677 Sahara ehf.

Stærðarflokkur Lítið
Röð innan flokks 101
Landshluti Höfuðborgarsvæði
Atvinnugrein Upplýsingar og fjarskipti
Starfsemi Hugbúnaðargerð
Framkvæmdastjóri Davíð Lúther Sigurðarson
Fyrri ár á listanum Engin
Framúrskarandi 2022

Hvernig gengur reksturinn?

Eignir 195.952
Skuldir 145.622
Eigið fé 50.330
Eiginfjárhlutfall 25,7%
Allar fjárhæðir eru í þúsundum króna

Eigendur og eignarhald

Þekktir hluthafar 5
Endanlegir eigendur 5
Eignarhlutur í öðrum félögum 2
Endanleg eign í öðrum félögum 2

Lánshæfismat félaga í sömu grein

Meðallánshæfi félaga í atvinnugreininni Hugbúnaðargerð

pila

Tiltölulega áhættulítil

Meira um fyrirtækið hjá CreditInfo

Mikil eftirspurn frá fyrsta degi

Davíð Lúther Sigurðsson, einn af stofnendum og eigendum Sahara. Um …
Davíð Lúther Sigurðsson, einn af stofnendum og eigendum Sahara. Um 40 manns starfa hjá fyrirtækinu í dag. Ljósmynd/Aðsend

Auglýsingastofan Sahara sérhæfir sig í framleiðslu, birtingu og umsjón samfélagsmiðla fyrirtækja. Upphaflega var um að ræða framleiðslufyrirtæki sem hafði þann tilgang að skapa myndefni fyrir samfélagsmiðla fyrirtækja. Fljótt varð þó ljóst að það voru rík sóknarfæri í bransanum.

„Á árunum 2009 fram til 2015 fundum við fyrir því að á meðan við framleiddum vídeóið var enginn sem hjálpaði fyrirtækjunum til þess að ýta því út, kosta það eða markaðssetja það,“ segir Davíð Lúther Sigurðsson, einn af stofnendum og eigendum Sahara.

„Árið 2016 stofnum við dótturfélag; Sahara, til þess að hjálpa fyrirtækjum að taka vídeó sem við gerðum og markaðssetja það á samfélagsmiðlum. Svo liðu tvö ár og við sáum að það var sami kúltúr í báðum fyrirtækjunum, þannig að við ákváðum að sameina þessa starfsemi og verða auglýsingastofa. Nú starfa hér um 40 manns.“

Aðspurður jánkar Davíð Lúther því að eftirspurnin sé mikil og segir hana í raun hafa verið mikla frá degi eitt.

„Já, það var brjálað að gera og hefur verið brjálað að gera síðan. Við komum tiltölulega snemma, vorum eiginlega fyrst inn á þennan „social media-markað“. Það voru einhverjir búnir aðeins að prufukeyra þetta, verktakar hér og þar. Við bjuggum til nokkurs konar konsept til þess að hjálpa fyrirtækjum að ná árangri með hjálp stafrænnar markaðssetningar,“ segir hann og á þar við samfélagsmiðla, leitarvélar og margt annað í þeim dúr.

Þörf á samkeppni

Síðan þá hafa sprottið upp töluvert fleiri auglýsingastofur sem sérhæfa sig í stafrænni markaðssetningu. Spurður hvort hann telji að samkeppnin sé farin að harðna segir Davíð að þrátt fyrir meira framboð hafi eftirspurnin aukist gríðarlega samhliða – þá sér í lagi samhliða faraldrinum.

„Frá því að Covid-faraldurinn byrjaði hafa fyrirtækin verið að minnka þessar hefðbundnu leiðir í auglýsingum, það er að segja „gömlu“ leiðirnar sem eru sjónvarp, útvarp og blöð og fara meira að huga að stafrænum leiðum.“

Hann segir að af þeim sökum sé markaðurinn í raun að svara aukinni eftirspurn.

„Það þarf svona margar stofur myndi ég halda.“

Innan Sahara eru nokkrar deildir, má þar nefna birtingadeild eða „media-deild“ er snýr að ráðgjöf varðandi hina hefðbundnu miðla: sjónvarp, útvarp og blöð; grafíska deild sem gerir alla grafík, framleiðsludeild sem framleiðir myndskeið og annað efni, „digital-deild“ og síðan vefsíðudeild sem hjálpar fyrirtækjum að laga heimasíðurnar sínar að breyttu umhverfi.

„Þannig að það eru ekki allir að gera það sama,“ segir Davíð Lúther.

Útrás til Bandaríkjanna

Í janúar á þessu ári fór fyrirtækið í útrás og opnaði skrifstofur í Orlando í Flórída-ríki í Bandaríkjunum, þar sem sex starfsmenn stofunnar starfa.

„Við ákváðum fyrir um það bil tveimur til þremur árum að fara út fyrir landsteinana til þess að komast nær þessum stóru fyrirtækjum, Google og Facebook og öllum þeim.“

Hann segir að erlend fyrirtæki hafi verið farin að ýta við þeim og óska eftir tilboðum. Einn eigendanna, Sigurður Svansson, hafi því flutt út með fjölskylduna og starfar þar ásamt fimm erlendum starfsmönnum. Segir Davíð Lúther að markmiðið sé að stækka Sahara.

„Það er gott að vinna hjá Sahara og við viljum taka þetta sama konsept og taka það til Bandaríkjanna,“ segir hann og nefnir að fyrirtækið hafi unnið fjölda verðlauna er snúa að starfsánægju, á borð við hinn alþjóðlega staðal Great Place to Work.

Spurður hvers vegna Orlando varð fyrir valinu segir hann borgina Íslendingum vel kunna, enda beint flug þangað og borgin vinsæll áfangastaður. Orlando sé einnig að verða ákveðinn suðupunktur og telur Davíð að margt muni gerast á næstu árum. „Og það hefur bara gengið vel. Við erum búin að vera þar hátt í ár og það stefnir í mjög spennandi tíma framundan þar,“ segir hann.

Halda Sahara-hátíð

Í nóvember mun stofan halda sína árlegu ráðstefnu, svokallaða „Sahara-hátíð“, í Hörpu. Slíka hátíð héldu þau einnig í fyrra í Gamla bíói og var mætingin mjög góð að sögn Davíðs, og komu til að mynda fulltrúar frá Nike og Spotify. Á ráðstefnunni í ár munu góðir gestir halda erindi, frá TikTok, Amazon og LinkedIn sem dæmi. Þá mun fulltrúi NBAliðsins Miami Heat halda erindi og ræða strategíu liðsins á samfélagsmiðlum.

Segir Davíð ráðstefnuna komna til að vera og sé fyrir alla markaðsmenn sem vilja sækja sér innblástur, sjá hvað stórfyrirtæki úti í heimi vinna í stafrænni markaðssetningu.

Settu á fót skóla til að kenna stafræna markaðssetningu

Fyrirtækið hóf nýlega vegferð í átt að verkefni sem snýr að því að kenna fólki á stafræna markaðssetningu, og setti til þess á fót Sahara-skólann.

„Við höfum verið að hvetja menntastofnanir á Íslandi, á borð við HÍ, HR og Bifröst, að taka inn nám til þess að kenna nemendum að vinna hjá fyrirtækjum sem eru að fara í stafrænar birtingar, stafræna markaðssetningu eða að vinna á auglýsingastofu,“ segir Davíð Lúther og bætir því við að stofunum sé að fjölga og því þurfi samhliða því að fjölga aðilum sem búi yfir hæfileikunum sem stofurnar kalla eftir.

„Við ákváðum því í sumar að stofna skóla sem heitir Sahara Academy,“ segir hann.

„Af því að það hefur verið vöntun, bæði hjá fyrirtækjum og auglýsingastofum, á fólki sem kann þetta. Þannig að við ákváðum að henda í eitt stykki skóla til þess að kenna þeim það sem við kunnum og koma fleirum inn í þennan iðnað.“

Sjö útskrifuðust í sumar og eru 20 manns skráðir á næstu önn sem fer fram í nóvember og desember.

mbl.is

Fleiri greinar og viðtöl

Samstarfsaðilar