Málshöfðun hugsanlega innan nokkurra vikna

Höfuðstöðvar Singer & Friedlander, dótturfélags Kaupþings í Lundúnum.
Höfuðstöðvar Singer & Friedlander, dótturfélags Kaupþings í Lundúnum.

Breskir lögmenn, sem undirbúa hugsanlega málshöfðun Kaupþings á hendur breskum stjórnvöldum, segja við blaðið The Times, að margt bendi til þess að stjórnvöld hafi farið á svig við þarlend lög þegar dótturfélag Kaupþings í Lundúnum var sett í greiðslustöðvun. Mál gæti verið höfðað innan nokkurra vikna.

Lögmenn hjá Grundberg Mocatta Rakisoneru að undirbúa málshöfðunina fyrir Kaupþing, sem telur að sú ákvörðun, að neyða Singer & Friedlander, dótturfélag Kaupþings, í greiðslustöðvun og færa 2,5 milljarða punda innlánsreikninga til hollenska bankans ING hafi brotið gegn breskum lögum.

The Times segir, að ef málið haldi áfram kunni það að fletta ofan af örvæntingarfullum aðgerðum bakvið tjöldin þegar embættismenn vildu tryggja innistæður breskra sparifjáreigenda hjá íslenskum bönkum.

Blaðið hefur eftir Richard Beresford, einum af eiganda lögmannsstofunnar, að ákvörðun breska fjármálaráðuneytisins að setja Singer & Friedlander í greiðslustöðvun hafi í raun leitt til þess uppnáms, sem varð á fjármálamarkaði og leiddi til hruns móðurfélagsins á Íslandi um kvöldið.

Segir Beresford, að ríkisstjórnin hafi fyrir mistök spyrt alla íslensku bankana saman og að Kaupþing hefði ekki fallið ef ekki hefði komið til þessara aðgerða. 

Beresford segir, að Kaupþing hafi mikið til síns máls þegar það heldur því fram að fjármálaráðuneytið hafi farið út fyrir lagaramma sinn. Ráðuneytið bar fyrir sig sérlög um banka, sem sett voru fyrr á þessu ári til að gera breskum stjórnvöldum kleift að þjóðnýta bankann Northern Rock.

Kaupþing ætlar einnig að krefjast skaðabóta vegna misbeitingar opinbers valds og vanrækslu. Segir Beresford að slíkar bótakröfur gætu numið milljörðum punda en jafnframt yrði mun erfiðara að færa sönnur á réttmæti þeirra.

The Times segir, að meðal breska lögmanna hafi sú skoðun heyrst, aað þarlend stjórnvöld hafi farið út fyrir valdsvið sitt þegar þau beittu lögum um varnir gegn hryðjuverkum til að frysta eignir Landsbankans. 

Fái Kaupþing leyfi til málshöfðunar munu lögmenn bankans væntanlega krefjast þess að fá aðgang að bréfaskriftum og öðrum gögnum um samskipti háttsettra embættismanna og ráðgjafa þeirra til að reyna að sýna fram á, að aðgerðirnar gegn Kaupþingi hafi átt sér pólitískar ástæður. Þetta gæti orðið til þess, að samtöl milli Gordons Browns, forsætisráðherra, og Alistairs Darlings, fjármálaráðherra, verði rakin í réttarsalnum.

Kaupþing hefur þriggja mánaða frest til að sækja um slíkt leyfi en Beresford segir, að frumrannsókn, sem jafnan er undanfari formlegrar málshöfðunar, gæti lokið eftir nokkrar vikur.

Talsmaður breska fjármálaráðuneytisins sagði við The Times, að Singer & Friedlander hefði verið settur í greiðslustöðvun í samræmi við eðlilegan lagaferil. Hann bætti við, að þessi aðgerð tengdist með engum hætti stöðu móðurfélagsins, Kaupþings, sem hlýti íslenskum lögum.

„Við vinnum náið með íslenskum stjórnvöldum og höfum náð verulegum árangri í mörgum málum, sem tengjast íslenskum bönkum í Bretlandi," sagði talsmaðurinn.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK