Skrifað undir kaupsamning vegna Símans

Jón Sveinsson, formaður einkavæðingarnefndar, og Erlendur Hjaltason, forstjóri Exista, takast …
Jón Sveinsson, formaður einkavæðingarnefndar, og Erlendur Hjaltason, forstjóri Exista, takast í hendur eftir að tilboði Skipta hafði verið tekið í síðustu viku. mbl.is/Sverrir

Geir H. Haarde, fjármálaráðherra, undirritaði í dag kaupsamning f.h. íslenska ríkisins við Skipti ehf. um kaup Skipta ehf. á 98,8% hlut ríkisins í Landssíma Íslands. Kaupsamningurinn er gerður á grundvelli tilboðs sem Skipti ehf. gerðu í hlutabréf ríkisins í Símanum þann 28. júlí sl., en það var hæst þriggja tilboða sem bárust í eignarhlut ríkisins.

Greiðsla kaupverðsins, 66,7 milljarðar króna, miðast við gengisskráningu Seðlabanka Íslands 27. júlí 2005. Fer greiðslan fram innan 5 virkra daga frá því að niðurstaða Samkeppniseftirlitsins liggur fyrir og að því gefnu að stofnunin samþykki kaupin fyrir sitt leyti.

Kaupverðið skiptist í eftirfarandi gjaldmiðla: Íslenskar krónur: 34.505.550.000, evrur: 310.000.000 og Bandaríkjadali: 125.000.000.

Nýjum eigendum er skylt að uppfylla skilyrði ríkisins er fram koma í söluskilmálum. Þannig má enginn einn einstakur aðili, skyldir eða tengdir aðilar, eignast stærri hlut í Símanum en 45% fram að skráningu félagsins á Aðallista í Kauphöll, og ekki minna en 30% af heildarhlutafé félagsins verður, af hálfu kaupanda, að bjóða almenningi og öðrum fjárfestum til kaups, í síðasta lagi fyrir árslok 2007, en fyrir sama tíma skal félagið skráð á Aðallista Kauphallarinnar.

Eftir þessi viðskipti hefur ríkið dregið sig að öllu leyti út úr samkeppnisrekstri á fjarskiptamarkaði.

Umsjónaraðili sölunnar f.h. ríkisins var framkvæmdanefnd um einkavæðingu og aðalráðgjafi nefndarinnar fjármála- og ráðgjafarfyrirtækið Morgan Stanley í Lundúnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK