Stefnt að tvöföldun framlaga til Tækniþróunarsjóðs til ársins 2012

Jón Sigurðsson, iðnaðarráðherra.
Jón Sigurðsson, iðnaðarráðherra. mbl.is/Árni Sæberg

Jón Sigurðsson, iðnaðar- og viðskiptaráðherra ætlar að beita sér fyrir því að framlög til Tækniþróunarsjóðs verði aukinn. Þetta kom fram í ræðu ráðherra á Iðnþingi 2007.

„Tækniþróunarsjóður hefur á stuttum starfstíma sínum gegnt mikilvægu hlutverki í nýsköpun atvinnulífsins.

Á þessu ári hefur sjóðurinn 500 m.kr. til ráðstöfunar í þróunar- og nýsköpunarverkefni. Langflest verkefnanna eru tengd starfsemi fyrirtækja, sem mörg eru í nánu samstarfi með háskólum eða opinberum rannsóknastofnunum. Sjóðurinn hefur getu til að styrkja um eða innan við 60 verkefni á ári, sem þýðir að aðeins um einn þriðji umsókna fær brautargengi. Mér er það fullljóst að mun fleiri verkefni þyrftu að geta notið stuðnings sjóðsins og að styrkir þurfa að vera stærri til að geta borið veigameiri verkefni.

Ég hef því ákveðið að beita mér fyrir því að framlög til Tækniþróunarsjóðs verði aukin. Til grundvallar þessarar ákvörðunar liggur reynsla mín af störfum í Vísinda- og tækniráði og skilningur á mikilvægi þess að nýsköpun atvinnulífsins þarf að vega þyngra í atvinnupólitískri umfjöllun en verið hefur. Ég tel ekki ofmælt að framlög til Tækniþróunarsjóðs verði tvöfölduð á næstu fjórum árum - og verði einn milljarður árið 2012," sagði Jón.

Viðskiptaráðherra sagði, að með auknum framlögum til Tækniþróunarsjóðs væri stigið veigamikið skref í eflingu nýsköpunar í starfandi fyrirtækjum. Ekki væri þó nægilegt eitt og sér að efla Tækniþróunarsjóð því miðað við alþjóðlegar samanburðarmælingar, t.d. nýlegan samanburð Evrópusambandsins á nýsköpun í Evrópu, nái Ísland ekki viðunandi árangri í hagnýtingu vísindalegrar- og tæknilegrar þekkingar þrátt fyrir hagstæð ytri skilyrði.

„Þessi lélega útkoma er verulegt áhyggjuefni og því vil ég nota tækifærið til að brýna ykkur - atvinnurekendur og samtök ykkar - til að taka þessar niðurstöður Evrópusambandsins til umfjöllunar og ályktunar. Takmörkuð nýsköpun í starfandi fyrirtækjum er nefnilega umhugsunarvert vandamál og það verður að vera sameiginlegt viðfangsefni stjórnvalda og ykkar sem hér eruð - að skilgreina aðgerðir til að hagnýting rannsókna skili okkur meiri árangri," sagði Jón Sigurðsson.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK