Telja fáa standa betur en Kaupþing banka

Lausafjárstaða Kaupþings banka batnaði mikið við það að hætt var við kaupin á hollenska bankanum NIBC og sennilega ekki margir bankar sem standa betur að vígi en Kaupþing þegar kemur að lausu fé, segir í minnisblaði sem fjárfestingarbankinn Fox-Pitt Kelton sendi frá sér í gær.

Sérfræðingur Fox-Pitt segir það hafa verið rétta ákvörðun hjá Kaupþingi að hætta við kaupin. Miðað við 550 punkta skuldatryggingarálag á fimm ára skuldabréf bankans þá sé þetta ekki rétti tíminn fyrir bankann til að fjármagna sig. Samlegðaráhrif bankanna tveggja hefðu samt sem áður orðið mikil við viðunandi markaðsaðstæður.

Talsvert hefur verið fjallað um málið í heimspressunni s.s. í Financial Times, Bloomberg og Reuters, og fremur á jákvæðum nótum. Skýringar þess efnis að slakt ástand á lánamarkaði gerði Kaupþingi og NIBC erfitt fyrir að réttlæta samruna, virtust að jafnaði teknar góðar og gildar. Ekki síst þar sem um samkomulag beggja bankanna var að ræða. Talið er að með þessari ákvörðun dragi mjög úr óvissu hvað Kaupþing varðar og jafnvel fyrir íslenska fjármálageirann í heild sinni. Þetta sýndi sig í gær meðal annars í því að skuldabréfaálag bankans lækkaði um 120 punkta en hækkaði reyndar aftur þegar leið á daginn vegna frétta af endurskoðun lánshæfiseinkunnar íslensku bankanna hjá Moody´s.

Í frétt Wall Street Journal segir að Kaupþing hafi fengið þung högg undanfarið í óróleikanum á lánamarkaði. Hlutabréf í bankanum hafi fallið um 30% á síðustu þremur mánuðum og skuldatryggingarálagið hafi hækkað um 300 punkta á 28 dögum, allt upp í 590 punkta.

Norrænu fjölmiðlarnir eru fremur á neikvæðum nótum en hinir. Hið sænska Dagens Industri segir Kaupþing hafa kippt í neyðarhemilinn til að komast frá kaupunum á NIBC. Fram kemur að Glitnir, Landsbankinn og Straumur hafi samanlagt sýnt fram á talsverðan samdrátt í hagnaði í uppgjörum sínum og sérfræðingar sem blaðið hafði samband við telji að alvarlegur vandi steðji að íslenskum fjárfestingarbönkum.

NIBC birti í gær uppgjör sitt fyrir síðasta ár. Hagnaður bankans dróst saman um rösk 60% frá fyrra ári og var 235 milljónir evra. Nú munu hluthafar NIBC leggja fram 300 milljónir evra í nýtt hlutafé til bankans og ætlar bankinn sér að sækja fram einn og sér á ný mið eftir fremur slæma útreið á síðasta ári. Moody's hefur staðfest Baa1 langtímaeinkunn NIBC og telur hana stöðuga.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK