Verðbólgan 14,5%

Þegar mæling vísitölunnar fór fram í ágúst var útsölu á …
Þegar mæling vísitölunnar fór fram í ágúst var útsölu á fötum og skóm að mestu lokið mbl.is/Valdís Þórðardóttir

Vísitala neysluverðs  hækkaði um 0,9% í ágúst frá fyrra mánuði. Vísitala neysluverðs án húsnæðis hækkaði einnig um 0,9% frá júlí. Síðastliðna tólf mánuði  hefur vísitala neysluverðs hækkað um 14,5% en vísitala neysluverðs án húsnæðis um 14,6%. Verðbólgan hefur ekki mælst jafn mikil í 18 ár eða frá júlí 1990 er hún var 15,5%. Er þetta minni hækkun vísitölunnar heldur en greiningardeildir bankanna spáðu en spá þeirra hljóðaði upp á 1-1,1% hækkun á milli mánaða.

Greiningardeildir Kaupþings og Glitnis spáðu 1,1% hækkun vísitölu neysluverðs í ágúst en greiningardeild Landsbankans spáði 1% hækkun vísitölunnar.

Bensín og olía lækkan en fatnaður og matur hækka

Samkvæmt frétt á vef Hagstofu Íslands lækkaði verð á bensíni og olíum um 3,9% (vísitöluáhrif -0,2%) en verð á mat og drykkjarvörum hækkaði um 1,8% (0,23%). Sumarútsölum er að ljúka og hækkaði verð á fötum og skóm um 4,7% (0,19%).

Kostnaður vegna eigin húsnæðis lækkaði um 0,3% (-0,06%). Þar af voru áhrif af lækkun markaðsverðs -0,11% en áhrif af hækkun raunvaxta voru 0,05%. Þá hækkaði verð á efni til viðhalds húsnæðis um 6,3% (0,25%).

Þriggja mánaða verðbólga 11,5%

Undanfarna þrjá mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 2,8% sem jafngildir 11,5% verðbólgu á ári (10,9% fyrir vísitöluna án húsnæðis).

Greiningardeild Landsbankans telur að 12 mánaða verðbólga nái hámarki í ágúst en að hratt dragi úr verðhækkunum þegar útsölulok eru gengin yfir og krónan hefur brotist úr gengislækkunarfasa síðustu mánaða. Greiningardeildin á von á því að verðbólga mælist 12% frá upphafi til loka þessa árs.

Greining Glitnis á von á því í  september að vísitala neysluverðs hækki hraustlega á milli mánaða en á þó von á að árshækkun vísitölunnar taki að minnka lítillega milli mánaða og að verðbólgan verði ríflega 12% í upphafi næsta árs.

Greiningardeild Kaupþings telur að gera megi ráð fyrir að vísitala neysluverðs hækki áfram næstu þrjá mánuði en ef gengi krónunnar staðnæmist mun töluvert hægja á verðbólgunni í framhaldinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK