Markaðsaðilar ofmátu hættuna á bankakreppu á Íslandi, samkvæmt Moody's

Alþjóðlega matsfyrirtækið Moody's segir í ársskýrslu sinni um Ísland, að Aaa lánshæfiseinkunn landsins byggi á sterkum stofnunum, lágum skuldum ríkissjóðs og getu til að standast áföll eins og reynslan hafi sýnt. Segist sérfræðingur Moody's telja, að markaðsaðilar hafi ofmetið hættuna á bankakreppu í landinu.

Fjallað er um ársskýrsluna á heimasíðu Seðlabankans og vitnað í tilkynningu frá Moody's. Landseinkunnin Aaa fyrir skuldabréf í erlendri mynt er dregin af Aaa einkunninni sem er gefin fyrir skuldabréfaútgáfu ríkissjóðs í erlendri mynt. Landseinkunnin endurspeglar það mat að áhætta á greiðslufalli eða greiðslustöðvun vegna skuldabréfa ríkissjóðs sé í lágmarki.

Joan Feldbaum-Vidra, sérfræðingur Moody's, segir að Ísland sé auðugt, þróað iðnríki þar sem umfangsmiklar aðgerðir til að skjóta fleiri stoðum undir efnahagsstarfsemina séu vel á veg komnar en þær muni auka enn auð og styrk hagkerfisins.

En þrátt fyrir þessa jákvæðu þætti, bendir skýrsluhöfundur á að ójafnvægi hafi myndast sem komi fram í háum og vaxandi erlendum skuldum, sérstaklega hjá bankakerfinu. Þessi þróun, ásamt hækkandi alþjóðlegum vöxtum og breyttu áhættumati fjárfesta, hafi vakið áhyggjur markaðsaðila vegna þess að íslenska bankakerfið sé háð fjármögnun erlendis frá og því væri hætta á kerfisáfalli ef bönkunum tækist ekki að endurfjármagna erlend lán sín.

Sérfræðingur Moody’s segir matsfyrirtækið telja að markaðsaðilar hafi ofmetið hættuna á bankakreppu í landinu. Erlendu lánin hafi verið notuð til að fjármagna erlendar fjárfestingar í háum gæðaflokki auk þess sem erlendar eignir og skuldir bankanna séu í góðu samræmi.

Þá bendir sérfræðingur Moody’s á, að fjármálakerfinu á Íslandi sé vel stýrt og eiginfjárhlutfall sem og lausafjárstaða góð. Fjármálakerfið sé vel í stakk búið til að mæta talsvert stórum skellum samtímis vegna hraðrar gengisaðlögunar, lækkunar eignaverðs og rýrnunar á gæðum eignasafns.

Ef svo ólíklega vildi til að bankakreppa skylli á þá væri ríkisvaldið vel í stakk búið til að bregðast við, en skuldir ríkissjóðs eru um 22% af vergi landsframleiðslu, sem er um það bil helmingi minna en meðaltal annarra landa með Aaa lánshæfiseinkunn, að sögn Moody’s. Við þetta megi bæta, að landsframleiðsla upp á 50 þúsund Bandaríkjadali á mann sé mjög mikil jafnvel í samanburði við önnur lönd sem hafa Aaa lánshæfiseinkunn. Þetta beri vott um þróaða efnahagsstarfsemi og öflugt stofnanakerfi sem er afgerandi þáttur í getu landsins til að bregðast við áföllum.

Heimasíða Seðlabankans

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK