Hannes ráðinn forstjóri FL Group í stað Ragnhildar

Hannes Smárason, , Jón Karl Ólafsson, forstjóri Icelandair, Ragnhildur Geirsdóttir …
Hannes Smárason, , Jón Karl Ólafsson, forstjóri Icelandair, Ragnhildur Geirsdóttir og Sigurður Helgason, fyrrverandi forstjóri Flugleiða í mars sl.

Samþykkt var á stjórnafundi FL Group í dag að gera grundvallarbreytingar á skipulagi félagsins þannig að fjárfestingarstarfsemi verði aðalverkefni þess. Hannes Smárason hefur verið ráðinn forstjóri félagsins í stað Ragnhildar Geirsdóttur, sem lætur af störfum. Ragnhildur var ráðin forstjóri félagsins í mars. Skarphéðinn Berg Steinarsson verður formaður stjórnar félagsins og Þorsteinn M. Jónsson verður varaformaður.

Í tilkynningu, sem FL Group sendi frá sér nú um hádegisbil segir, að fjárfestingar félagsins muni falla undir þrjú svið, eitt svið, sem sérhæfi sig í rekstrar-, yfirtöku-, og umbreytingarverkefnum, sem Jón Sigurðsson stýri, annað sem muni annast eignastýringu og fjárfestingar, sem Albert Jónsson stýri og hið þriðja sem annist kaup, sölu og leigu á alþjóðlegum flugvélamarkaði undir stjórn Halldórs Vilhjálmssonar framkvæmdastjóra Icelease.

Samhliða framangreindum breytingum hafi verið ákveðið að skipta flug- og ferðatengdum rekstri FL Group í tvö aðskilin dótturfélög. Undir annað þeirra, Icelandair Group, heyri alþjóðlegur flugrekstur, þ.e. Icelandair, Icelandair Cargo, Loftleiðir-Icelandic, Bláfugl, Flugflutningar, Icelandair Technical Services og Icelandair Ground Services. Velta þessara félaga er samtals um 35 milljarðar króna og starfsmannafjöldi um 2000. Jón Karl Ólafsson, forstjóri Icelandair, hefur verið ráðinn forstjóri Icelandair Group.

Þau fyrirtæki sem annast ferðaþjónustu hér á Íslandi, þ.e. Flugfélag Íslands, Ferðaskrifstofa Íslands, Flugleiðahótel, Íslandsferðir, Kynnisferðir og Bílaleiga Flugleiða, munu heyra undir FL Travel Group og hefur Þorsteinn Örn Guðmundsson framkvæmdastjóri hjá FL Group verið ráðinn forstjóri þess. Velta þessara félaga er samtals um 11 milljarðar króna og starfsmannafjöldi um 500.

Þá kemur fram að í kjölfar ofangreindra breytinga á skipulagi FL Group hafi orðið að samkomulagi að Ragnhildur Geirsdóttir láti af störfum sem forstjóri félagsins. „Í ljósi áherslubreytinga hjá félaginu er það samkomulag á milli mín og stjórnar félagsins að leiðir skilja á þessum tímapunkti. Undanfarin ár hafa verið mjög áhugaverður umbrotatími hjá félaginu og reksturinn og afkoman með allra besta móti. Ég þakka öllu því góða starfsfólki sem starfar hjá félaginu fyrir ánægjulegt samstarf og óska því og félaginu alls hins besta,” segir Ragnhildur Geirsdóttir í tilkynningunni.

Hannes Smárason segir í tilkynningunni, að þessar breytingar séu gerðar til að framkalla skarpari áherslu á reksturinn í þessum félögum. „Til verða öflug félög hvort á sínu sviði með skýr markmið um vöxt og arðsemi undir stjórn frábærra stjórnenda. Enn frekar er skilið á milli rekstrarfélaga og fjárfestingarstarfseminnar en verið hefur," er haft eftir Hannesi.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK