Lánshæfiseinkunn Íslands er Aaa hjá Moody's

Matsfyrirtækið Moody's hefur gefið út yfirlýsingu um að lánshæfiseinkunnin sé Aaa fyrir Ísland og segir að mat um stöðugar horfur byggist á aðlögunarhæfni íslenska hagkerfisins sem hafi ítrekað sýnt getu til að takast á við verulegt ójafnvægi. Að auki séu ríkisfjármál traust, langvinnur pólitískur stöðugleiki ríki og lífskjör töluvert betri en að jafnaði í öðrum OECD-ríkjum.

Samkvæmt upplýsingum frá Seðlabankanum segja sérfræðingar Moody's lánshæfiseinkunnina einnig byggða á kerfisumbótum sem gerðar hafi verið á síðasta áratug og nefna fiskveiðistjórnunarkerfið, markaðsvæðingu, jafnvægi í ríkisfjármálum og einkavæðingu. Í skýrslunni sé einnig minnst á aukna fjölbreytni útflutnings, bæði innan hins mikilvæga sjávarútvegsgeira og vegna umtalsverðrar aukningar í álframleiðslu. Einnig séu ríkisskuldir litlar og fari minnkandi.

Moody's segir að íslenska hagkerfið hafi náð nokkuð góðu jafnvægi eftir að hafa ofhitnað verulega í lok síðasta áratugar. Þá var glímt hart við viðskiptahalla og verðbólgu. Lítils háttar samdráttur á árinu 2002 hafi falið í sér mýkri aðlögun en Moody's hafði búist við og endurspegli það mikla aðlögunarhæfni hagkerfisins. Að stórum hluta átti aðlögunin sér stað á ytri hlið hagkerfisins sem þakka megi tiltölulega sveigjanlegum vinnumarkaði, upptöku flotgengis snemma árs 2001 og trúverðugu verðbólgumarkmiði.

Moody's segir ákvörðun um væntanlega álbræðslu og orkuver henni tengd hugsanlega geta orsakað nýtt ofþensluskeið. Álit sérfræðinga Moody’s er að þrátt fyrir að deila megi um álbræðsluna og frekari iðnvæðingu vegna þess að erlendar skuldir með ríkisábyrgð myndu hækka og þar með auka viðkvæmni lítils og opins hagkerfis fyrir ytri áföllum, þá séu þessar framkvæmdir lykilþættir í því langtímamarkmiði stjórnvalda að auka fjölbreytni í atvinnulífinu og útflutningi. Einnig er búist við að framkvæmdirnar hægi á flutningi fólks af landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins.

Ríkisfjármál héldu nokkurn veginn jafnvægi á síðasta ári vegna aðhalds í útgjöldum þótt fjárlagaafgangur hefði horfið með minnkandi skatttekjum. Ef stjórnvöld standa við fyrirheit um bætta útgjaldastýringu á komandi fjárfestingarskeiði eru líkur til þess að afgangur gæti orðið á fjárlögum þegar á árinu 2004. Aðhald í ríkisfjármálum er einnig nauðsynlegt til að ekki reyni um of á peningamálastefnuna og til að forðast viðskiptahalla og víxlhækkanir launa og verðlags.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK