FME tekur Glitni yfir

mbl.is/Friðrik

Fjármálaeftirlitið hefur skipað sérstaka skilanefnd um rekstur Glitnis, með vísan í 5. grein laga um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði.

Í tilkynningu frá stjórn Glitnis segir að bankinn hafi óskað eftir því bréflega á mánudagskvöld að Fjármálaeftirlitið nýtti sér nýfengnar heimildir í lögum til að flýta fyrirhuguðum hluthafafundi til samþykktar á aukningu hlutafjár félagsins um 600 milljónir evra í samræmi við hlutafjárloforð ríkisins.

„Fjármálaeftirlitið svaraði ekki þessari málaleitan. Vegna þessa gat ekki orðið af innborgun hlutafjárins í dag. Með því varð undir kvöld ljóst að skilyrði laganna um skilanefnd ættu við," segir í tilkynningu frá stjórn Glitnis.

Þar kemur einnig fram, að þegar ríkið veitti Glitni hlutafjárloforð sitt 29. september hafi Fjármálaeftirlitinu og Seðlabankanum fengið víðtækan aðgangur að nauðsynlegum gögnum um eignagæði, fjárhagstöðu og rekstur bankans. Þessir aðilar hafi þannig vel upplýstir um sterka eignastöðu. „Allar fullyrðingar um brostnar forsendur fyrir hlutafjáraukningu ríkisins eru því rangar."

mbl.is

Bloggað um fréttina

Svæði

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir