Brown hótar aðgerðum gegn Íslandi

Gordon Brown og Alistair Darling á blaðamannafundi í Lundúnum í ...
Gordon Brown og Alistair Darling á blaðamannafundi í Lundúnum í dag. Reuters

Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands, sagði við breska ríkisútvarpið BBC í morgun, að bresk stjórnvöld muni leita réttar síns gagnvart Íslandi, standi íslenska ríkið ekki við skuldbindingar sínar gagnvart breskum sparifjáreigendum sem lögðu fé á reikninga hjá Icesave, netbanka Landsbankans.

Talsmaður breska fjármálaráðuneytisins sagði hins vegar í morgun, að unnið væri með íslenskum stjórnvöldum til að tryggja, að sparifjáreigendurnir fái peninga sína til baka eins fljótt og hægt er.

Alistair Darling, fjármálaráðherra Bretlands, sagði í morgun við BBC að íslensk stjórnvöld ætli ekki að standa við skuldbindingar sínar um að tryggja innistæður á reikningum Icesave. Bresk stjórnvöld ætli hins vegar að tryggja, að reikningseigendurnir fái alla sína peninga til baka. Talsmaður fjármálaráðuneytisins segir, að ráðuneytið ábyrgist að enginn muni tapa peningum á viðskiptum við Icesave. Hafa bresk stjórnvöld fryst allar eignir Landsbankans í Bretlandi þar til staðan skýrist.

Talið er að 2-300 þúsund manns eigi innistæður á Icesave.  

„Íslenska ríkisstjórnin tilkynnti mér í gær, hvort sem þið trúið því eða ekki, að hún ætlaði ekki að standa við skuldbindingar sínar hér," sagði Darling við BBC. „Vegna þess að þetta er útibú erlends banka þarf íslenski tryggingarsjóðurinn að tryggja fyrsta hlutann af innistæðunum en mér sýnist sá sjóður vera tómur," sagði Darling. 

„Samkvæmt breskum reglum munu bresk stjórnvöld síðan bæta skaðann upp að 50 þúsund pundum en þeir sem áttu hærri innistæður myndu tapa þeim. Vegna þess að þetta eru sérstakar kringumstæður hef ég ákveðið, að við munum standa við bakið á sparifjáreigendunum svo þeir tapi engu."

Geir H. Haarde, forsætisráðherra, sagði á blaðamannafundi í gær, þegar BBC spurði hann um innistæður Breta í Icesave, að ef þörf væri á þá myndi íslenska ríkið styðja Tryggingarsjóð innistæðueigenda í að afla nauðsynlegs fjármagns svo sjóðurinn gæti staðið við lágmarksskuldbindingar sínar í kjölfar gjaldþrots eða greiðslustöðvunar íslensks banka.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir