ESB ætti að framfylgja stefnu Íslendinga

Brian Prime, forseti Evrópusamtaka smáfyrirtækja, hitti að máli Davíð Oddsson seðlabankastjóra og fv. forsætisráðherra í Íslandsheimsókn sinni fyrir helgi. Með í för var Gústaf Skúlason, formaður samtaka sænskra smáfyrirtækja.

Prime sagði við Morgunblaðið að það hefði verið einkar ánægjulegt og fróðlegt að hitta Davíð, enda hefði hann átt stóran þátt í að skapa það rekstrarumhverfi sem íslensk fyrirtæki byggju nú við og hver Evrópuþjóð mætti taka sér til fyrirmyndar.

Prime sagðist ekki geta mælt með því við Íslendinga að þeir gengju í Evrópusambandið. Miklu frekar væri þetta spurning um að Evrópusambandið færi að framfylgja stefnu Íslendinga í efnahagsmálum. Skriffinnskan í ESB væri orðin slík og pólitíkin allsráðandi, að ekkert bólaði á framförum fyrirtækjum til hagsbóta.

"Oddsson í stað Lissabon"

"Breytingarnar sem Davíð stuðlaði að hafa gert Ísland að einu öflugasta hagkerfi heimsins. Af mörgum ástæðum hef ég haft áhuga á að kynna mér aðstæður á Íslandi. Loksins fékk ég að hitta þann mann sem kom þessu öllu af stað," sagði Prime og bætti því við að ekkert gengi hjá ESB að framfylgja Lissabon-áætluninni frá síðustu aldamótum, sem hefði verið ætlað að gera ESB að samkeppnishæfasta umhverfi í heimi fyrir árið 2010. Nú væru sex ár liðin en menn kæmust ekkert áfram fyrir reglugerðarfargani og vinnu við að afnema viðskiptahindranir. Við þær aðstæður gætu evrópsk fyrirtæki ekki keppt við önnur markaðssvæði í heiminum.

"Evrópusambandið ætti frekar að kynna sér "Oddsson-áætlunina"," sagði Prime og brosti.

Spurður hvort Íslendingar ættu að taka upp evruna sagði hann það algjöran óþarfa. Á meðan flest virtist ganga Íslandi í hag væri hvorki ástæða til að taka upp evruna né óska eftir aðild hjá ESB. Þetta væri svipað og að senda íslenskan skíðagöngumann á vetrarólympíuleika með sandpoka á bakinu.

"Ef þið gangið í Evrópusambandið þá munu íslensk fyrirtæki fá yfir sig haug af reglugerðum sem erfitt er að komast upp úr, ekki síst fyrir smáfyrirtækin. Í Evrópu er sú stefna við lýði að ef þú ert með fótbrotna manneskju þá verður að brjóta leggina á hinum svo allir búi við sömu fötlunina," sagði Prime.

Hann sagði íslenskan sjávarútveg standa vel að vígi, í samanburði við önnur lönd, og hið sama mætti ekki gerast hér og hefði gerst í Bretlandi. Þar væri sjávarútvegurinn í rúst sökum fiskveiðistefnu ESB.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »

  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK