Baugur kjölfestufjárfestir í 30 erlendum fyrirtækjum sem velta 1300 milljónum

Frá London.
Frá London. Reuters

Baugur Group er orðinn kjölfestufjárfestir í yfir 30 fyrirtækjum víða um heima og er velta þessara fyrirtækja jafnvirði um 1300 milljarða króna; starfsmenn eru um 75.000. Áætlað er að yfir 120 þúsund manns starfi hjá fyrirtækum erlendis sem Íslendingar eru kjölfestufjárfestar í.

Þetta kom fram í máli Gunnars Sigurðssonar hjá Baugi í Bretlandi á ráðstefnu í Lundúnum í dag þar sem fjallað var um útrás íslenskra fyrirtækja.

Gunnar sagði, að áhrif íslenskra stjórnvalda á hina svonefndu útrásarþróun hefðu verið mikil en þau hefðu búið til umhverfi sem gerði hana mögulega. Gunnar sagði einnig, að þessi þróun hefði ekki orðið ef íslensku bankarnir hefðu ekki verið einkavæddir. Þá skipti verulegu máli hve stutt væri á milli stjórnkerfisins og viðskiptalífsins á Íslandi.

Fulltrúar ýmissa fyrirtækja og banka, sem eru með starfsemi í Bretlandi, fluttu erindi á ráðstefnunni. Fram kom í máli flestra þeirra, að þegar gengi krónunnar hrundi á síðasta ári hefði rignt spurningum yfir íslensku útrásarfyrirtækin í Lundúnum um hvað yrði um þau ef íslenska bankakerfið myndi hrynja.

Helgi Bergs, framkvæmdastjóri hjá Kaupþingi í Lundúnum, sagði m.a. á ráðstefnunni, að hann teldi mjög ólíklegt að Kaupþing muni flytja höfuðstöðvar sínar frá Íslandi enda væru rætur fyrirtækisins þar. Sagði Helgi, að ef höfuðstöðvarnar yrðu t.d. fluttar til Lundúna yrði Kaupþing aðeins einn af bönkunum þar í landi en á Íslandi skipti bankinn gríðarlegu máli auk þess sem helstu stjórnendur, stjórn og hluthafar væru Íslendingar.

Þá sagði Helgi, að viðskiptaumhverfið á Íslandi væri frekar hagstætt, þar á meðal væri tekjuskattur á fyrirtæki 18% en 30% á Bretlandi. Hann tók þó fram, að fyrirtækið léti skatta seint hafa úrslitaáhrif á þá ákvörðun hvort höfuðstöðvarnar yrðu fluttar.

Hannes Smárason, forstjóri FL Group, sagði á ráðstefnunni að fyrirtækið áformaði að fjárfesta á 3-4 sviðum. FL Group hefði fjárfest í Glitni og ætlaði að vera þar áfram. Þá hefði fyrirtækið fjárfest umtalsvert í endurnýjanlegri orku og ætti síðan eftir að velja 1-2 svið til viðbótar.

Elín Sigfúsdóttir, framkvæmdastjóri hjá Landsbankanum, sagði á ráðstefnunni, að fimm af stærstu fyrirtækjunum í Kauphöll Íslands væru með um eða yfir helming af starfsemi sinni erlendis. Þannig væri Kaupþing með um 69% af sinni starfsemi í útlöndum, Glitnir, Landsbankinn og Straumur-Burðarás væri með um 50% og FL Group 40%.

mbl.is

Bloggað um fréttina

  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK