Orðstír Íslands í ólgusjó

mbl.is

Geir H. Haarde, forsætisráðherra, hefur ekki komist hjá því að fylgjast náið með óstöðugleika á alþjóðlegum fjármálamörkuðum að undanförnu enda mikið fjallað um hátt skuldatryggingarálag íslensku bankanna í erlendum fjölmiðlum og af erlendum greiningardeildum. Breska viðskiptablaðið Financial Times fjallar ítarlega um Ísland í dag.

Skuldatryggingarálag mælir hvað það kostar fyrir fjárfesta að kaupa tryggingu gegn því að útgefandi viðkomandi skuldabréfs geti ekki staðið við skuldbindingar sínar. Kostnaðurinn er mældur sem álag ofan á grunnvexti. Álagið er almennt talið vera einn besti mælikvarðinn á þau markaðskjör sem bankar standa frammi fyrir á alþjóðlegum skuldabréfamörkuðum.

Kynningarfundur í New York síðar í mánuðinum

Í greininni er fjallað um hátt skuldatryggingaálag íslensku bankanna og þá ákvörðun Geirs að kynna íslenskt efnahagslíf alþjóðlega enda sé skuldatryggingarálagið allt of hátt og í engum tengslum við raunveruleikann, að sögn Geirs.

Hann hefur ákveðið að fara til New York síðar í mánuðinum til þess að ræða við fjárfesta og kynna fyrir þeim styrk íslensks efnahagslífs. Enda sé umfjöllun, líkt og nú ríður yfir íslenskt fjármálalíf, ekki ný af nálinni því árið 2006 hafi svipað ástand verið uppi þegar „Íslandsálagið" var ofarlega í huga margra á alþjóðlegum fjármálamörkuðum. 

Geir segir í viðtalinu við FT að ástandið nú sé ekki sambærilegt. Þá var vandamálið bundið við Ísland en nú sé ástandið slæmt á alþjóðlegum fjármálamörkuðum. Ísland hafi fengið viðvörun árið 2006 og síðan þá hafi verið stigin stór skref í að bæta stöðuna. En skuldatryggingarmarkaðurinn virðist hins vegar ekki hafa neinn áhuga á því hvernig fjármögnunin sé á Íslandi.  „það lifir sjálfstæðu lífi nú," segir Geir.

Ísland risavaxinn vogunarsjóður

Greinendur segja að skuldatryggingarálag íslensku bankanna, Glitnis, Kaupþings og Landsbankans, hafi hækkað jafn mikið og raun ber vitni vegna þeirrar hættu sem vofir yfir þeim - ekki síst vegna lántöku þeirra á alþjóðlegum mörkuðum til þess að fjármagna gríðarlega útþenslu þeirra. Nú sé staðan önnur á lánsfjármarkaði og erfiðara fyrir þá að fá fé að láni.

Segir í FT að fólk sé jafnvel farið að tala um Ísland sem risavaxinn vogunarsjóð í ljósi þess hvernig hlutirnir ganga fyrir sig hér.

Samkvæmt skilgreiningu á vef Kaupþings er vogunarsjóður: sjóður, sem með því að uppfylla ákveðin lagaleg skilyrði, fellur ekki undir hefðbundnar lagalegar takmarkanir um fjárfestingastefnu (fjárfestavernd) og getur því fjárfest í ríkara mæli, en venjulegir verðbréfasjóðir, með margvíslegum fjárfestingaraðferðum s.s. skortstöðum, skuldsetningu og afleiðum en venjulegir verðbréfasjóðir. 

Yfirmenn íslensku bankanna eru að sögn FT mjög ósáttir enda skuldatryggingarálag bankanna oft hærra heldur en hjá fyrirtækjum sem markaðurinn hefur lítið sem ekkert álit á. Allir bankarnir voru með skuldatryggingarálag í kringum 30 punkta í júlí á síðasta ári en nú er skuldatryggingarálag Landsbankans 469 punktar, Glitnis 664 punktar og Kaupþings 706 punktar.  Þetta þýðir að þú greiðir 706.100 evrur á hverju ári í tryggingu af 10 milljóna evru skuldabréfi Kaupþings til fimm ára. 

William Symington, hjá Glitni, segir þetta gjörsamlega út í hött. Ekki séu það íslensku bankarnir sem neyddust til þess að afskrifa milljarða vegna undirmálslána og í raun hafi þeir ekki þurft að afskrifa neitt. 

Grein Financial Times í heild 

mbl.is

Bloggað um fréttina

  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK