Tímaspursmál hvenær leitað verður til IMF

Sérfræðingar sem bandaríska dagblaðið New York Times vísa í telja að það sé einungis tímaspursmál hvenær Ísland verði að leita til Alþjóða gjaldeyrissjóðsins (IMF) eftir aðstoð. Slíkt inngrip, sem þýðir að Ísland verður fyrst fullvalda ríkja til þess að verða fjármálakreppunni að bráð, krefst þess að ríkið verður að sætta sig við að grípa til harðra aðgerða til þess að endurreisa stöðugleika í efnahags- og peningamálum.

Segir í frétt NYT að Ísland hafi reynt að forðast slík inngrip í lengstu lög en staða landsins hafi versnað mikið í gær þegar ríkið tók yfir Kaupþing og Kauphöll Íslands var lokað. Viðskipti með krónuna hafi stöðvast þar sem erlendir bankar taki ekki lengur við gjaldmiðlinum jafnvel þó að kjörins séu góð. Ekki bæti úr skák deilan við bresk stjórnvöld sem beittu ákvæðum hryðjuverkalaga gagnvart Íslandi.

„Ísland er gjaldþrota," segir Ársæll Valfells, prófessor við Háskóla Íslands, í viðtali við NYT. „Íslenska krónan heyrir sögunni til. Eina skynsamlega lausnin er að Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn komi og bjargi okkur," bætir hann við.

Segir í frétt NYT að Geir H. Haarde, forsætisráðherra, hafi varað við þjóðargjaldþroti í vikunni og neitað því í gær að tjá sig um hvort Ísland myndi óska eftir björgunarpakka frá IMF. „Við höldum þeim möguleika opnum en við höfum ekki tekið ákvörðun þar að lútandi," hefur NYT eftir Geir á blaðamannafundi.

Sendinefnd á vegum IMF hefur verið í Reykjavík alla vikuna og Árni Mathiesen, fjármálaráðherra er farinn til Washington ársfund IMF og Alþjóðabankans.

Dominique Strauss-Kahn, framkvæmdastjóri IMF, sagði í Washington í gær að hann hefði virkjað á ný neyðaráætlun sjóðsins sem hefur ekki verið við lýði frá því í fjármálakreppunni í Asíu á níunda áratug síðustu aldar. „Við erum reiðubúnir til þess að svara beiðni ríkja sem eiga í vandræðum," sagði Strauss-Kahn, án þess að nefna Ísland á nafn.

Portes: Eina sem Ísland getur gert er að leita til IMF

NYT hefur eftir Richard Portes, hagfræðingi hjá London Business School og annars skýrsluhöfunda um Ísland, að undir þeim kringumstæðum sem nú ríki þá sé það væntanlega eina sem Ísland geti gert - að leita til IMF.

Bloomberg fréttastofan hafði eftir gjaldeyrismiðlara hjá Nordea bankanum í Kaupmannahöfn í gær að viðskipti með krónuna gagnvart evru hefðu verið á genginu 340. Verðgildi krónunnar hefði því rýrnað mikið á einungis einni viku.

Mæla með upptöku evru

Bæði Ársæll og Portes segja í fréttinni að það rétta sé eftir að stöðugleiki næst á Íslandi, væntanlega með aðstoð frá IMF, sé að gefa krónuna upp á bátinn og taka upp evru. En hvað sé til ráða þegar Ísland sé ekki einu sinni aðili að Evrópusambandinu? Væntanlega að tengja krónuna við evruna en það myndi þýða að Ísland yrði að gefa eftir sjálfstæða peningastefnu og hún færi til Seðlabanka Evrópu ásamt stjórn stýrivaxta. Þetta geti hins vegar reynst landinu erfitt því það þýði að Seðlabanki Íslands missi valdið til þess að verja gjaldmiðilinn verði hann fyrir árás.

Það veki upp aðra spurningu: Að ganga í Evrópusambandið og taka upp evru. Þar sem Ísland er þegar hluti af evrópska efnahagssvæðinu þá sé það auðvelt. Þetta þýði hins vegar viðsnúning í pólitískri stjórn þar sem Sjálfstæðisflokkurinn hafi lýst sig andvígan inngöngu í ESB.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK