Spá stýrivaxtalækkun í nóvember

Seðlabankinn mun hefja stýrivaxtalækkunarferli sitt í nóvember en ekki á fyrsta fjórðungi næsta árs, segir í stýrivaxtaspá Landsbankans sem birt var í morgun.

Þar sem alþjóðlega lánsfjárkreppan og mikil skuldsetning fái stýrivextina til að virka sem aldrei fyrr, megi telja líklegt að óbreyttir stýrivextir geti valdið meiri efnahagssamdrætti en Seðlabankinn hafði gert ráð fyrir næstu árin. 

Í spánni segir jafnframt, að þar sem verulega hafi dregið úr verðbólguvæntingum næstu mánuði, sé hætta á víxlverkun launa og verðlags minni en áður enda leggi Seðlabankinn ofurkapp á að koma í veg fyrir að það gerist.

Gert er ráð fyrir að atvinnulausum fjölgi um 2.000 manns, fram að áramótum og það ásamt ásættanlegri gengisþróun krónu og lækkuðu fasteignaverði geti dregið úr verðbólgu. Það ásamt hverfandi viðskiptahalla við útlönd gefi Seðlabankanum færi á að lækka stýrivexti fyrr en ella. Því verði ekki nauðsyn á að bíða fram yfir kjarasamninga líkt og Seðlabankinn hafði reiknað með.

Hins vegar sé skiljanlegt að hik sé að Seðlabankamönnum í ljósi þess að þeir sparifjáreigendur, sem hafa reynt að ávaxta fé sitt með óverðtryggðum, íslenskum vöxtum hafa fengið neikvæða ávöxtun síðustu fjóra mánuði, þ.e. sparifé þeirra hefur rýrnað.

Að lokum segir:

„Við gerum hins vegar ráð fyrir að verðbólga lækki mjög hratt á næstu mánuðum og að raunstýrivextir hækki svo um munar. Gangi spá Seðlabankans sjálfs eftir um stýrivexti og verðbólgu á fyrsta fjórðungi 2009 verða raunstýrivextir á tímabilinu 10-15% á ársgrundvelli. Við teljum ekki að svo mikil aðhaldssemi sé æskileg í núverandi efnahagsástandi og reiknum með að bankinn lækki vexti í nóvember.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK