Norðurljós verða dótturfélag Og Vodafone

mbl.is

Ákveðið hefur verið að Og Vodafone kaupi öll hlutabréf í Norðurljósum og fá hluthafar Norðurljósa hlutabréf í Og Vodafone í staðinn. Þá verða miklar skipulagsbreytingar hjá Norðurljósum, sem fela m.a. í sér að Sigurður G. Guðjónsson forstjóri, Marínó Guðmundsson fjármálastjóri og Karl Garðarsson framkvæmdastjóri rekstrarsviðs, hætta. Gunnar Smári Egilsson verður framkvæmdastjóri Norðurljósa, Páll Magnússon sjónvarpsstjóri Stöðvar 2 og Kári Jónasson ritstjóri Fréttablaðsins.

Í fréttatilkynningu frá Og Vodafone og Norðurljósum segir: „Fulltrúar Og Vodafone (Og fjarskipta hf.) og fulltrúar meirihlutaeigenda Norðurljósa hf. hafa undanfarna daga átt í viðræðum um kaup Og Vodafone á öllu hlutafé í Norðurljósum. Um 90% hluthafa Norðurljósa hafa samþykkt sölu til Og Vodafone. Stefnt er að því að Og Vodafone ljúki kaupum á öllu hlutafé Norðurljósa á næstunni. Fyrirtækjaráðgjöf Landsbankans hafði millligöngu um framangreind viðskipti.

Hluthafar í Norðurljósum fyrir kaup Og Vodafone

Baugur Group með 31,9%
Grjóti ehf. með 15% en það félag er að stærstum hluta í eigu Baugs Group og eignarhaldsfélagsins Fengs.
Kári Stefánsson með 14,8%
Fons eignarhaldsfélag, sem er í eigu Pálma Haraldssonar með 9,8%
Burðarás/Kaldbakur með 7,9%
Landsbankinn/Hömlur með 6,8%
Krókháls 6 ehf. með 4%
Bókarforlagið Dægradvöl ehf., sem er í eigu Gunnars Smára Egilssonar með 3,6%
Tuesdays Equities Inc. með 2,4%
Baltasar Kormákur með 1,1%

Kaupin eru gerð með eftirfarandi fyrirvörum:

Niðurstöðu áreiðanleikakönnunar á Norðurljósum
Samþykki samkeppnisyfirvalda

Kaupin eru einnig háð þeim fyrirvara að hluthafafundur samþykki útgáfu hlutfjár vegna kaupanna. Hluthafafundur mun verða haldinn þegar niðurstaða áreiðanleikakönnunar og samþykki samkeppnisyfirvalda liggur fyrir. Þar mun verða nánar gerð grein fyrir kaupunum.

Kaupverð allra hluta í Norðurljósum, skv. tilboði Og Vodafone, nemur 3.620 m.kr. Áformað er að greiða kaupverðið með útgáfu nýrra hlutabréfa á genginu 4,2. Norðurljós eiga 34,5% hlutabréfa í og Vodafone en samhliða framangreindum viðskiptum munu eigendur Norðurljósa kaupa meginhluta þessara bréfa.

Við þessi kaup er orðið til öflugasta fjölmiðla- og fjarskiptafyrirtæki landsins með 660 starfsmenn. Gert er ráð fyrir að samanlögð velta félaganna verði 12.500 mkr. á yfirstandandi ári og EBITDA nemi 2.400 til 2.600 m.kr. Á næsta ári er áætlað að EBITDA félaganna verði á bilinu 2.700 til 3.000 m.kr. og veltan á bilinu 13.000 til 13.500 m.kr.

Samlegð

Áformað er að Norðurljós verði áfram rekin sem sjálfstæð eining og verði því dótturfélag Og Vodafone. “Þó er ljóst að hægt er að flétta saman ákveðna hluta í rekstri félaganna s.s. stoðdeildir, dreifikerfi og sölu og markaðsstarf. Bæði þessi félög hafa verið að ganga í gegnum umbreytinga- og uppbyggingaferil sem er að skila góðum árangri í dag. Í þessum félögum er starfsfólk sem hefur gríðarlegt keppnisskap og þrek til nýrrar sameiginlegrar sóknar og á því munum við grundvalla framtíð okkar “, segir Eiríkur S. Jóhannsson, forstjóri Og Vodafone.

Sterkari saman

Og Vodafone veitir hátt í 140.000 þúsund notendum alhliða fjarskiptaþjónustu - síma-, farsíma-, internet- og gagnaflutningsþjónustu. Fyrirtækið hefur náð góðri markaðsstöðu og vaxið hratt á síðustu árum. Síðustu misseri hefur hlutfallslegur vöxtur tekna verið hvað mestur á sviði gagnaflutninga- og farsímaþjónustu.

Fjölmiðlar Norðurljósa samanstanda af dagblöðum, tímaritum, sjónvarpsstöðvum, útvarpsstöðvum og netmiðli. Samanlagt mynda þessir miðlar öflugustu efnisveitu landsins. Þrátt fyrir sterka stöðu miðla Norðurljósa býður ört breytilegt fjölmiðlaumhverfi upp á enn frekari vöxt þeirra.

Fyrirtækin geta stuðlað að örari vexti hvors annars. Og Vodafone fær tryggan aðgang að gæðaefni til að flytja um kerfi sín - til viðskiptavina sinna - og Norðurljós fær aðgang að nýjum og fjölbreyttari dreifileiðum - fastlínukerfum og farsímakerfum - fyrir efni sem það framleiðir og hefur sýningarrétt á. Að mati stjórnenda Og Vodafone tryggja kaupin á Norðurljósum samkeppnisstöðu og vaxtarmöguleika beggja félaga. Jafnframt næst fram betri nýting fjármagns við rekstur og framtíðaruppbyggingu félaganna.“

Uppsagnir ekki á döfinni

Að sögn Eiríks S. Jóhannssonar, forstjóra Og Vodafone, eru kaupin á Norðurljósum sóknartækifæri fyrir Og Vodafone. „Og Vodafone er fyrirtæki sem er hratt og fast að ná fótfestu á markaðnum og gengur bærilega að ná snertingu við viðskiptavini okkar. Með þessu mót erum við að ná snertingu við enn fleiri og munum ná þeim inn til okkar enn hraðar en við hefðum gert ein og sér. Þetta gerir það líka að verkum að við erum búin að tryggja okkur aðgengi að efni þannig að okkar dreifikerfi mun dreifa fyrir Norðurljós,“ segir Eiríkur.

Hann segir að mikil samkeppni sé orðin um efni og kaupin nú eru ákveðin trygging fyrir aðgengi að efni. Það geri það að verkum að Og Vodafone geti sótt hraðar fram. „Eins sjáum við fram á hagræðingarmöguleika en alls ekki uppsagnir. Við þurfum ekki á því að halda. Þessi sameiginlega sókn okkar þarf á því fólki að halda sem starfar hjá félögunum.“

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK