Ekki mikil áhrif á fiskimjölsiðnaðinn

Hertar eftirlitsreglur með fiskimjöli sem samþykktar voru á fundi dýraheilbrigðisnefndar Evrópusambandsins í gær hafa ekki mikil áhrif á íslenskan fiskimjölsiðnan. Reglurnar gætu hins vegar gert fóðurverksmiðjum erftitt fyrir.

Jón Reynir Magnússon, formaður Samtaka íslenskra fiskmjölsframleiðenda, segir að sér sýnist að niðurstaða dýraheilbrigðisnefndarinnar muni ekki hafa áhrif á fiskimjölsiðnaðinn hérlendis. "Farartækin sem notuð eru mega flytja annað en mjöl en hert á reglum um þrif og eftirlit. Þó má ekki flytja annað fóður í farartækinu á sama tíma og fiskimjöl. Það breytir í sjálfu sér engu fyrir okkur. Héðan er fiskimjöl flutt út laust í hefðbundnum flutningaskipum og þau flytja þá gjarnan annars konar fóður til baka til landsins."

Í upphaflegum tillögum framkvæmdastjórnar ESB fólst meðal annars að farkostinn sem mjölið er flutt með mætti ekki nota til annarskonar flutninga. Það hefði þýtt að farskipin yrðu ekki notuð í annað en flutninga á fiskimjöli. Jón Reynir segir að hefði sú tillaga náð fram að ganga hefði orðið allt of dýrt að flytja mjölið á markaði erlendis og í raun þýtt dauðadóm yfir íslenskum fiskimjölsiðnaði. Hins vegar hafi verið tekið tillit til athugasemda og sér sýnist að hertar eftirlitsreglur muni ekki hafa mikil áhrif hér á landi.

Gerir fóðurverksmiðjum erfitt fyrir

Í upphaflegum tillögum framkvæmdastjórnar ESB kvað á um að fóðurblöndunarverksmiðjur yrðu að sérhæfa sig í fóðri sem væri eingöngu fyrir önnur dýr en jórturdýr. Við þetta voru gerðar athugasemdir og lagt til að verksmiðjur mættu framleiða hvort tveggja ef framleiðsluferillinn væri aðskilinn. Framkvæmdastjórnin féllst ekki á það og í breyttum tillögum var lagt til að verksmiðjur mættu framleiða fóður fyrir allar skepnur að því tilskildu að framleiðsla fyrir jórturdýr yrði aðskilin frá annarri framleiðslu og var það samþykkt.

Fóðurblandan hf. kaupir langstærstan hluta þess fiskimjöls sem framleitt er hér á landi og ekki fer til útflutnings. Bjarni Pálsson, framkvæmdastjóri Fóðurblöndunnar hf., segir ekki ljóst hvernig reglur Evrópusambandsins muni koma til framkvæmda hér á landi. Muni þessar reglur ganga yfir íslenskar fóðurverksmiðjur komi þær hins vegar til með að hafa veruleg áhrif og gera þeim mjög erfitt fyrir. "Við framleiðum flestar tegundir fóðurs í sömu vélum, rétt eins og gert er erlendis. Ef við þurfum að aðskilja fóðurframleiðslu fyrir jórturdýr frá fóðurframleiðslu úr fiskimjöli, munum við að öllum líkindum hætta að nota fiskimjöl í fóður fyrir aðrar búfjártegundir, svo sem kjúklinga og svín. Heimamarkaðurinn er ekki það stór að það borgi sig að setja upp aðra fóðurverksmiðju eingöngu til fóðurframleiðslu úr fiskimjöli. Ég sé fyrir mér að þetta verði einnig gert í fóðurverksmiðjum erlendis og menn muni snúa sér að annars konar próteingjafa, svo sem sojamjöli," segir Bjarni.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK