Viðskiptahallinn ástæðan

Viðskiptahallinn við útlönd skýrir að mestu þá miklu lækkun sem hefur orðið á gengi krónunnar í dag. Hann skýrir einnig að hluta lækkun Úrvalsvísitölunnar, að sögn Lúðvíks Elíassonar, sérfræðings hjá greiningardeild Landsbankans. Viðskiptahallinn var 128,1 milljarður króna á öðrum ársfjórðungi, samkvæmt tölum sem Seðlabanki Íslands kynnti síðdegis í gær. Gengi krónunnar hefur lækkað um 2,4% það sem af er degi. Úrvalsvísitalan hefur lækkað um tæplega 1,8%.

Lúðvík segir að veiking krónunnar hefði væntanlega verið mun meiri í morgun ef ekki hefði verið tilkynnt um 13 milljarða króna krónubréfaútgáfu Rabobank.

Hann segir að það sé gott að sjá að vöruskiptin eru að ná jafnvægi á öðrum ársfjórðungi og þjónustujöfnuður. Hann segir athyglisvert að Seðlabankinn bendi á í tilkynningu, sem hann sendi út í gær um viðskiptahallann, að heimtur á skýrslum frá þeim aðilum sem ber að upplýsa bankann um erlend viðskipti hafi batnað að undanförnu en samt er nokkuð um að þær berist seint.

„Slíkt hamlar vinnslu við uppgjör greiðslujafnaðar og erlendrar stöðu og dregur úr nákvæmni og upplýsingagildi uppgjöranna. Hvetur Seðlabankinn þá sem skila eiga skýrslum um erlend fjármagnsviðskipti og stöðu eigna og skulda til að gera enn betur," samkvæmt tilkynningu Seðlabanka Íslands.

Meira um að tap sé flutt heim heldur en hagnaður

„Þetta bendir til þess að seðlabankinn taki ekki fullt mark á þessum tölum sjálfur. Það virðist vera miklu meira um það að menn færi heim tap af erlendri eign en ekki hagnaðinn. Þannig að það skekkir þetta örugglega heilmikið. Eins virðist vanta miklar upplýsingar um vaxtatekjur af lánum erlendis sem hafa verið veitt. Þannig að vaxtajöfnuðurinn er mjög skakkur, það er vaxtagjöldin eru sextíu milljarðar umfram vaxtatekjurnar.

Þetta hvortveggja kemur mjög á óvart og eru miklu stærri tölur en við áttum von og bendir til þess að þetta sé meginskýringin á að þeir hvetja menn til að skila skýrslum. Það er þeir eru ekki með þær upplýsingar sem til þarf. En þetta er hrikalegt þegar svona tölur koma út og hefur mjög neikvæð áhrif eins og við sjáum á krónunni," segir Lúðvík.

Að sögn Lúðvíks skýrir einnig lækkun á Wall Street sem og á öðrum hlutabréfamörkuðum lækkun á íslenskum hlutabréfamarkaði í dag auk viðskiptahallans.

Í Morgunkorni Glitnis kemur fram að aukning vaxtagjalda um 60% á einu ári sé nokkurt áhyggjuefni, en vaxtagjöld vegna erlendra skulda voru alls 108 ma.kr. á fjórðungnum.

„Þó ber að geta þess að vaxtatekjur hafa líka vaxið hratt og námu þær 48 mö.kr. í fjórðungnum, sem jafngildir 50% aukningu frá sama tíma í fyrra. Mismunur á vaxtatekjum og ¿gjöldum endurspeglar mismunandi samsetningu erlendra eigna og skulda, þar sem áhættufjármagn er mun stærri hluti erlendra eigna en skulda.

Talsverður hluti aukningarinnar á báðum hliðum vaxtajafnaðar er raunar til kominn vegna gengislækkunar krónu, sem hækkar að krónutölu höfuðstól eigna og skulda í erlendri mynt. Gengi krónu var tæplega 30% lægra í júnílok en á sama tíma í fyrra," að því er segir í Morgunkorni Glitnis.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK