Álagið í hæstu hæðum

Skuldatryggingarálag íslensku bankanna frá janúar 2007 til febrúar 2008.
Skuldatryggingarálag íslensku bankanna frá janúar 2007 til febrúar 2008. mbl.is

Skuldatryggingarálag íslensku bankanna hefur verið í hæstu hæðum undanfarið í kjölfar þeirra miklu erfiðleika sem ríkja á alþjóðlegum fjármálamörkuðum. Þannig er álag á skuldabréf Kaupþings nú 650 punktar, Glitnis 605 punktar og Landsbankans 375 punktar.  Þess má geta að í júníbyrjun 2007 var skuldatryggingarálag Kaupþings 25 punktar, Glitnis 24 punktar og Landsbankans 18 punktar.

Skuldatryggingarálag mælir hvað það kostar fyrir fjárfesta að kaupa tryggingu gegn því að útgefandi viðkomandi skuldabréfs geti ekki staðið við skuldbindingar sínar. Kostnaðurinn er mældur sem álag ofan á grunnvexti. Álagið er almennt talið vera einn besti mælikvarðinn á þau markaðskjör sem bankar standa frammi fyrir á alþjóðlegum skuldabréfamörkuðum.

Ástandið sjaldan jafn ótryggt og nú

Landslagið á fjármálamörkuðum hefur gjörbreyst undanfarin misseri og er orðið langt síðan horfur á fjármálamörkuðum og alþjóðlegum efnahagsmálum hafa verið jafn ótryggar og nú. Allt frá því að lausafjárkreppan kom upp á yfirborðið síðastliðið sumar hefur aðgangur fjármálastofnana að lánsfé dregist verulega saman og álag á skuldabréf bankanna hækkað af sama skapi. Líkt og greiningardeild Kaupþings bendir á í riti sínu um efnahagsmál fyrr á árinu þá jafnar hátt skuldatryggingarálag á íslensku bankana því til að vextir yrðu hækkaðir allverulega á íslenska atvinnustarfsemi. Hærra álag hækkar fórnarkostnað fjármagns fyrir fjármálastofnanir og leiðir bæði til aukinnar íhaldssemi í útlánum og hækkunar á útlánavöxtum. Það mun síðan leiða til mjög minnkandi fjárfestingar eða eins og hægt er að orða það á mannamáli, fyrirtæki og einstaklingar fá ekki lán hjá fjármálastofnunum þrátt fyrir að vera með örugga fjárfestingu í höndunum.

Frá því á fjórða ársfjórðungi á síðasta ári hafa birst fréttir af stórauknum afskriftum lánastofnana beggja vegna Atlantsála og þar af leiðandi verri afkomu þeirra. Í fyrstu var lausafjárkreppan aðallega rakin til aukinna vanskila í tengslum við ótrygg fasteignalán í Bandaríkjunum og skuldabréfavafninga þeim tengdum. Óvissan um umfang og útbreiðslu þessara skuldbindinga varð þess valdandi að bankastofnanir drógu mjög úr framboði lausafjár á millibankamarkaði og greiðslumiðlunarferli hins alþjóðlega bankakerfis varð fyrir miklum skakkaföllum, eins og greint er frá í vefriti greiningardeildar Landsbankans í desember.

„Ekki bætti úr skák að viðbrögð seðlabanka, sérstaklega í Bretlandi þóttu í fyrstu sein og fálmkennd. Erfitt hefur reynst að fá áreiðanlegt mat á umfangi vandans, en stærstu alþjóðabankarnir hafa þegar afskrifað tugi milljarða dollara og yfirtekið skuldbindingar í tengslum við skuldabréfavafninga og sérstaka verðbréfunarsjóði sem áður var haldið utan efnahagsreiknings þessara banka. Allt í þeim tilgangi að auka gegnsæi markaðarins og ná til baka glötuðum trúverðugleika," samkvæmt vefriti Landsbankans.

Halda að sér höndum í útlánum til einstaklinga og fyrirtækja

En hvað gerist ef skuldatryggingarálag íslensku bankanna lækkar ekki á næstunni? Þá er ljóst að bankarnir munu halda að sér höndum áfram í útlánum til einstaklinga og fyrirtækja þar sem bankarnir geta hreinlega ekki fjármagnað sig á alþjóðlegum lánamörkuðum á þeim kjörum sem þeim bjóðast. Ljóst er að íslensku bankarnir þurfa ekki að endurfjármagna sig á næstu mánuðum og því staða þeirra ekki sú sama og þegar þeir lentu í miklum mótvind árið 2006 er þeir voru harðlega gagnrýndir af erlendum greiningardeildum. Á þeim tíma voru íslensku bankarnir allir að fjármagna sig fram í tímann og hafði sú neikvæða umræða sem þá var slæm áhrif á þau kjör sem þeim buðust erlendis. En íslensku bankarnir komust í gegnum þá umræðu og spurning um hvernig þeim reiðir nú af ef framhald verður á þeirri kreppu sem ríkir á alþjóðlegum fjármálamörkuðum.

Stórfelld lækkun ekki í augsýn

Ef skuldatryggingarálagið minnkar hratt á næstunni þá mun það vinna gegn þeim mikla samdrætti útlána sem nú ríkir á íslenska markaðnum. Hins vegar virðist stórfelld lækkun á skuldatryggingarálagi banka ekki vera í augsýn en jákvæð framvinda á alþjóðlegum fjármálamörkuðum er ein mikilvægasta forsenda þess að skuldatryggingarálagið lækki hjá íslensku bönkunum. Þetta þýðir að bankarnir munu halda að sér höndum hvað varðar útlán og þenslu enda hafa stjórnendur þriggja stærstu bankanna, Glitnis, Kaupþings og Landsbankans, sent frá sér skýr skilaboð um að í ár verði horft til þess að gæta aðhalds í rekstri og hlúð verði að núverandi starfsemi þeirra án frekari stækkunar.

Orðspor banka ekki gott þessa stundina

Hátt skuldatryggingarálag íslensku bankanna hefur farið hátt í umræðu innlendra sem erlendra fjölmiðla að undanförnu og hafa komið fram fullyrðingar eins og þær að ekki sé langt þar til einhverjir íslensku bankanna stefni í þrot. Í sjálfu sér er hátt skuldatryggingarálag eitthvað sem almenningur veltir ekki fyrir sér erlendis sem innanlands en eins og fram kom hér að framan er álagið almenn talið vera einn besti mælikvarðinn á þau kjör sem bankar njóta. Eins og staðan hefur verið að undanförnu er álag banka almennt í heiminum langt frá því sem vant er. En þetta er ekki það eina sem bankageirinn glímir við – því orðspor þeirra er fjarri því að vera gott þessa dagana.

Skýringar á hærra álagi ekki bara að finna hjá bönkunum sjálfum

Þeir sem Fréttavefur Morgunblaðsins ræddi við innan bankageirans segja að hlutfallslega hafi álag íslensku bankanna hækkað svipað og að meðaltali á banka í Evrópu eða í Bandaríkjunum. Það sem hins vegar skýri að einhverju það háa álag sem skuldabréf íslensku bankanna búa við sé meðal annars smæð Seðlabanka Íslands, það er getu hans til þrautavarna, tap íslenskra fjárfestingarfélaga sem hefur ekki farið fram hjá þeim sem fylgjast með fjármálafréttum út í hinum stóra heimi, smæð krónunnar,  viðvarandi viðskiptahalli og blikur í íslensku efnahagslífi. Hins vegar er ekki hægt að varpa skuldinni einvörðungu á utanaðkomandi aðila og ljóst að bankarnir munu allir gæta vel að í  rekstri á næstu misserum.

Íslandsálagið skorar hátt

En hvað skýrir þá að álag á aðra norræna banka hefur hækkað mun minna heldur en íslensku bankanna sem flestir skilgreina sig sem alþjóðlegar fjármálastofnanir?

Þau svör sem mbl.is hefur fengið eru  meðal annars þau að þar sem markaðurinn telur norrænu bankana hafa orðið fyrir minni áhrifum af þeirri fjármögnunar- og undirmálalánakrísu sem einkennt hefur alþjóðlega markaði að undanförnu. Þrátt fyrir að svipaða sögu megi segja um íslensku bankana, sem hafa orðið fyrir tiltölulega litlum skakkaföllum af undirmálslánum og hafa almennt verið mjög vel fjármagnaðir, síðan að  „Íslandskrísan" reið yfir virðast vera um ákveðið „Íslandsálag" að ræða sem skýrist ef til vill meðal annars af smæð landsins og hlutfallslegri stærð bankanna. Þannig er t.d. álag íslenska ríkisins það hæsta á meðal þróaðra ríkja.

Engum teningum kastað

En hver ræður því hversu hátt skuldatryggingarálagið er? Er það einhver hópur sérfræðinga sem situr og kastar upp tengingum um hvaða kjör séu í boði?

Nei ekki er það svo því skuldatryggingarálagið er ekki reiknuð stærð heldur ræðst það af markaðslögmálum, framboði og eftirspurn. Á meðan fjármögnun bankanna fer ekki að stóru leyti fram á þessum kjörum hefur skuldatryggingarálagið sjálft takmörkuð áhrif á bankanna enda búnir að fjármagna sig að stærstu leyti fyrir næstu mánuði þrátt fyrir að sífellt séu þeir að leita hagstæðrar fjármögnunar enda erfitt að taka þátt í stórum verkefnum erlendis sem innanlands ef þeir njóta ekki hagstæðra kjara við lánsfjármögnun. Það má því búast við því að íslensku bankarnir verði ekki jafn áberandi og oft áður er kemur að fréttum af yfirtökum og fjármögnun úti í hinum stóra heimi enda ekki líklegt að þeir geti boðið viðskiptavinum sínum betri kjör en þeir njóta sjálfir.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK