Yfir þúsund störf urðu til í fjármálastarfsemi á síðasta ári

Fjármálastarfsemi er orðin ein af undirstöðuatvinnugreinunum hér á landi.
Fjármálastarfsemi er orðin ein af undirstöðuatvinnugreinunum hér á landi.

Á árinu 2006 bættust um 1000 starfsmenn við hjá íslenskum fjármálafyrirtækjum, flestir hjá bönkunum. Í árslok 2006 störfuðu 8300 manns hjá fjármálafyrirtækjunum og hefur starfsfólki í fjármálageiranum fjölgað meira en tvöfalt hraðar en starfsmönnum í öðrum atvinnugreinum síðustu ár.

Þetta kom m.a. fram á fyrsta aðalfundi Samtaka fjármálafyrirtækja, sem nú stendur yfir. Í ársskýrslu samtakanna kemur fram, að hlutdeild fjármálageirans í landsframleiðslu nam 8,8% á síðasta ári og var hærra en framlag fiskveiða og álframleiðslu samanlagt.

Bjarni Ármannsson, formaður samtakanna, sagði á fundinum, að fjármálaþjónusta væri einn helsti drifkraftur efnahagslífsins á Íslandi um þessar mundir. Eigi fjármálamarkaður að halda áfram að vaxa og dafna og stuðla að framförum og velsæld eins og hann hafi gert að undanförnu, sé mikilvægt að gott samstarf takist við stjórnvöld og almenning um hagstæð starfsskilyrði fyrir fjármálastarfsemi hér á landi.

Á fundinum var m.a. kynnt ný könnun, sem Capacent gerði fyrir samtökin, þar sem fram kom, að 86% aðspurðra voru jákvæðir í garð aðalviðskiptabanka síns og 70% voru jákvæðir í garð aðal tryggingafélags síns.

Þegar spurt var hvaða atvinnugrein fólk teldi líklegasta til að verða megin drifkraftur íslensks efnahagslífs á næstu áratugum svöruðu 28,7% fjármálastarfsemi, 19,9% svöruðu upplýsinga- og hugbúnaðargeirinn, 16,2% svöruðu stóriðja, 13,1% sögðu ferðaiðnaður og 9,2% sjávarútvegur.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK