Robert Tchenguiz tekur sæti í stjórn Exista

Robert Tchenguiz.
Robert Tchenguiz. Reuters

Tillaga verður lögð fram um það á aðalfundi Exista í mars, að kaupsýslumaðurinn Robert Tchenguiz taki sæti í stjórn félagsins. Kemur þetta í kjölfar kaupa Exista á hlut Tchenguiz í finnska tryggingafélaginu Sampo en hluturinn er m.a. greiddur með hlutabréfum í Exista og mun Tchenguiz Family Trust á eftir eiga rúmar 559 milljónir hluta í íslenska fjárfestingarfélaginu eða 4,92% af heildarhlutafé.

Robert Tchenguiz og Vincent bróðir hans eru meðal umsvifamestu kaupsýslumanna á Bretlandi. Þeir eru á fimmtugsaldri, fæddir í Íran. Victor, faðir þeirra, fæddist í Írak en flúði til Írans og sá um að útvega Íranskeisara skartgripi. Þegar keisaranum var steypt af stóli árið 1979 flúði Tchenguizfjölskyldan til Bretlands.

Robert Tchenguiz hefur áður átt viðskipti við íslensk fyrirtæki, þar á meðal Baug Group og KB banka, en þessir aðilar áttu samstarf við yfirtöku á Somerfield verslanakeðjunni.

Exista hefur keypt 9,5% hlut Tchenguiz í Sampo og ræður nú yfir 15,48% hlut í finnska tryggingafélaginu. Samkvæmt tilkynningu til Kauphallar Íslands er markaðsvirði þessa eignarhlutar 1,9 milljarðar evra eða um 170 milljarðar íslenskra króna.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK