FL Group selur 16,9% eignarhlut sinn í lágfargjaldaflugfélaginu easyJet

Frá aðalfundi FL-Group.
Frá aðalfundi FL-Group. Sverrir Vilhelmsson

FL Group hf. hefur gengið frá sölu á 16,9% eignarhluta félagsins í breska lágfargjaldaflugfélaginu easyJet. Hannes Smárason, forstjóri FL-Group, staðfesti þetta í samtali við Morgunblaðið í gærkvöldi.

Með sölunni losar félagið fjárhæð sem jafngildir um 30 milljörðum króna og nemur gengishagnaður félagsins við söluna ríflega 12 milljörðum. Hlutirnir eru seldir í dreifðri sölu, samkvæmt upplýsingum Hannesar.

„Þetta hefur frá upphafi verið mjög góð fjárfesting. Við erum að innleysa mjög mikinn gengishagnað við söluna," segir hann. FL Group hefur verið næststærsti hluthafinn í easyJet. FL Group eignaðist 10,1% hlut í easyJet í október 2004 og jók svo við hlut sinn á seinasta ári í nokkrum áföngum. „Þetta hafa verið mjög ábatasöm viðskipti fyrir okkur. Við tókum ákvörðun um að selja á þessum tímapunkti. Við höfum breytt ásýnd FL-Group mjög mikið eftir að við fórum í hlutafjárútboðið síðastliðið haust, þegar við jukum hlutafé félagsins um 44 milljarða og skilgreindum okkur sem alhliða fjárfestingarfélag," segir Hannes.

Að sögn hans er markmiðið með sölunni að losa fjármagn til að ráðast í nýjar fjárfestingar.

„Við horfum núna á verkefni á mun breiðari grunni en við gerðum áður og stöndum frammi fyrir umtalsverðum tækifærum á þessu ári. Það þarf að hafa tvo hluti á hreinu þegar verið er að fjárfesta og ávaxta peninga; að kaupa á réttum tíma og selja á réttum tíma. Það hljómar einfalt en er það ekki oft í praxís."

Eftir því sem næst verður komist er söluhagnaður FL-Group vegna þessara viðskipta með því mesta sem þekkst hefur þar sem íslenskir fjárfestar koma við sögu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK