokaafurðinni fallegan lit og nýtti Þóra m.a. íslensk bláber, reyniber og rabarbara til að búa til saltblöndur sem neytendum þættu bæði fallegar og forvitnilegar. „Útlitið hönnuðum við sjálf og þvert á allar reglur gerðum við nærri því allt í höndunum frekar en að fjárfesta í tækjum til að fylla umbúðir og merkja, enda byrjuðum við með báðar hendur tómar. En fyrir vikið höfðum við líka meiri sveigjanleika til að bæta inn vörum og gera tilraunir – nokkuð sem væri ekki hagkvæmt að gera með mjög vélvædda framleiðslu sem kallar á að framleiða miklu meira magn í hvert skipti.“

Í dag framleiðir Urta Islandica margar gerðir af jurtatei og saltblöndum, sultur, kex og síróp. Nærri allt hráefnið sem fyrirtækið nýtir í matvöruna er íslenskt ef undan er skilinn lífræni reyrsykurinn sem myndar uppistöðuna í sírópinu. Umbúðirnar eru umhverfisvænar og ýmist úr niðurbrjótanlegum efnum sem má nýta í heimajarðgerð eða úr endingargóðu gleri sem má skila til verslunarinnar þar sem umbúðirnar nýtast aftur í hringrásarkerfi.

Í nýju búðinni eru seldar vörur bæði frá Urta Islandica …
Í nýju búðinni eru seldar vörur bæði frá Urta Islandica og öðrum framleiðendum. Morgunblaðið/Eggert Jóhannesson

Gæfuspor að opna matvöruverslun

Ekki ætti að koma lesendum á óvart að það sem af er ári hefur salan á vörum Urta Islandica dregist mikið saman. Þóra segir að bæði hafi erlendir ferðamenn borið söluna uppi en Íslendingar haft gaman af að kaupa vörurnar sem gjafir fyrir vini og ættingja í útlöndum. Það varð fyrirtækinu til happs að opna Matarbúðina Nándina á Austurgötu í Hafnarfirði og þannig styrkja stöðu sína á innanlandsmarkaði. „Við sáum það árið 2017 að veltan var hætt að vaxa enda fleiri aðilar komnir inn á okkar hillu á markaðinum. Árið 2019 hófum við undirbúning nýs verkefnis og opnuðum í byrjun árs matarbúð með mikla sérstöðu. Þar vinnum við út frá sömu áherslu og við höfum gert undanfarinn áratug hjá Urta Islandica, með umhverfisvænum og endurnýtanlegum umbúðum, en höfum komið upp kerfi þar sem fólk getur skilað inn krukkum og flöskum sem við þvoum, sótthreinsum og fyllum aftur á.“

Matarbúðin Nándin byrjaði að taka á sig mynd í Kolaportinu og stóð upphaflega til að bjóða upp á gott úrval af þurrvöru og bæði höfða til innlendra kaupenda og ferðamanna. „En aðstæður í Kolaportinu urðu fljótt erfiðar í faraldrinum svo við hröðuðum opnun á Austurgötunni, þar sem framleiðsla Urta Islandica var áður, en framleiðsluhlutinn er núna kominn yfir til Keflavíkur,“ segir Þóra og bætir við að á komandi vikum standi til að opna aðra verslun í framleiðsluhúsnæði fyrirtækisins í Reykjanesbæ.

Viðtökurnar hafa verið góðar og eykst vöruframboðið jafnt og þétt. Vörur Urta Islandica eru á sínum stað í búðinni en einnig umhverfisvænar hreinlætisvörur, kjöt og mjólkurvörur, brauðmeti og grænmeti. „Ef við byggjum yfir spádómsgáfu hefðum við byrjað á þessari vegferð ári fyrr því það tekur tíma að byggja svona starfsemi upp og gera hana arðbæra. En við teljum að þetta hafi verið hárrétt ákvörðun hjá okkur og miklir vaxtarmöguleikar í rekstri matvöruverslana með umhverfisvænar áherslur,“ segir Þóra en Nándin hlaut Bláskelina, viðurkenningu umhverfisráðuneytisins, fyrir að bjóða neytendum upp á góðar plastlausar lausnir. „Við tökum lítil skref og stækkum varlega, en gætum þess um leið að safna ekki skuldum, og þó svo að við getum kannski ekki keppt við lágvöruverðsverslanirnar í verði er ekki annað að sjá en okkur hafi tekist að hitta naglann á höfuðið með því að bjóða neytendum upp á val um að kaupa plastlausar matvörur.“ 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Fleiri greinar og viðtöl

Samstarfsaðilar