Keypti stóran hlut í LÍ rétt fyrir þrot

Reuters

Fjármálaeftirlitið  ákvað í gær að taka viðskipti með bréf í Landsbankanum föstudaginn 3. október sl., rétt áður en bankinn fór í þrot, til athugunar. Ekki fékkst uppgefið hjá eftirlitinu nákvæmlega að hverju athugun þess beinist.

Fimmtudaginn 2. október voru heildarviðskipti með hlutabréf í Landsbankanum 5,1 milljarður króna og föstudaginn 3. október 11,3 milljarðar króna, samkvæmt dagsyfirliti frá Kauphöllinni. Fjármálaeftirlitið tók yfir stjórn bankans mánudaginn 6. október.

Landsbankinn veitti Imon ehf., eignarhaldsfélagi í eigu Magnúsar Ármann, lán til þess að kaupa stóran hlut í bankanum sjálfum þremur dögum áður en Fjármálaeftirlitið tók yfir stjórn bankans, samkvæmt heimildum Morgunblaðsins. Lánið var tryggt m.a. með veðum í tilteknum hlutabréfum, samkvæmt upplýsingum blaðsins. Hlutabréfin sem sett voru að veði voru þó ekki í hinum stóru bönkunum, Kaupþingi og Glitni.

Á nýjum hluthafalista Landsbankans er Imon ehf. orðinn fjórði stærsti hluthafi bankans með 4% hlut. Var þessi hlutur keyptur föstudaginn 3. október. Á hluthafalista bankans í lok dags 2. október var bankinn sjálfur skráður fyrir 5,9% hlut en 4,8% í lok dags daginn eftir.

Á sama tíma veðjaði stjórn Glitnis gegn bréfum í Landsbankanum og seldi þau öll, 0,8% hlut, og Lífeyrissjóður verslunarmanna minnkaði hlut sinn um 0,6%. Útibú Landsbankans í Lúxemborg stækkaði hlut sinn í bankanum um 1,7%, en skýringin á því eru kaup erlendra fjárfesta í gegnum útibúið.

Nokkur umræða hefur verið í fjölmiðlum um meint óeðlileg viðskipti með hlutabréf í Landsbankanum dagana áður en bankinn fór í þrot. Stærstu hluthafar bankans seldu þó ekki bréf sín í bankanum á þessum tíma.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK