Mun skipta miklu máli fyrir Kaupþing

„Ég er ekki í vafa um að þessi kaup munu skipta miklu máli fyrir Kaupþing. Bankar og fjármálafyrirtæki út um allan heim hafa legið utan í mönnum í Katar með það fyrir augum að fá þá inn sem hluthafa. Það gefur því góða mynd af styrk Kaupþings að Sheikh Mohammed [Bin Khalifa Al-Thani] skuli kaupa hlut í bankanum,“ segir Ólafur Ólafsson, aðaleigandi Eglu hf., sem á tæplega tíu prósenta hlut í Kaupþingi, um kaup Q Iceland Finance ehf. á rúmlega fimm prósenta hlut í Kaupþingi.

Félagið er í eigu Sheikh Mohammed sem er í konungsfjölskyldunni í Katar sem farið hefur með völd þar frá því á 19. öld. Ólafur og Sheikh Mohammed hafa þekkst í þrjú ár. Sá síðarnefndi á rúmlega tólf prósenta hlut í matvælafyrirtækinu Alfesca sem Egla, félag Ólafs, á tæplega 40 prósenta hlut í.

Alls keypti Q Iceland 37,1 milljón hluti í Kaupþingi á genginu 690. Andvirði hlutanna er um 25,5 milljarðar króna.

Kaupin hafa átt sér nokkurn aðdraganda en viðræður hafa staðið yfir í nokkra mánuði.

Miklir fjármagnsflutningar hafa átt sér stað til Mið-Austurlanda samfara miklum verðhækkunum á olíu undanfarin ár. Heimsmarkaðsverð á olíu hefur hækkað gríðarlega frá árinu 2003 en þá kostaði fatið af olíu 25 dollara en fór hæst í 147 dollara í júlí á þessu ári. Síðan hefur verðið fallið nokkuð en er ennþá hátt.

Konungsfjölskyldan í Katar hefur notið góðs af auknum tekjum í olíuiðnaði og jarðgasvinnslu. Á milli fimmtán og sautján prósent af jarðgasvinnslu heimsins eru í Katar en í landinu búa rúmlega 800 þúsund manns.

Ólafur segir mikilvægt að íslensk fyrirtæki geti sýnt að þau séu tilbúin að vinna með erlendum fjárfestum. „Það hefur tekist hjá Kaupþingi að fá góða erlenda fjárfesta inn í hópinn og það mun skipta sköpum í framtíðinni.“

mbl.is

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir