Innkoma bankanna á fasteignalánamarkað mun hafa áhrif á efnahagsframvindu

Greiningardeild Landsbankans segir að óvænt innkoma bankanna á fasteignalánamarkað hafi óhjákvæmilega töluverð áhrif á efnahagsframvinduna á næstu misserum. Lægri vextir og aukið framboð á lánsfé muni kynda undir bæði einkaneyslu og fjárfestingu.

Greiningardeildin segir líklegt, að eftirspurnin muni að stórum hluta beinast að innflutningi og því auka enn á þann halla sem myndast hafi í utanríkisviðskiptum. Megináhrifin komi þó fyrst og fremst fram á húsnæðismarkaði, með hækkun fasteignaverðs og síðar með auknu framboði fasteigna.

Fram kemur í umfjöllun Landsbankans um efnahagsmál og skuldabréfamarkað, að til skemmri tíma litið sé aukinn innflutningur alls ekki neikvæður, þar sem hann létti álaginu af innlendum framleiðsluþáttum og dragi þannig úr verðbólguþrýstingi. Til lengri tíma gætu verðbólguáhrifin þó orðið veruleg ef hallinn á utanríkisviðskiptum verði svo mikill að hann kalli á gengislækkun með þeim verðbólguáhrifum sem því fylgi. Slík gengislækkun sé þó ekki framundan í bráð þar sem innstreymi gjaldeyris hafi verið mikið upp á síðkastið og gengisáhrif stóriðjuframkvæmdanna virðist enn ekki hafa komið fram nema að litlu leyti.

Greiningardeild Landsbankans hefur hækkað spár um verðbólgu og stýrivexti í ljósi þessa. Segir bankinn, að í grunndæmi þar sem gert sé ráð fyrir óbreyttu nafngengi krónunnar stefni verðbólgan í rétt um 3½% frá upphafi til loka árs næstu tvö árin. Verði gengisþróunin óhagstæð, þ.e. að gengi krónunnar lækki, megi hins vegar búast við enn meiri verðbólgu. Bankinn setur fram tvö fráviksdæmi, annað þar sem raungengið haldist óbreytt og hinsvegar þar sem raungengið lækkar nokkuð á næstu tveimur árum. Segir Greiningardeild Landsbankans að þessi framvinda leiði til hærri verðbólgu en í grunndæminu um sem nemi 1-2½% á ári.

Landbankinn segist telja að Seðlabankinn muni bregðast við þessari nýju stöðu með því að beita stjórntækjum sínum af meiri krafti en áður var reiknað með. Í stað þess að hækka stýrivexti í 8% um mitt næsta ár segist Greiningardeild Landsbankans nú gera ráð fyrir því að stýrivextir verði hækkaðir tiltölulega hratt á næstu mánuðum og verði komnir í 8% um næstu áramót og að þeir fari hæst í 8,5% um mitt næsta ár.

Telur markaðshlutdeild Íbúðalánasjóðs muni minnka hratt
Greiningardeild Landsbankans segir, að ekki sé útlit fyrir að Íbúðalánasjóður geti svarað útspili bankanna á fasteignalánamarkaði fyrr en í nóvember, þar sem lagabreytingu þurfi til áður en sjóðurinn geti hækkað veðhlutfall og hámarksfjárhæðir. Því megi gera ráð fyrir að á næstunni muni stór hluti þeirra sem standa í fasteignaviðskiptum velja að taka lán hjá bönkum eða lífeyrissjóðum frekar en að taka lán hjá Íbúðalánasjóður. Þar sem húsbréfalán beri almennt vexti sem séu á bilinu 5,1% til 6%, en markaðsvextir séu nú 4,2%, megi auk þess gera ráð fyrir að stór hluti fólks velji að endurfjármagna áhvílandi lán með lánum banka eða lífeyrissjóða. Því sé líklegt að markaðshlutdeild Íbúðalánasjóðs muni minnka mjög á næstunni og því muni draga úr útgáfu Íbúðabréfa. Að auki muni uppgreiðslur húsbréfalána auka líkurnar á útdrætti húsbréfa.

Greiningardeild Landsbankans segir, að rúm lausafjárstaða bankanna valdi því að þeir þurfi ekki að leita út á skuldabréfamarkaðinn í bráð þrátt fyrir aukin útlán. Áhrif aukinnar samkeppni á fasteignalánamarkaði hafi því þau áhrif að framboð skuldabréfa muni dragast saman í Kauphöllinni. Þetta sé gjörbreytt staða frá því sem var auki líkur á að langtímavextir verði áfram lágir.

Greiningardeild Landsbankans segir, að þegar líði fram á annan ársfjórðung næsta árs megi eiga von á að langtímavextir fari að þokast upp á við á ný. Helsta ástæðan sé hækkun erlendra vaxta, hækkun stýrivaxta Seðlabankans og væntingar um aukið framboð. Ekki sé þó útlit fyrir að langtímavextir fari upp í þær hæðir sem áður hafi sést hér á landi.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK