Framkvæmdir við stækkun Kringlunnar hafnar

Framkvæmdir eru hafnar við stækkun Kringlunnar, en eignarhaldsfélag hennar hefur samið við verktakafyrirtækið Ístak um að reisa fyrsta áfanga nýbyggingar á milli Kringlunnar 4-6 og 8-12. Áætlað er að þessum áfanga verði lokið í byrjun nóvember nk. Byggingin mun tengja saman suður- og norðurhús Kringlunnar og jafnframt stækka og auka fjölbreytni verslunar og þjónustu í verslunarmiðstöðinni. Nýbygging Kringlunnar verður um 9.500 fermetrar og með tilkomu hennar bætast við um 7.000 fermetra verslunar- og þjónusturými. Þar verða um 30 nýjar rekstrareiningar. Stærsta verslunin verður um 2.000 fermetra útivistar- og sportvöruverslun. Einnig verða þar m.a. þrjár stórar verslanir en erlendar verslunarkeðjur hafa sýnt áhuga á að setja upp verslanir í Kringluni í samstarfi við innlenda aðila, að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá eignarhaldsfélagi Kringlunnar. Ásamt þessu hafa eignarhaldsfélagið Kringlan hf. og Ístak undirritað viljayfirlýsingu um frekari byggingarframkvæmdir á Kringlusvæðinu; þriggja hæða torgbyggingu, nýtt torg, bílageymslu fyrir 400 bíla og tengibyggingu við Borgarleikhúsið. Áformað er að þessum framkvæmdum verði öllum lokið haustið 1999.
mbl.is

Myntbreyta

  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  CHF
  JPY

Erlendar viðskiptafréttir