Saga fjárfestingar er nýtt fyrirtæki á íslenskum fjármálamarkaði

Jóhann Antonsson, stjórnarformaður Sparisjóðs Svarfdæla, Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, forstjóri Saga …
Jóhann Antonsson, stjórnarformaður Sparisjóðs Svarfdæla, Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, forstjóri Saga fjárfestinga hf., Örn Arnar Óskarsson, framkvæmdastjóri Sparisjóðs Norðlendinga, og Halldór Jóhannsson, framkvæmdastjóri KEA.

Saga fjárfestingar hf. er nýjasta fyrirtækið á íslenskum fjármálamarkaði. Stofnhluthafar eru Hildingur ehf. (KEA) með 25% hlut, Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson með 25% hlut, Sparisjóður Norðlendinga og Sparisjóður Svarfdæla með 13% hlut hvor og fjárfestar, m.a. starfsmenn og lykilstjórnendur Sögu með 24% hlut. Stofnhlutafé er 2 milljarðar króna en ætlunin er að auka það í 4 milljarða á næstu 18 mánuðum. Höfuðstöðvar hins nýja félags verða á Akureyri.

Fram kemur í fréttatilkynningu að SAGA muni leggja áherslu á sérvalin verkefni á fyrirtækjamarkaði. Þar má nefna stöðutöku á innlendum og erlendum verðbréfamörkuðum, samruna og yfirtökur, fjárfestingalán og útlán/meðfjármögnun og ennfremur mun SAGA verða viðskiptavaki með hlutabréf og skuldabréf. Umsóknarferli um leyfi til að starfrækja fjárfestingabanka er í undirbúningi en gera má ráð fyrir að það taki nokkra mánuði.

Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson er forstjóri hins nýstofnaða félags en hann var áður framkvæmdastjóri eigin viðskipta KB banka. Aðrir helstu lykilstjórnendur SAGA hafa þegar verið ráðnir og eiga það sammerkt að hafa víðtæka reynslu af íslenskum og alþjóðlegum fjármálamarkaði. Gert er ráð fyrir að starfsmenn félagsins verði 10 til að byrja með.

„Markmið okkar með stofnun fyrirtækisins eru skýr. Í fyrsta lagi munum við veita samkeppnishæfa þjónustu á völdum sviðum fjármála. Í öðru lagi hyggjumst við veita hluthöfum okkar framúrskarandi ávöxtun með virkri stýringu og áhættumati yfir lengra tímabil. Í þriðja lagi munum við styðja við hluthafa okkar og verkefni á þeirra vegum og síðast en ekki síst er markmiðið að vera viðurkennt afl á íslenskum fjármálamarkaði innan 5 ára,“ segir Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK