FME yfirtekur Kaupþing

Höfuðstöðvar Kaupþings við Borgartún.
Höfuðstöðvar Kaupþings við Borgartún. mbl.is/Golli

Fjármáleftirlitið greip í nótt inn í rekstur Kaupþings með sama hætti og stofnunin hefur yfirtekið rekstur Landsbankans og Glitnis og segir það gert til að tryggja áframhaldandi viðskiptabankastarfsemi á Íslandi. Útibú bankans á Íslandi, þjónustuver, hraðbankar og netbankar verða opin.

Forsvarsmenn Kaupþings viðurkenndu sig sigraða seint í gærkvöld og ákváðu að afhenda bankann í hendur Fjármálaeftirlitinu. Fjármálaeftirlitið og skilanefnd á vegum þess taka yfir stjórn Kaupþings í dag. Vonbrigði Kaupþingsmanna eru að vonum gífurleg.

Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins telja forsvarsmenn Kaupþings að viðbrögð Breta við Icesave-reikningunum og umræðum í Bretlandi um að innistæður á þeim reikningum yrðu ekki tryggðar af íslenskum stjórnvöldum, hafi ráðið úrslitum um að breska fjármálaeftirlitið réðst gegn þeim með mjög harkalegum hætti í gærmorgun og var skömmu síðar búið að taka yfir og loka dótturfyrirtæki Kaupþings í Bretlandi, Singer & Friedlander.

Krafðir um greiðslur

Samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins var hringt í Kaupþing í London fyrir kl. 7 í gærmorgun og bankinn krafinn um 300 milljóna punda greiðslu fyrir kl. 9 um morguninn, og jafnframt var honum greint frá því að innan tíu daga yrði Kaupþing í Bretlandi að reiða fram 2,3 milljarða punda, sem er jafnhá upphæð og öll innlán dótturfyrirtækisins. Á meðan Kaupþing hafi verið að reyna að uppfylla þessi skilyrði og leita lausna fyrir fyrirtækið, hafi frétt komið á Sky fréttastöðinni um að ING hefði yfirtekið innlán Singer & Friedlander.

Kaupþingsmenn eru sannfærðir um að Alistair Darling, fjármálaráðherra Breta, hafi í máli sínu í gærmorgun verið að vísa til orða Davíðs Oddssonar seðlabankastjóra í Kastljósi Sjónvarpsins í fyrrakvöld, þegar hann greindi frá því að Íslendingar ætluðu ekki að borga. „They are not going to pay!“ sagði ráðherrann. Telja þeir að þessi túlkun fjármálaráðherrans á orðum seðlabankastjóra, með skírskotun til tryggingagreiðslna vegna Icesave-innlánsreikninganna, hafi riðið baggamuninn og allt traust erlendra lánardrottna hafi beinlínis gufað upp á augabragði.

Fyrirtækið tekið með valdi

Vonbrigði forsvarsmanna Kaupþings eru gífurleg. „Við vorum ekki í vanskilum, vorum með nægt laust fé og góða eignastöðu. En fyrirtækið var tekið af okkur með valdi í Bretlandi og við gátum ekkert gert,“ sagði viðmælandi Morgunblaðsins á tólfta tímanum í gærkvöld.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK