Gunnar Smári nýr forstjóri Dagsbrúnar

Gunnar Smári Egilsson er nýr forstjóri Dagsbrúnar
Gunnar Smári Egilsson er nýr forstjóri Dagsbrúnar mbl.is/Sverrir

Gunnar Smári Egilsson, sem verið hefur forstjóri 365 ljósvakamiðla ehf. og 365 prentmiðla ehf., verður forstjóri Dagsbrúnar hf., móðurfélags 365 miðla og Og Vodafone. Eiríkur S. Jóhannsson lætur af störfum sem forstjóri Dagsbrúnar en tekur við starfi hjá Baugi Group. Ari Edwald, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, hefur verið ráðinn forstjóri 365 ljósvaka- og prentmiðla.

Í tilkynningu til Kauphallar Íslands kemur fram að Gunnar Smári er einn af stofnendum Fréttablaðsins og hann hefur leitt samruna ljósvaka- og prentmiðla félagsins. Verkefni Gunnars Smára verði að stýra sókn Dagsbrúnar á erlenda markaði. Í tilkynningu frá félaginu segir að það hafi alltaf verið sannfæring félagsins að ef það tækist að byggja upp öflugt fjölmiðlafyrirtæki á 300 þúsund manna markaði ætti sýn þess og stefna fullt erindi á stærri markaði.

Ari Edwald hefur starfað fyrir Samtök Atvinnulífsins frá árinu 1999. Áður starfaði Ari sem aðstoðarmaður dóms-og kirkjumálaráðherra og aðstoðarmaður sjávarútvegsráðherra. Ari var ritstjóri Viðskiptablaðsins 1998. Ari er með dtúdentspróf frá MS frá 1983, embættispróf í lögfræði frá HÍ 1988 og MBA í rekstrarhagfræði frá University of San Francisco, McLaren School of Business 1991.

Eiríkur S. Jóhannsson lætur að störfum sem forstjóri Dagsbrúnar en tekur við starfi hjá Baugi Group. Í tilkynningu Dagsbrúnar er haft eftir Eiríki, að hann hafi tekið að sér að leiða það verkefni að setja saman undir eitt móðurfélag rekstur 365 miðla og Og Vodafone. Því verkefni sé að mestu lokið og þar sem honum hafi boðist önnur spennandi verkefni telji hann rétt að aðrir leiði sókn Dagsbrúnar.

Þórdís Sigurðardóttir, stjórnarformaður Dagsbrúnar, segir í tilkynningunni, að stjórnin hafi tekið ákvörðun um útrás á sviði fjölmiðlunar og muni Gunnar Smári Egilsson leiða hana.

Viðar Þorkelsson framkvæmdastjóri fjármála Dagsbrúnar mun sem fyrr sjá um fjármálastjórn samstæðunnar allrar. Árni Pétur Jónsson, forstjóri Og Vodafone, mun stýra uppbyggingu fjarskiptahluta Dagsbrúnar en Ari Edwald fjölmiðlahlutanum innanlands.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK