Framkvæmdir við stækkun Kringlunnar hafnar

Framkvæmdir eru hafnar við stækkun Kringlunnar, en eignarhaldsfélag hennar hefur samið við verktakafyrirtækið Ístak um að reisa fyrsta áfanga nýbyggingar á milli Kringlunnar 4-6 og 8-12. Áætlað er að þessum áfanga verði lokið í byrjun nóvember nk. Byggingin mun tengja saman suður- og norðurhús Kringlunnar og jafnframt stækka og auka fjölbreytni verslunar og þjónustu í verslunarmiðstöðinni. Nýbygging Kringlunnar verður um 9.500 fermetrar og með tilkomu hennar bætast við um 7.000 fermetra verslunar- og þjónusturými. Þar verða um 30 nýjar rekstrareiningar. Stærsta verslunin verður um 2.000 fermetra útivistar- og sportvöruverslun. Einnig verða þar m.a. þrjár stórar verslanir en erlendar verslunarkeðjur hafa sýnt áhuga á að setja upp verslanir í Kringluni í samstarfi við innlenda aðila, að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá eignarhaldsfélagi Kringlunnar. Ásamt þessu hafa eignarhaldsfélagið Kringlan hf. og Ístak undirritað viljayfirlýsingu um frekari byggingarframkvæmdir á Kringlusvæðinu; þriggja hæða torgbyggingu, nýtt torg, bílageymslu fyrir 400 bíla og tengibyggingu við Borgarleikhúsið. Áformað er að þessum framkvæmdum verði öllum lokið haustið 1999.
mbl.is

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir