Baksvið: Gömlu einkabankarnir ríkisvæðingu að bráð

Friðrik Tryggvason

Á þeim rösku18 árum sem liðin eru frá því að Íslandsbanki, síðar Íslandsbanki FBA og loks Glitnir, varð til með sameiningu einkabankanna Verslunarbanka, Iðnaðarbanka, Alþýðubanka og ríkisbankans Útvegsbanka hefur iðulega gustað um hann, oftast þó vegna átaka um eignarhald á bankanum. Hins vegar má segja að ríkisvæðing bankans nú komi flestum í opna skjöldu enda ekki langt síðan að forsvarsmenn bankans töldu sig hafa tryggt sér fjármögnun, a.m.k. langt fram á næsta ár.

Hér á eftir verður stiklað á stóru í viðburðaríkri sögu bankans eins og hún hefur birst í fréttum Morgunblaðsins og fréttavefjarins mbl.is:

4. janúar 1990 - Valur Valsson, formaður bankastjórnar Íslandsbanka, afgreiddi fyrsta viðskiptavin bankans, Jóhannes Stefánsson veitingamann, í afgreiðslunni í Húsi verslunarinnar í gærmorgun. Á milli þrjú og fjögur hundruð starfsmenn komu saman fyrir utan aðalstöðvarnar í gær á fyrsta starfsdegi Íslandsbanka þar sem Valur Valsson, Ásmundur Stefánsson, formaður bankaráðs og Jón Sigurðsson, viðskiptaráðherra fluttu stutt ávörp. Að því loknu var haldin flugeldasýning og merki bankans tendrað til merkis um að Íslandsbanki hefði tekið formlega til starfa.

10 júní 1995 - Starfsmenn í stoðdeildum Íslandsbanka hf. eru þessa dagana að koma sér fyrir í nýjum höfuðstöðvum bankans á Kirkjusandi. Fyrstu deildir fluttu inn um páskana og var sá tími jafnframt notaður til að flytja tölvukerfi bankans. Síðan hefur hver deildin af annarri flutt inn og Valur Valsson bankastjóri flutti síðan sjálfur í nýju höfuðstöðvarnar um miðjan maí. Valur sagði að allir kynnu mjög vel við sig.

„Þetta er gott hús og staðsetningin er þægileg." Aðeins fimm mánuðir eru liðnir frá því samningurinn um eignarskiptin var undirritaður. Húsinu hefur verið breytt mikið á þeim tíma vegna þarfa bankans og hefur verkið gengið mjög vel. Því er lokið á þremur af fimm hæðum hússins og allar áætlanir hafa staðist. Flutningar í húsið standa ennþá yfir og lýkur fyrri áfanga þeirra helgina 23.-25. júní en þá verða allar stoðdeildir nema lögfræðideildin fluttar inn.

Seinni áfangi flutninganna verður í haust og þá flytja starfsmenn Verðbréfamarkaðs Íslandsbanka hf. og Glitnis hf. „Þar með verður Kirkjusandur orðinn sannkölluð fjármálamiðstöð," sagði Valur.

7. september 1996 - Búist er við að á næstu vikum dragi til tíðinda í umræðum innan stjórnkerfisins og meðal hagsmunaaðila í sjávarútvegi og iðnaði um uppstokkun á fjárfestingarlánasjóðakerfinu. Svo virðist sem samstaða hafi tekist milli stjórnvalda og iðnaðarins um að steypa Iðnlánasjóði, Iðnþróunarsjóði og Fiskveiðasjóði í einn fjárfestingarbanka, sem veiti langtímalán til atvinnulífsins. Í tengslum við sameininguna verði varið 40% eiginfjár sjóðanna til að setja á stofn nýsköpunarsjóð. Þykja mestar líkur á að þetta verði niðurstaðan.

Fulltrúar sjávarútvegs eru þessu hins vegar andvígir og þrýsta á um að látið verði nægja að breyta sjóðunum í hlutafélög. Þeir hafa ekki dregið dul á þá skoðun sína að þessi lánastarfsemi sé betur komin innan viðskiptabankanna. Til stóð að halda fund stjórnvalda og hagsmunaaðila þann 23. ágúst sl. til að komast að endanlegri niðurstöðu en honum var frestað og er nú beðið eftir næsta útspili þeirra þriggja ráðherra sem um málið hafa fjallað.

2. október 1997 - Fjárfestingabanki atvinnulífsins verður fyrirferðarmikill á íslenskum fjármagnsmarkaði þegar hann tekur til starfa um næstu áramót eftir samruna Fiskveiðasjóðs, Iðnlánasjóðs, Iðnþróunarsjóðs og Útflutningslánasjóðs. Fullvíst þykir að hinn ungi og metnaðarfulli forstjóri bankans, Bjarni Ármannsson, muni ekki að láta staðar numið við þá lánastarfsemi sem nú fer fram í sjóðunum. Bankinn muni færa út kvíarnar í öllum atvinnugreinum og bjóða nýja fjármálaþjónustu. Má gera ráð fyrir að bæði bankar og sparisjóðir standi innan fárra missera andspænis skæðum keppinaut sem höggvi skörð í núverandi viðskipti þeirra. Líkur benda til að þetta knýji mjög á um frekari uppstokkun í bankakerfinu.

24. mars 1998 - Kristján Ragnarsson, formaður bankaráðs Íslandsbanka, segir að sjálfsagt sé að skoða alla kosti sem geti leitt til hagræðingar í bankakerfinu, jafnt sameiningu Íslandsbanka við Landsbankann sem og sameiningu við Búnaðarbankann sem áður hefur verið rætt um. Þörf sé á djörfum, pólitískum ákvörðunum til að stjórnvöld glati ekki því tækifæri sem þau hafi til að styrkja og bæta íslenska bankakerfið.

14 ágúst 1998 - Bankaráð Íslandsbanka hf. ákvað á fundi sínum í gær að gera ríkisstjórninni kauptilboð í öll hlutabréf ríkissjóðs í Búnaðarbanka Íslands hf. Var tilboðið kynnt viðskiptaráðherra á fundi kl. 14.30 í gær. Kauptilboðið hljóðar upp á átta milljarða króna, en nafnvirði bréfanna er 3,5 milljarðar kr.

Stjórnendur bankans hyggjast fjármagna hlutafjárkaupin með útgáfu nýs hlutafjár á innlendum markaði. Tilgangur bankans með kaupunum er að sameina rekstur þessara tveggja banka í einn og telja stjórnendur bankans að með slíkri sameiningu megi lækka heildarrekstrarkostnað um allt að 15%, eða um nær einn milljarð króna.

29. ágúst 1998 - Ríkisstjórnin ákvað á fundi sínum í gær að hætta viðræðum við sænska SE-bankann um kaup á eignarhlut í Landsbanka Íslands hf. Jafnframt var tilboði Íslandsbanka í Búnaðarbanka Íslands hf. hafnað og viðræðum við sparisjóðina um kaup á Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hætt. Þá var ákveðið að gefa út 15% nýtt hlutafé í ríkisviðskiptabönkunum og selja það almenningi og leita eftir heimild Alþingis til að selja allt hlutafé í Fjárfestingarbankanum, en sjálfstæði hans sem samkeppnisaðila á íslenskum samkeppnismarkaði verði tryggt.

Valur Valsson, bankastjóri Íslandsbanka segir Íslandsbanka harma niðurstöðu ríkisstjórnarinnar að hafna tilboði bankans í Búnaðarbanka Íslands og augljóst sé að um pólitíska ákvörðun sé að ræða. „Það er mikil þörf á hagræðingu í íslenska bankakerfinu ef það á að standast erlenda samkeppni á komandi árum.

28. nóvember 1998 - Hlutabréf Fjárfestingarbanka atvinnulífsins voru skráð á Aðallista Verðbréfaþings Íslands í gær. Skráð hlutafé er 6.800 milljónir króna. Sama dag tilkynnti Kaupþing hf. að eignarhlutur félagsins í Fjárfestingarbankanum næmi um 9% og að Kaupþing réði yfir um 14% af heildaratkvæðamagni bankans, það er að Kaupþing fer með umboð 5% hlutafjár FBA fyrir aðra hluthafa. Jafnframt tilkynnti Búnaðarbanki Íslands til Verðbréfaþings að eignarhlutur Fjárfestingarsjóðs Búnaðarbankans, ÍS-15, væri 5-6% af heildarhlutafé FBA.

Fyrr á þessu ári lýstu sparisjóðirnir og Kaupþing, sem er í eigu sparisjóðanna, yfir áhuga á að kaupa Fjárfestingarbanka atvinnulífsins með það að markmiði að sameina FBA og Kaupþing. Að sögn Sigurðar Einarssonar, forstjóra Kaupþings, lýstu sparisjóðirnir og Kaupþing því yfir þegar útboð á 49% hlut í FBA var tilkynnt, að hlutabréfakaup í bankanum væru mjög góður fjárfestingarkostur á því verði sem bankinn var boðinn til sölu á. "Sem segir í sjálfu sér það eitt að við vorum tilbúnir að bjóða hærra verð fyrir allan bankann. Því þurfa menn í sjálfu sér ekki að vera undrandi yfir því að við keyptum þessi hlutabréf," segir Sigurður.

28. desember 1998 - Scandinavian Holding S.A hefur keypt hlut Kaupþings og SPRON í Fjárfestingarbanka atvinnulífsins og ræður nú 21% hlutafjár í bankanum. Scandinavian Holding S.A er eignarhaldsfélag í Lúxemborg og er í eigu Kaupþings og sjö sparisjóða.

Hlutur Kaupþings hf. var að nafnverði 476 milljónir króna eða 7% í FBA, og hlutur SPRON var 671,5 milljónir króna eða 9,9%. Samtals hefur Scandinavian Holding S.A. því keypt hlut að nafnvirði 1.147.500.000 króna, eða 16,9% af heildar hlutafé bankans, og að auki hefur félagið atkvæðisrétt yfir 4,1% af heildar hlutafé bankans. Samtals hefur félagið því atkvæðisrétt yfir 21%.

Scandinavian Holding S.A. er lúxemborgískt eignarhaldsfélag í vörslu Kaupthing Luxembourg S.A. Hluthafar í Scandinavian Holding S.A. eru: Kaupþing hf., Sparisjóður Hafnarfjarðar, Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis, Sparisjóður Vélstjóra, Sparisjóðabanki Íslands hf., Sparisjóður Mýrarsýslu, Sparisjóðurinn í Keflavík og Sparisjóður Siglufjarðar.

4. ágúst 1999- Eignarhaldsfélagið Orca S.A., sem skráð er í Lúxemborg, hefur keypt hlutabréf í Fjárfestingarbanka atvinnulífsins að nafnverði um 1,8 milljarðar króna, að því er fram kemur í tilkynningu til Verðbréfaþings Íslands. Orca S.A. keypti hlutabréf að nafnverði kr. 1.503.000.000 af Scandinavian Holdings S.A., fyrirtæki í eigu Kaupþings og sparisjóðanna, en það hafði stofnað sérstakt eignarhaldsfélag um hlutabréf sín í FBA. Orca S.A. keypti auk þess hlutabréf að nafnverði 300 milljónir króna en ekki kemur fram hver seljandinn að þeim var. Eftir viðskiptin ræður Orca S.A. yfir 26,5% af heildarhlutafé FBA en eignarhlutur Scandinavian Holding í FBA er enginn.

Fjármálaeftirlitið bíður upplýsinga um Orca

„Okkur er kunnugt um að þessi viðskipti hafa átt sér stað en við höfum ekki upplýsingar um það ennþá hverjir eigendur Orca eru. Það er okkar mat að við eigum að fá þær upplýsingar en svo ber okkur að gæta trúnaðar um þær," segir Páll G. Pálsson, forstjóri Fjármálaeftirlitsins. Samkvæmt lögum um lánastofnanir, aðrar en viðskiptabanka og sparisjóði, og með vísan til laga um viðskiptabanka og sparisjóði ber eigendum sem hyggjast eignast virkan eignarhlut í lánastofnun að tilkynna um það til Fjármálaeftirlitsins.

„Ástæða þess er að Fjármálaeftirlitinu er ætlað að meta hvort eigendur séu hæfir til að eiga stóran hlut í þeim fyrirtækjum sem Fjármálaeftirlitið hefur eftirlit með, auk þess sem það er að öðru leyti nauðsynlegt í eftirlitinu að búa yfir þessari vitneskju," segir Páll.

4. ágúst 1999 - Eignarhaldsfélagið Orca S.A. í Lúxemborg hefur keypt dótturfyrirtæki Scandinavian Holding S.A. í Lúxemborg, sem á 22,1% hlutafjár í Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf. Jafnframt hefur Orca S.A. keypt viðbótarhlutafé í FBA og nemur hlutur þess í bankanum nú 26,5%. Scandinavian Holding er í eigu sparisjóðanna, Kaupþings og Sparisjóðabankans.

Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins eru helztu eigendur Orca S.A. eða væntanlegir eigendur, þar sem í sumum tilvikum hefur ekki verið gengið endanlega frá eignaraðild, Samherji hf. á Akureyri eða helztu forsvarsmenn þess, Jón Ólafsson, stjórnarformaður Norðurljósa hf., Pétur Björnsson, fyrrverandi aðaleigandi Vífilfells hf., Jón Ásgeir Jóhannesson og Jóhannes Jónsson, helztu hluthafar í Baugi hf., og fleiri aðilar.

Verðmæti hlutar Orca S.A. miðað við markaðsverð FBA á verðbréfaþingi nemur rúmlega fimm milljörðum króna. Íslenzka ríkið er stærsti hluthafinn í FBA og nemur eignarhluti þess 51%. Aðrir stórir eignaraðilar að FBA eru sparisjóðirnir.

14. ágúst 1999 - Guðmundur Hauksson, sparisjóðsstjóri og stjórnarformaður Scandinavian Holding, telur að umræða sem skapast hefur um sölu sparisjóðanna í hlut þeirrar í FBA til Orca SA beri talsverðan keim af því að menn átti sig ekki á því hvaða lögmál gildi eftir að búið er að setja fyrirtæki á markað og viðskipti með hlutabréf þeirra eru orðin frjáls. Hann segir að sparisjóðirnir hafi talið að of mikil áhætta fylgdi því að eiga stóran hlut í FBA þegar engin skýr svör fengust frá ríkisstjórninni um næstu skref í einkavæðingu bankans.

2. nóvember 1999 - Fjárfestarnir 26 sem tilkynntu þátttöku til framkvæmdanefndar um einkavæðingu vegna sölu ríkisins á 51% hlut í Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hafa tekið sölutilboði framkvæmdanefndarinnar á genginu 2,8. Samtals er um að ræða hlutabréf að nafnverði 3.468 milljónir króna eða að kaupverði 9.710,4 milljónir króna. Þetta eru því stærstu einstöku hlutabréfaviðskipti á Íslandi hingað til. Meðal kaupenda eru 7 lífeyrissjóðir, 10 félög, forstjóri og framkvæmdastjórar FBA og fjórir aðrir einstaklingar auk bankans sjálfs.

Stærstu hluthafar í FBA með 7%

Í fréttatilkynningu kemur fram að í framhaldi af kaupunum munu eigendur Orca S.A. skipta upp hlutabréfum sínum þannig að þeir verði beint hluthafar í FBA eins hratt og þeim er kostur. Þangað til af því getur orðið munu hluthafar í Orca fara beint með atkvæði sín á hluthafafundum í FBA, þ.e. í samræmi við sinn eignarhlut. Eignarhlutur Orca S.A. er nú 28%. Eftir þessi viðskipti munu stærstu hluthafar í FBA hver um sig fara með um 7% atkvæðisrétt í félaginu. Ekki hefur verið óskað eftir hluthafafundi í bankanum.

17. nóvember 1999 - Með sölunni á 51% eignarhlut ríkisins í Fjárfestingarbanka atvinnulífsins er í höfn umfangsmesta einkavæðing og stærstu einstöku hlutabréfaviðskipti sem fram hafa farið hér á landi til þessa. „Menn önduðu léttar á markaðinum, þegar þeir sáu að þetta fékk farsælan endi. Þetta mál var farið að trufla markaðinn og atburðarásin gat sett öll einkavæðingaráform ríkisins í biðstöðu. Það var gríðarlega mikið í húfi fyrir ríkið," sagði einn viðmælenda blaðsins á fjármálamarkaði.

Aðdragandi þessara viðskipta var þrunginn spennu, allt frá því hinar harðvítugu deilur komu upp í ágúst vegna sölu á 22,5% hlut sparisjóðanna og Kaupþings í FBA til eignarhaldsfélagsins Orca SA. Flestir virðast vera sammála um að niðurstaðan hafi orðið farsælli og hagstæðari en útlit var fyrir í haust, ríkið fékk hámarksverð fyrir hlutinn, samstaða náðist um myndun stórs hóps kaupenda og eignaraðild bankans er dreifð, a.m.k. nú að aflokinni frumsölu. Komnir eru fram á sjónarsviðið tveir stórir einkabankar á Íslandi í stað eins áður.

4. apríl 2000 - Bankaráð Íslandsbanka og FBA samþykktu í fyrrakvöld samning um að leggja til við hluthafafundi félaganna að þau verði sameinuð með skiptahlutfallinu Íslandsbanki 51% og FBA 49%. Samruninn verður með þeim hætti að stofnað verður nýtt félag undir nafninu Íslandsbanki-FBA hf. með tvær meginstarfseiningar, fjárfestingarbankastarfsemi og viðskiptabankastarfsemi.

Sameinað félag tekur við öllum rekstri, eignum, skuldum og skuldbindingum bankanna tveggja. Hluthafar í hvorum banka fá sem gagngjald fyrir bréf sín hlutabréf í hinu sameinaða félagi. Íslandsbanki-FBA hf. verður skráður á Verðbréfaþingi Íslands og verður stærst fyrirtækja sem þar eru skráð.

Vörumerki bankanna munu halda sér og að sögn Vals Valssonar, bankastjóra Íslandsbanka, er ætlunin að nýta þau verðmæti sem felast í vörumerkjunum en ekki að leggja út í nýja markaðssetningu.

Starfsemi bankanna mun flytjast í höfuðstöðvar Íslandsbanka á Kirkjusandi þegar þar að kemur.

9. júní 2001 - Starfsmönnum Íslandsbanka-FBA var kynnt á fundi síðdegis í gær að ákveðið hefði verið að breyta nafni fyrirtækisins og um leið merki þess. Eftir breytingarnar heitir bankinn Íslandsbanki hf.

Valur Valsson, bankastjóri Íslandsbanka, segir að undanfarna mánuði hafi verið unnið að nýrri stefnumótun fyrir bankann og þar á meðal hafi nafn og vörumerki verið endurskoðað.

„Nafnið Íslandsbanki-FBA þjónaði sínu hlutverki þegar sameiningin átti sér stað en menn hafa óneitanlega fundið til þess, bæði innan lands og utan, að nafnið er óþjált," segir Valur. „Því var ákveðið að stytta það og nota nafnið Íslandsbanki sem er vel kynnt og nýtur trausts og álits.

Jafnframt var merki bankans endurskoðað og það einfaldað og stílfært og öðlast þannig nýjan og ferskan blæ."

28. ágúst 2002 - Gengið hefur verið frá samkomulagi milli Íslandsbanka og sex hluthafa sem flestir tengjast svokölluðum Orca-hópi um kaup bankans á eignarhlut hluthafanna í Íslandsbanka, samtals 21,78% af skráðu hlutafé. Umfang viðskiptanna nemur um 11,3 milljörðum króna, og hyggst bankinn selja hlutinn áfram til stofnanafjárfesta, svo sem lífeyrissjóða, í smærri hlutum.

Seljendur hlutafjárins eru félög sem tengjast Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, stjórnarformanni Baugur Group, og Þorsteini Má Baldvinssyni, forstjóra Samherja, með einum eða öðrum hætti, en þeir eru meirihlutaeigendur í FBA Holding sem á stærstan hlut í Íslandsbanka af félögunum sex. Íslandsbanki hefur einnig gert samkomulag við fimm félög, sem einnig tengjast þeim Jóni Ásgeiri og Þorsteini Má að verulegu leyti, um kaup bankans á öllum eignarhlutum félaganna fimm í Fjárfestingarfélaginu Straumi. Umfang þeirra viðskipta nemur um tveimur milljörðum króna.

6. janúar 2003 - Átakamesta og oft dramatískasta viðskiptastríð, sem háð hefur verið í íslensku viðskiptalífi í áratugi, var að mestu leyti háð fyrir luktum dyrum og á bak við tjöldin. Meira og minna fór það framhjá íslensku þjóðinni, undanfarin þrjú ár, að nokkrir menn gerðu ítrekaðar tilraunir til þess að ná á sitt vald Íslandsbanka, með kaupum í bankanum sjálfum og Tryggingamiðstöðinni og Fjárfestingarfélaginu Straumi.

Það fór jafnmikið framhjá íslensku þjóðinni, að því var afstýrt, jafnan á elleftu stundu, að yfirtökuáformin yrðu að veruleika. Það voru áhrifamenn í banka- og viðskiptalífinu sem tóku höndum saman, með vitund og samþykki valdamikilla stjórnmálamanna, til þess að koma í veg fyrir að völd þau og áhrif, sem fylgja því að ráða yfir mörgum tugum milljarða króna í eigu sjóða, banka og almenningshlutafélaga, lentu í höndum Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, Þorsteins Más Baldvinssonar og samstarfsmanna þeirra. Saga þess var rakinn í greinaflokki í Morgunblaðinu.

Baráttan um Íslandsbanka

8. mars 2006 - Greiningardeild verðbréfafyrirtækisins Merrill Lynch, segir í skýrslu um íslenska bankakerfið, að tengsl íslensku bankanna við önnur fyrirtæki á Íslandi og tengsl milli bankanna sjálfra geti aukið á þá kerfislægu áhættu sem sé í íslenska bankakerfinu.

Merrill Lynch segir í skýrslunni, að vissulega hafi bankarnir dreift áhættunni með því að fjárfesta í útlöndum en hættan, sem sé fyrir hendi á íslenska markaðnum, sé alls ekki lítil og hafi í raun aukist með flóknu eignatengslakerfi sem geri það erfitt að leggja mat á hina raunverulegu áhættu.

Bent er á að þeir sem skráðir eru fyrir hlutabréfum í sumum íslenskum félögum séu ekki alltaf hinir raunverulegu eigendur því margir hluthafar hafi gert framvirka samninga við banka eða önnur fyrirtæki. Þannig sé Landsbankinn skráður stærsti einstaki hluthafinn í FL Group. Hins vegar komi fram í yfirlýsingu frá FL Group að Landsbankinn hafi gert framvirka samninga og sé þannig skuldbundinn til að selja 17,87% af heildarhlutafé félagsins.

Einnig er vitnað í upplýsingar frá FL Group um að Baugur Group eigi aðild að framvirkum samningnum sem þýði að félagið eignist 19,24% hlut í FL Group. Baugur beri einnig fjárhagslega ábyrgð á og njóti jafnframt fjárhagslegs ávinnings af 5% hlut sem Landsbankinn tók yfir með skiptasamningi. Þá hafi Íslandsbanki sagt, að hin raunverulega hlutabréfaeign bankans í FL Group sé hverfandi og hluturinn sem bankinn sé skráður fyrir tengist í raun framvirkum samningum við viðskiptavini.

„Við teljum að slíkt fyrirkomulag sé ekki aðeins bundið við FL Group," segir í skýrslu Merrill Lynch.

11. mars 2006 - Íslandsbanki hf. hefur ákveðið að héðan í frá verði þjónusta félagsins veitt undir vörumerkinu Glitnir. Samhliða því hefur bankinn tekið upp nýtt merki og útlit. Munu dótturfélög bankans og skrifstofur í fimm löndum einnig framvegis heita Glitnir. Hið nýja nafn var kynnt í Háskólabíói nú á sjöunda tímanum að viðstöddum um 1.000 starfsmönnum bankans á Íslandi, í Noregi, Danmörku, Bretlandi og Lúxemborg.

Á undanförnum árum hafa orðið umfangsmiklar breytingar á starfsemi bankans og hann breyst úr íslenskum banka í alþjóðlegt fjármálafyrirtæki með starfsemi í fimm löndum. Bankinn skilgreinir Ísland og Noreg sem heimamarkaði en er einnig með starfsemi í London, Lúxemborg og Kaupmannahöfn. Síðar á þessu ári verða opnaðar skrifstofur í Halifax í Kanada og Shanghai í Kína, að því er segir í tilkynningu.

2 maí 2007 - Yfirtökunefnd sendi Fjármálaeftirlitinu (FME) bréf skömmu fyrir hluthafafund Glitnis á mánudag þar sem tilkynnt var að nefndinni hefði ekki borist næg gögn eða vitneskja til að byggja á efnislegri afstöðu um hvort yfirtökuskylda hefði myndast í kaupum nýrra hluthafa meðal helstu eigenda Glitnis.

Hefði nefndin því ákveðið að láta málið niður falla af sinni hálfu en í bréfinu er vísað til þess að FME sé með þessi kaup til áframhaldandi skoðunar og stjórnvaldsákvörðunar.

Í bréfinu segir að öflun gagna og upplýsinga hafi reynst torveld og tímafrek. Þau gögn sem nefndinni hafi borist hafi verið afhent af hálfu Kaupþings, sem hafði milligöngu um viðskiptin. Hafði yfirtökunefnd aðeins tekist að afla munnlegra upplýsinga frá einum af þremur stærstu kaupendum hlutanna, þ.e. Sundi Holding.

Yfirtökunefnd telur nauðsynlegt að vekja athygli FME á hugsanlegri yfirtökuskyldu í málinu. Í því sambandi bendir nefndin á að kveikjan að viðskiptunum með hlutina í Glitni hafi verið krafa stærsta hluthafans, FL Group, um aukin áhrif við stjórnun félagsins. Því sé rík ástæða til að taka til skoðunar, hvort tilkoma nýrra hluthafa tryggi FL Group, sem þó hafi ekki aukið við hlut sinn í viðskiptunum, þess konar yfirráð sem fjallað sé um í lögum um verðbréfaviðskipti. Vekur nefndin sérstaka athygli á því að samkvæmt tilkynningu FL Group og Jötuns Holding hafi félögin gert með sér hluthafasamkomulag, sem afmarki það samstarf, sem þau hyggjast hafa með sér um meðferð eignarhluta þeirra. Einnig liggi fyrir að Glitnir fari með 5,089% hlut í sjálfu sér.

2. maí 2007 - Glitnir banki keypti á mánudag tæplega 235 milljónir hluta í bankanum af tveimur einkahlutafélögum Bjarna Ármannssonar, fráfarandi forstjóra bankans. Samkvæmt tilkynningu til kauphallar var gengi bréfanna í viðskiptunum 29 krónur og hljóðuðu viðskiptin því upp á rúma 6,8 milljarða króna. Lokagengi bréfa bankans í OMX kauphöllinni á mánudag var 26,60 og er mismunurinn um 560 milljónir króna.

Fram kom í fréttum Sjónvarpsins í gærkvöldi, að samkvæmt starfslokasamningi við Bjarna fái hann greidd laun í ár og haldi einnig öllum hlunnindum og árangurstengdum greiðslum eða bónus. Bjarni fær auk þess viðbótargreiðslur sem falla til á þessu ári og næsta en á móti kemur að hann hefur ákveðnum skyldum að gegna við bankann út uppsagnarfrestinn. Þá er honum óheimilt að ráða sig í vinnu annað næsta hálfa árið og takmörk sett hvert hann getur ráðið sig í lengri tíma vegna trúnaðarskyldu við bankann.

Sjónvarpið sagði að í samningum væri einnig ákvæði um að bankinn kaupi hlutabréf Bjarni í Glitni á nokkuð hærra verði en gengið á bréfum í Glitni er núna. Sé starfslokasamningurinn í heild metinn á allt að 800 miljónir króna eftir því hvernig söluverð hlutabréfa sé reiknað.

Á mánudag var jafnframt gerður kaupréttarsamningur við Lárus Welding, nýjan forstjóra Glitnis. Samkvæmt samningnum fær Lárus kauprétt á 150 milljónum hluta í bankanum á genginu 26,60. Kaupréttarsamningurinn er til fimm ára og ávinnast 20% hans á hverju ári á því tímabili.

26. október 2007 - Danski bankinn Roskilde Bank upplýsti í gær að árið 2006 hefði stór fjárfestir keypt 4% hlut í bankanum með það fyrir augum að taka upp samvinnu. Þau viðskipti hefðu hins vegar gengið til baka þegar fjárfestirinn fékk ekki sæti í stjórn Roskilde Bank. Berlingske Tidende segir í dag, að umræddur fjárfestir hafi verið Glitnir.

Berlingske segir, að stjórn Roskilde Bank hafi af eigin frumkvæði byrjað að leita að fjárfesti sl. haust. Niels Valentin Hansen, þáverandi bankastjóri, hafði samband við fjárfestingarbankann Merrill Lynch í Lundúnum og beðið hann um að leita að fjárfesti, sem væri tilbúinn til að kaupa hlut í danska bankanum með langtímahagsmuni í huga.

Meðal þeirra sem sýndu slíku áhuga var Glitnir, sem vildi gjarnan kaupa 5% hlut í Roskilde Bank. Það vildi danski bankinn ekki og á endanum keypti Glitnir 4% hlut fyrir 287 milljónir danskra króna, að sögn Berlingske Tidende. Þessi viðskipti voru ekki tilkynnt þar sem þau voru undir 5% lágmarkinu.

Blaðið segir að Roskilde Bank og Glitnir hafi orðið ásáttir um að eiga samvinnu, aðallega á gjaldeyrismarkaði en einnig á fleiri sviðum. Blaðið hefur síðan eftir Søren Kaare-Andersen, framkvæmdastjóra hjá Roskilde Bank, að umræddur fjárfestir, sem hann vill ekki nefna, hafi breytt um afstöðu í janúar, viljað tilkynna kaupin og fá sæti í stjórn danska bankans. Þegar stjórnendur Roskilde Bank höfnuðu því.

Blaðið hefur eftir Bjørn Richard Johansen, framkvæmdastjóra samskiptasviðs Glitnis, að þar tjái menn sig aldrei um viðskipti í kauphöllinni og heldur ekki um aðrar fjárfestingar fyrr en þær séu frágengnar. Hann staðfestir hins vegar að Glitnir hafi áhuga á danska markaðnum og vilji gjarnan ná þar betri fótfestu.

4. desember 2007 - Jón Sigurðsson, sem verið hefur aðstoðarforstjóri FL Group, hefur tekið við starfi forstjóra félagsins af Hannesi Smárasyni, sem lætur af störfum.

Hannes verður áfram í hópi stærstu hluthafa FL Group og mun taka sæti í stjórn félagsins. Þá er stefnt að því að félag í eigu Hannesar kaupi 23% eignarhlut í Geysi Green Energy af FL Group. Eignarhlutur FL Group í Geysi eftir viðskiptin yrði því 20%.

Selt verður nýtt hlutafé í FL Group fyrir  Þá kemur fram í tilkynningu frá FL Group, að félagið muni fjárfesta í  fasteignafélögum fyrir 53,8 milljarða króna en allar eignirnar eru keyptar af Baugi Group. Félagið eykur hlut sinn í norræna fasteignafélaginu Landic Property úr 2,9% í 39,8%, kaupir 32,3% hlut í Fasteignafélagi Íslands, 49,7% hlut í Þyrpingu, 22,7% hlut í Eik fasteignafélagi og kaupir eignarhluti í alþjóðlegum fasteignasjóðum af Baugi Group.

Kaupin verða fjármögnuð að fullu með útgáfu nýs hlutafjár á genginu 14,7 en síðustu viðskipti með bréfin í Kauphöll Íslands á föstudag voru á genginu 19,25. Í tilkynningu FL Group segir, að í ljósi stærðar útgáfunnar og markaðsaðstæðna hafi það verið niðurstaða stjórnarinnar að útgáfa nýs hlutafjár færi fram á gengi undir markaðsgengi. Jafnframt hafi verið ákveðið að bjóða út nýtt hlutafé til fagfjárfesta og hluthafa á sama gengi.

Þá segir, að í kjölfar kaupanna stefni FL Group að því að selja ákveðinn hluta ofangreindra eigna til Landic Property. Að mestu sé um að ræða alþjóðlega fasteignasjóði og hafi viljayfirlýsing milli FL Group og Landic Property vegna þessa verið undirrituð. Heildarverðmæti þessara viðskipta er um 13,7 milljarðar króna.

4. júlí 2008 - FL Group hefur verið breytt í Stoðir, eignarhaldsfélag, í kjölfar endurskipulagningar á rekstri og fjárfestingastefnu félagsins. Stoðir hafa keypt kjölfestuhlut í Baugi Group fyrir 25 milljarða króna sem greiðast með hlutabréfum í Stoðum. Seljandi hlutarins er Styrkur Invest sem er í meirihlutaeigu Gaums.

Eins og áður sagði er kaupverð hlutarins 25 milljarðar króna og verður greitt fyrir hlutinn með hlutabréfum í Stoðum sem verður í nýjum hlutaflokki B bréfa sem bera ekki atkvæðisrétt. Viðskiptin eru gerð með fyrirvara um áreiðanleikakönnun og samþykki hluthafafundar Stoða sem auglýstur verður síðar.
 
Stoðir með 40% í Baugi

Eftir viðskiptin munu Stoðir fara með tæplega 40% virkan eignarhlut í Baugi auk þess að eiga eignarhlut í B hlutaflokki félagsins sem ekki veitir atkvæðisrétt. Aðrir hluthafar í Baugi eru Kevin Stanford, Don McCarthy, Bague SA og starfsmenn félagsins.  Stærsti hluthafi Stoða er Styrkur Invest.
 
Baugur hefur fyrir þessi viðskipti lokið við sölu allra eigna á Íslandi og mun eftirleiðis leggja alfarið áherslu á fjárfestingar í smásöluverslun í Bretlandi, Norðurlöndum og Bandaríkjunum. Meginhluti starfsemi Baugs verður staðsettur í London. Meðal stærstu fjárfestinga Baugs eru Iceland, House of Fraser, Mosaic Fashions, Hamley´s, Whistles, Goldsmiths, Magasin du Nord, Illum og Saks, að því er segir í tilkynningu.
 
Með kaupum á eignarhlut í Baugi eykst eigið fé Stoða um 25 milljarða króna en nánari upplýsingar um efnahag Stoða verða birtar í uppgjöri félagins fyrir fyrstu sex mánuði ársins 2008 sem kynnt verður þann 29. ágúst nk.

17. september 2008 - Stóru viðskiptabankarnir þrír, Landsbankinn, Kaupþing og Glitnir, hafa flestir lokið endurfjármögnun sinni fyrir þetta ár og eru langt komnir með það næsta. Fjármögnun þessa árs nemur alls 820 milljörðum króna og á næsta ári koma á gjalddaga lán að andvirði um 6,6 milljarða evra, jafnvirði 865 milljarða kr.

Bankastjórar Landsbankans, Sigurjón Árnason og Halldór J. Kristjánsson, segja fjármögnun bankans vera í góðu jafnvægi. Lausafjárstaðan sé sterk og dugi til að mæta öllum skuldbindingum í a.m.k. 12 mánuði. Á þessu ári hefur Landsbankinn tekið lán upp á 1,5 milljarðar evra, jafnvirði um 195 milljarða króna. Fyrir árslok eru 146 milljónir evra á gjalddaga og samtals um 855 milljónir evra á næstu 12 mánuðum.

Sigurjón segir að mjög vel hafi gengið að afla innlána á erlendum mörkuðum og innlánsreikningurinn Icesave leikið þar stórt hlutverk. Viðtökur hafi verið framar vonum og nú sé búið að opna um 400 þúsund reikninga. Hlutfall innlána af útlánum var 63% við lok 2. ársfjórðungs.

Halldór segir það vera mat Landsbankans að aðstæður á erlendum fjármagnsmörkuðum verði erfiðar á næstu 12-18 mánuðum og aðgengi að lánsfé í samræmi við það. Bankinn muni því leggja höfuðáherslu á innlánagrunn sinn erlendis.

29. september 2008 - Eignarhlutur Stoða, áður FL Group, í Glitni var um 32% áður en íslenska ríkið eignaðist 75% hlut í bankanum. Að sögn Júlíusar Þorfinnssonar, yfirmanns samskiptasviðs Stoða, mun félagið ekki tjá sig um málið að svo stöddu en tilkynning verður send út síðar í dag.

Alls áttu 20 stærstu hluthafarnir tæp 67,4% hlut fyrir aðgerðirnar, sem skýrt var frá í morgun en ríkið leggur Glitni til jafnvirði 84 milljarða króna í nýju hlutafé en fær á móti 75% hlut í bankanum.

Hluthafalisti Glitnis, eins og hann er birtur á vef bankans, er eftirfarandi:

  1. FL GLB Holding B.V. 13,344%
  2. FL Group Holding Netherlands B. 11,132%
  3. FL Group hf 5,793%
  4. Þáttur International ehf 5,589%
  5. GLB Hedge 5,014%
  6. Saxbygg Invest ehf 5%
  7. Glitnir bank hf. 4,520
  8. Landsbanki Luxembourg S.A. 2,374
  9. Salt Investments ehf 2,321
  10. Lífeyrissjóðir Bankastræti 7 2,180%
  11. Sund ehf 2,044%
  12. Rákungur ehf 2%
  13. IceProperties ehf 1,75%
  14. Kristinn ehf 1,705%
  15. LI-Hedge 1,318%
  16. Gildi-lífeyrissjóður 1,303%
  17. Icebank hf 0,957%
  18. Langflug ehf 0,914%
  19. Bygg invest ehf 0,880%
  20. Stím ehf 0,867%

29. september 2008 - Gert hefur verið samkomulag milli ríkisstjórnar Íslands og eigenda Glitnis banka hf. að höfðu samráði við Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitið um að ríkissjóður leggi bankanum til nýtt hlutafé. Þetta er gert með hliðsjón af þröngri lausafjárstöðu Glitnis og einstaklega erfiðum aðstæðum á alþjóðlegum fjármálamörkuðum um þessar mundir.

Ríkissjóður mun með milligöngu Seðlabanka Íslands leggja Glitni til hlutafjárframlag að jafnvirði 600 milljóna evra  (eða um 84 milljarða króna) og með því verða eigandi að 75% hlut í Glitni, að því er segir í tilkynningu frá Seðlabanka Íslands.

Boðað verður til hluthafafundar í Glitni svo fljótt sem samþykktir leyfa þar sem tillaga þar að lútandi verður lögð fram til samþykktar.
 
Fjármálaeftirlitið metur eiginfjárstöðu og eignasafn Glitnis traust. Eiginfjárhlutfall Glitnis verður 14,5% eftir þessa aðgerð. Rekstur bankans verður með eðlilegum hætti.
 
Ríkissjóður stefnir ekki að því að eiga eignarhlutinn í bankanum til langframa. Tilgangurinn með þessari aðgerð er að tryggja stöðugleika í fjármálakerfinu.

29. september 2008 - Héraðsdómur Reykjavíkur samþykkti í dag beiðni Stoða, áður FL Group, um greiðslustöðvun til 20. október. Jakob R. Möller hrl. hjá Logos lögmannsþjónustu hefur verið skipaður aðstoðarmaður félagsins á greiðslustöðvunartímanum. 

Hluthafafundi í félaginu, sem halda átti á morgun, hefur verið aflýst vegna greiðslustöðvunarinnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK