Áhættuflótti grefur undan gengi íslensku krónunnar

Frá aðalfundi Kaupþings í gær.
Frá aðalfundi Kaupþings í gær. mbl.is/Kristinn

Metvelta var á mjög sveiflukenndum gjaldeyrismarkaði í gær og hélt gengi krónunnar áfram að lækka. Nam gengislækkunin 1,2% og kemur hún í kjölfar 1,7% lækkunar á fimmtudag. Veltan nam 88,2 milljörðum króna og hefur aldrei verið meiri á einum degi.

Náði gengisvísitalan um tíma 137,5 stigum í gær, sem samsvarar um 2,9% lækkun frá upphafsgildi hennar, en fara þarf aftur til ársins 2002 til að finna sambærilegt gildi vísitölunnar. Lokagildi vísitölunnar var 135,1 stig en talið er að krónan muni halda áfram að lækka í næstu viku.

Ingólfur Bender, forstöðumaður greiningardeildar Glitnis, segir lækkun gengisins m.a. eiga sér rætur í því að vaxtamunur við útlönd hafi verið að skreppa saman vegna breytinga á markaði fyrir gjaldeyrisskiptasamninga. Þá hafi almennur áhættuflótti einkennt gjaldeyrismarkaði í heiminum undanfarna daga. Hávaxtamyntir eins og íslenska krónan hafi lækkað töluvert en gengi gjaldmiðla eins og japanska jensins hafi hækkað.

„Vaxtamunur við útlönd hefur minnkað undanfarið vegna skorts á fjármagni að utan en hann kemur til vegna margumtalaðrar lánakreppu í heiminum. Þessi skortur veldur því að gengi krónunnar lækkar, með öðrum orðum hækkar verð á erlendum gjaldeyri.“ Ingólfur segir gjaldeyrisskiptasamninga hafa verið í skrýtnu ástandi í fleiri löndum en Íslandi og í sumum tilvikum hafi seðlabankar viðkomandi landa gripið inn í. „Þetta hefur ekki gerst hér á landi og er hugsanlegt að skýringarinnar sé að leita í slakri gjaldeyrisstöðu Seðlabanka Íslands.“

Ingólfur segir að hin mikla velta sem var á millibankamarkaði í gær hafi ekki komið til vegna þess að erlendir aðilar hafi verið að innleysa svokölluð krónubréf eða að losa sig við krónur í miklum mæli. „Þetta eru að mestu leyti viðskipti íslensku bankanna sín á milli og segja má að sömu krónurnar hafi þarna skipt um eigendur mörgum sinnum.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK