Ekstra Bladet segir viðskipti Íslendinga erlendis líkjast skattaundandrætti

Íslendingar eiga meðal annars verslunarkeðjuna Magasin í Danmörku.
Íslendingar eiga meðal annars verslunarkeðjuna Magasin í Danmörku. mbl.is/GSH
Danska blaðið Ekstra Bladet hóf í dag boðaða umfjöllun sína um íslenska kaupsýslumenn og íslenskt viðskiptalíf. Blaðið segist m.a. hafa það eftir sérfræðingum, að kaup Íslendinga á fyrirtækjum í Danmörku, Svíþjóð og á Englandi líkist skattaundandrætti og peningaþvætti. Þá segir Ekstra Bladet, að Kaupþing banki hafi komið sér upp flóknu alþjóðlegu og leynilegu kerfi sem að hluta sé notað til að færa stórar fjárhæðir fram og til baka án þess að mikið beri á og að hluta til tryggja að bankinn og viðskiptavinir hans þurfi ekki að greiða skatta.

Blaðið hefur eftir skattasérfræðingnum Christen Amby, að Íslendingarnir taki fjármagn út í fyrirtækjum sínum í Danmörku og flytji peninga gegnum Lúxemborg áfram út í heim án þess að greiða skatt af peningunum í Danmörku.

Hann segir, að stórir fjárfestingarsjóðir nýti sér svipað kerfið. Reglan sé sú, að ef ef arður af fyrirtækjarekstri sé sendur frá Danmörku til svonefndra skattaskjóla eigi að halda skattinum af arðinum eftir. En skatturinn hverfi hins vegar ef peningarnir séu sendir til Lúxemborg.

Blaðið hefur eftir Lars Bo Langsted, prófessor í fyrirtækjarétti og sérfræðingi í efnahagsbrotum, að ýmsar aðrar skýringar geti verið á flóknu fyrirtækjaneti Íslendinga. Ein skýringin geti verið sú, að verið sé að reyna að ná fram sem mestu skattahagræði án þess að aðferðirnar séu ólöglegar. Önnur skýring geti verið sú, að menn vilji fela hvaðan féð komi og nota þannig fyrirtækjakeðjur til að hvítþvo peningana.

„En hver sem skýringin er er erfitt að skýra svo flókna fyrirtækjauppbyggingu með hreinum efnahagslegum rökum eða skipulagsrökum," hefur blaðið eftir Lars Bo Langsted.

Ekstra Bladet boðar að umfjölluninni um íslenska kaupsýslumenn verði haldið áfram næstu daga.

Ekstra Bladet

mbl.is

Myntbreyta

  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  CHF
  JPY

Erlendar viðskiptafréttir