Íslensk erfðagreining gerir nýjan samning við Merck

Höfuðstöðvar Íslenskrar erfðagreiningar.
Höfuðstöðvar Íslenskrar erfðagreiningar.

Íslensk erfðagreining hefur gert nýjan samstarfssamning um klínískar lyfjaprófanir við alþjóðlega lyfjafyrirtækið Merck & Co., Inc. Samningurinn er til sjö ára og Íslensk erfðagreining mun á hverjum tíma stunda klínískar lyfjaprófanir á allt að fimm lyfjaefnum frá Merck.

Í tilkynningu frá Íslenskri erfðagreiningu segir, að samstarfið byggi á því að nota erfðafræðirannsóknir Íslenskrar erfðagreiningar og sérþekkingu á sviði lyfjaerfðafræði til að bæta klínískar lyfjaprófanir Merck. Lýðerfðafræðileg nálgun Íslenskrar erfðagreiningar geri kleift að velja þátttakendur í klínískar prófanir og greina lyfjasvörun í tengslum við upplýsingar um heilsufar og arfgerð. Fyrirtækin hafi einnig möguleika á að nota niðurstöður slíkra rannsókna við þróun lyfjaerfðafræðilegra greiningarprófa til að greina þá einstaklinga sem best svara einstökum lyfjum.

Samkvæmt samningnum mun Íslensk erfðagreining fá hlutdeild í sölu þeirra lyfja og greiningarprófa sem samstarfið kann að leiða af sér. Íslensk erfðagreining mun einnig fá eingreiðslu fyrir framlagða tækniþekkingu og áfangagreiðslur þegar lyf eða greiningarpróf koma á markað.

Fyrirtækin munu deila kostnaði við klínískar rannsóknir og rannsóknir á sviði lyfjaerfðafræði. Merck hefur jafnframt keypt almenna hluti í deCODE genetics Inc., móðurfélagi Íslenskrar erfðagreiningar ehf., fyrir 10 milljónir Bandaríkjadali á genginu 14,50 dalir fyrir hvern hlut og verið veitt kaupréttur fyrir 50 milljónir dali til viðbótar á genginu 29 dalir fyrir hvern hlut á næstu fimm árum.

Í tilkynningu frá ÍE segir Kári Stefánsson forstjóri, að samningur feli í sér mjög spennandi tækifæri til að nota lýðerfðafræðilega nálgun fyrirtækisins við þróun næstu kynslóðar lyfja frá Merck. Um sé að ræða aðferðir sem ÍA hafi þróað og byggi á mun nákvæmari tölulegri úrvinnslu en áður hafi tíðkast. Merck muni því ekki aðeins geta spurt hvort að lyf virki gegn ákveðnum sjúkdómi heldur einnig hverjir svari lyfinu best og hvers vegna. „Við teljum að slíkar rannsóknir séu mikilvægur liður í stjórnun á viðskiptalegri áhættu í lyfjaþróunarferlinu og þær muni auka ávinning sjúklinga af nýjum lyfjum og auka mögulega markaðshlutdeild þeirra,” segir Kári í tilkynningunni.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK