George Soros meðal gesta hjá Glitni

George Soros
George Soros Reuters

Fjárfestirinn George Soros var meðal gesta í kvöldverðarboði Glitnis í gærkvöldi í New York en bankinn opnaði starfstöð í borginni í gær. George Soros er þekktur sem maðurinn sem felldi pundið og græddi einn milljarð Bandaríkjadala á einum degi, hann fjármagnaði fjölda andófshópa í austantjaldsríkjum fyrir fall múrsins og hann lagði tugi milljóna dala fram til að koma í veg fyrir að George W. Bush næði endurkjöri sem forseti Bandaríkjanna.

Í kvöldverðinum, sem haldinn var í Lincoln Center í New York, var saman kominn mikill fjöldi starfsmanna Glitnis sem og fjárfesta en þar gaf Glitnir 100 þúsund Bandaríkjadala til stuðnings uppbyggingu tónlistarkennslu í Jazz at Lincoln Center. Meðal þeirra tónlistarmanna sem fram komu í kvöldverðinum var jassleikarinn Wynton Marsalis.

Sorors fæddist í Búdapest í Ungverjalandi, árið 1930 og hét þá György Schwartz, en faðir hans, Tivadar, breytti fjölskyldunafninu í Soros árið 1936 vegna yfirvofandi uppgangs nasisma í Evrópu. Tivadar var rithöfundur sem skrifaði bækur sínar að mestu á uppfundna tungumálinu esperanto. Nýja fjölskyldunafnið féll Tivadar vel í geð vegna þess að það er eins, hvort heldur sem það er lesið aftur á bak eða áfram, og eins vegna þess að það þýðir „arftaki" á ungversku og að „svífa vængjum þöndum" á esperanto.

Árið 1944, þegar George Soros var þrettán ára, tók þýski herinn völdin í Ungverjalandi og í kjölfarið hófust ofsóknir gegn gyðingum fyrir alvöru í landinu, og fór svo að á því rúma ári sem leið til stríðsloka var hálf milljón ungverskra gyðinga myrt af nasistum, af þeim 750.000 gyðingum sem bjuggu í landinu fyrir stríð. Soros lifði af ofsóknirnar, orrustuna um Búdapest, þar sem herir Sovétríkjanna og Þýskalands börðust hús úr húsi, og hungrið og skortinn sem tók við eftir það. Fyrstu kynni Sorosar af gjaldeyrisviðskiptum voru á táningsárum, þegar hann verslaði með gjaldmiðla í ofsaverðbólgunni á árunum 1945-46. George Soros slapp frá Ungverjalandi árið 1946 með því að taka þátt í ungmennaþingi esperanto á Vesturlöndum. Soros lærði tungumálið í vöggu og er því einn fárra sem hafa hið tilbúna tungumál að móðurmáli. Soros flutti til Englands árið 1947 og útskrifaðist frá London School of Economics árið 1952 og flutti til Bandaríkjanna árið 1952. Hann hefur sagt að á þeim tímapunkti hafi markmið hans verið að afla nægs fjár til að geta sinnt heimspeki og ritstörfum. Soros hefur stofnað og átt nokkurn fjölda sjóða og fyrirtækja, þeirra á meðal Soros Fund Management og Quantum Fund, sem stofnaður var árið 1970 og skilaði 3,365% ávöxtun næstu tíu ár eftir það og er stærstur hluti auðs Soros þaðan kominn. Skortsala Frægustu viðskipti Soros eru hins vegar skortsala hans á breskum pundum árið 1992 þegar hann varð þekktur sem "Maðurinn sem felldi pundið". Skortseldi hann pund að andvirði 10 milljarðar Bandaríkjadala og græddi á einum degi 1,1 milljarð dala. Þrátt fyrir viðurnefnið er ekki hægt að kenna Soros um gengisfall pundsins, því enginn einn fjárfestir, hversu efnaður eða harðsvíraður hann er, getur fellt gjaldmiðil eins af helstu iðnríkjum heims um jafnmikið og pundið féll á þessum tíma. Fjárfestar geta aðeins spáð fyrir um hvað muni gerast og hagað fjárfestingum sínum í samræmi við þær spár. Árið 1992 var gengi pundsins ekki ákvarðað á frjálsum gjaldeyrismarkaði, heldur var breski seðlabankinn bundinn af Bretton Woods samkomulaginu, sem var tilraun til að festa gengi helstu gjaldmiðla. Bretton Woods gat hins vegar ekki fest magn peninga í umferð. Magn punda í umferð, miðað við magn Bandaríkjadollara, hafði aukist mjög árin áður og myndaðist því spenna á gjaldeyrismörkuðum sem þýddi að Bandaríkjadalurinn gekk kaupum og sölum á undirverði, og pundið var of dýrt miðað við dalinn. Spurningin var bara hvenær gengisfellingin yrði. Bretland hafði á þessum tíma nýlega gengið í evrópska myntbandalagið og var ljóst að ekki væri hægt að viðhalda gengi pundsins gagnvart þýska markinu án mjög kostnaðarsamra inngripa af hálfu þýska seðlabankans. Í september 1992 hóf Soros árás á pundið og veðjaði hann, eins og áður segir, tíu milljörðum dala á að pundið myndi falla í verði. Aðrir spákaupmenn runnu á blóðlyktina og fljótlega var þrýstingurinn á pundið orðinn mjög mikill.

Á endanum fór svo að Þjóðverjar neituðu að bjarga pundinu og breski seðlabankinn neyddist til að fella gengi pundsins og draga það úr evrópska myntbandalaginu. Hefðu Þjóðverjar hins vegar ákveðið að grípa inn í hefði árás Sorosar, og hinna spákaupmannanna, ekki tekist. Þess vegna hafa margir leitt að því líkum að Soros hafi búið yfir upplýsingum um fyrirætlanir þýskra stjórnvalda og því hafi verið um nokkurs konar innherjaviðskipti að ræða. Enginn heilvita maður hefði lagt tíu milljarða undir án þess að vera sæmilega öruggur um niðurstöðuna.

Sú saga gengur manna á milli í fjármálaheiminum að Soros hafi mútað þýskum embættismönnum fyrir upplýsingar um afstöðu og fyrirætlanir Þjóðverja og hafi því getað ráðist á pundið áhyggjulaust. Óþarfi er að taka fram að sögusagnir þessar hafa aldrei fengist staðfestar.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK