Búlgarskur stjórnarmaður í Pharmaco selur hlut sinn

Peter Kirilov Terziev, stjórnarmaður í Pharmaco hf., hefur selt hlut sinn í félaginu. Peter var annar tveggja forstjóra Balkanpharma Holding AD þegar Pharmaco sameinaðist félaginu. Eignaðist Peter við samrunann 5,14% hlut í Pharmaco sem hann selur nú. Í kjölfar sameiningarinnar dró Peter sig út úr daglegum rekstri Pharmaco en tók sæti í stjórn félagsins. Í tilkynningu frá Pharmaco segir, að ástæða sölunnar sé að Peter hafi skrifað undir samkomulag um að kaupa, ásamt svissnesku fyrirtæki, meirihluta í einu af stærstu snyrtivörufyrirtækjum Búlgaríu, sem verið er að einkavæða. Peter verður áfram stjórnarmaður í Pharmaco. Kaupandi bréfanna er Amber International Ltd. Félagið var fyrir kaupin stærsti hluthafi í Pharmaco og eykur hlut sinn úr 30,15% í 35,29%. Amber International er eignarhaldsfélag, sem Björgólfur Thor Björgólfsson, stjórnarformaður Pharmaco, og Björgólfur Guðmundsson, stjórnarmaður í Pharmaco, eiga. Pharmaco hf. var stofnað árið 1956. Félagið er með um 35% hlutdeild á íslenskum lyfjamarkaði. Hjá Pharmaco á Íslandi starfa um 130 manns í 7 markaðsdeildum. Árið 2000 sameinaðist Pharmaco búlgarska lyfjaframleiðslu­fyrirtækinu Balkanpharma sem er stærsti lyfjaframleiðandi Búlgaríu með útflutning til yfir 50 landa víðsvegar um heim. Góðar horfur í rekstri
Í tilkynningu Pharmaco segir, að horfur í rekstri Pharmaco séu góðar. Endurskoðuð rekstraráætlun fyrir árið 2001 geri ráð fyrir að velta félagsins verði 14,5 milljarðar króna. Áætlað sé að EBITDA framlegð verði rúmar 3.400 milljónir króna á árinu. Rekstraráætlun fyrir næsta ár gerir ráð fyrir að söluaukning verði 20% og að EBITDA framlegð nemi 25%.
mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK